Umsóknarréttur bundinn búsetu

Undir fyrirsögninni „Ég er útlagi í öðru landi og kemst ekki heim“ birti Lifðu núna fyrr í vikunni grein byggða á frásögn íslenskrar konu sem búsett hefur verið í Danmörku í nokkur ár. Konan, sem er 73 ára og lifir á íslenskum eftirlaunum, segist hafa verið að reyna að flytja aftur til Íslands síðan í september 2021, en sér hafi ekki reynzt það unnt þar sem leiguverð húsnæðis sé „ofar skýjum“ eins og hún orðar það og reglur sveitarfélagsins þar sem hún bjó fyrir flutninginn út útiloki hana frá því að geta sótt um félagslegt leiguhúsnæði.

Konan segir að mál hennar hafi verið tekið fyrir hjá a.m.k. tveimur mismunandi nefndum hjá bæjarfélaginu, annarri skipaðri starfsfólki félagsþjónustu og hinni pólitískt kjörnum fulltrúum. „Ég fékk á tilfinninguna að ekki hafi nú verið lesið vel í gegnum skjölin frá mér því aldrei kom rökstuðningur frá nefndinni, heldur aðeins vitnað í lög og reglugerðir,“ segir hún. Sér hafi svo verið vísað áfram til Úrskurðarnefndar velferðarmála til að láta reyna á málið þar. En þá hafi hún gefist upp fyrir vindmyllum Kerfisins.

Lifðu núna kannaði hvort sambærileg mál væru þekkt. Það er vissulega svo að í reglum flestra ef ekki allra sveitarfélaga er kveðið á um að umsækjandi um félagslegt húsnæði verði að hafa verið búsettur, þ.e. haft skráð lögheimili, í sveitarfélaginu um tiltekinn tíma áður en umsókn er lögð fram. Í tilfelli sveitarfélagsins sem um ræðir, Kópavogsbæjar, gildir (feitletrun er blaðamanns):

Umsóknarréttur er bundinn eftirfarandi skilyrðum:

− Umsækjandi hafi náð 18 ára aldri

Umsækjandi hafi átt lögheimili og aðsetur í Kópavogi að öllu jöfnu í 6 mánuði áður en umsókn berst.

− Umsækjandi eigi ekki í bæjarfélaginu, né annars staðar, þegar umsókn er lögð inn, fasteign í neinu því formi sem jafna má til íbúðarhúsnæðis, nema þá því aðeins að seinna uppboð hafi farið fram eða það auglýst. Er þá jafngilt hvort sem um almenna eignaríbúð, félagslega eignaríbúð eða kaupleiguíbúð er að ræða.

− Umsækjandi skal, ef óskað er eftir, skila staðfestingu á að hann standist ekki greiðslumat vegna íbúðakaupa.

Fordæmi í úrskurðum

Við leit í uppkveðnum úrskurðum Úrskurðarnefndar velferðarmála má finna úrskurði sem snerta sambærilega þætti. Má þar nefna mál nr. 250 frá síðastliðnu ári, en úrskurður nefndarinnar í því máli var kveðinn upp 19. ágúst 2021. Í úrskurðinum eru fyrri ákvarðanir sveitarfélagsins sem þar um ræðir, Reykjavíkurborgar, staðfestar. Fyrst hafði þjónustumiðstöð borgarinnar synjað umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði, og þá ákvörðun hafði áfrýjunarnefnd velferðarráðs borgarinnar staðfest. Staðfesting synjunarinnar er í öllum tilvikum grundvölluð á því að umsóknarréttur um félagslegt húsnæði sé bundinn skilyrði um búsetu í sveitarfélaginu, í tilviki Reykjavíkurborgar í tólf mánuði áður en umsókn er lögð fram. Er kveðið á um þetta skilyrði í a-lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Kærandi var vissulega búsettur í Reykjavík þegar hann lagði inn umsókn sína um félagslegt leiguhúsnæði, en hafði á þeim tímapunkti ekki átt þar lögheimili í tilskilda tólf mánuði.

En hvað er þá til ráða fyrir manneskju í sporum konunnar í Kaupmannahöfn? Hennar vandi er sá að geta ekki flutt lögheimili sitt frá Kaupmannahöfn nema flytja í reynd til Íslands, en það kveðst hún ekki geta þar sem hún hafi ekki aðgang að húsnæði á Íslandi sem hún hafi efni á, að óbreyttu. Aðgang að félagslegu leiguhúsnæði fengi hún ekki nema að þar til bær yfirvöld sveitarfélagsins veittu henni undanþágu frá búsetutíma-/lögheimilisreglunni. Bæjarfélagið ákvað að veita ekki þá undanþágu, og þar við situr. Hún hefði vissulega getað látið reyna á málið fyrir Úrskurðarnefnd velferðarmála – en fordæmið sem rakið er hér að framan (mál nr. 250/2021) gefur ekki mikið tilefni til að ætla að Úrskurðarnefndin teldi rétt að hnekkja afgreiðslu Kópavogsbæjar á máli konunnar. En um slíkt er auðvitað ekki hægt að fullyrða nema að nefndin fái málið til umfjöllunar.

Biðlistar og mat á forgangi

Í þessu samhengi er líka rétt að hafa í huga að mislangir biðlistar eru eftir öllu félagslegu leiguhúsnæði, og er því almennt úthlutað eftir mati á því hve brýn þörf umsækjenda er. Að vera ellilífeyrisþegi gefur vissulega tiltölulega mörg stig í slíku stöðluðu mati, en margt annað í félagslegum aðstæðum umsækjenda getur sett þá framar í úthlutunarröðina.

Skal hér að lokum bent á upplýsingar um þær almennu reglur sem gilda um félagslegt húsnæði, sem finna má á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar. 

Ritstjórn febrúar 11, 2022 07:00