Ýmis útgjöld minnka en önnur aukast með aldrinum

Þegar fólk hættir þáttöku á vinnumarkaði lækka tekjurnar oft verulega. Það á líka við um ýmis útgjöld þó önnur kunni að hækka. Hér koma nokkur dæmi um það:

Bensínkostnaður lækkar. Menn geta sparað sér bensínkostnað þegar þeir þurfa ekki lengur að keyra í vinnuna. Börnin eru flogin úr hreiðrinu og útgjöld vegna daglegra þarfa þeirra eru yfirleitt úr sögunni. Lánin sem hvíldu á húsnæðinu eru stundum uppgreidd á þessum aldri, þó segja megi að kynslóðin með verðtryggðu lánin sé iðulega að borga af þeim fram í andlátið.  Á móti koma útgjöld vegna nýrra áhugamála og jafnvel ferðalaga innanlands og utan. En hver sem staðan er, þá er nauðsynlegt að fara vel yfir fjárhagsstöðuna áður en menn fara á eftirlaun.  Athuga hverjar tekjurnar verða og hvernig unnt er að laga útgjöldin að þeim. Það er aldrei hægt að sjá allt fyrir, en gott að gera sér einhverja hugmynd um hvernig fjárhagsleg staða verður.

Heilbrigðisútgjöld. Það er viðbúið að menn greiði meira fyrir heilbrigðisþjónustu á efri árum en þeir gerðu á meðan þeir voru ungir.  Það eru heimsóknir til lækna, rannsóknir og lyfjakostnaður margra er umtalsverður.  Þá er hægt að fara í augnaðgerðir á einkastofum og þær kosta sitt, kjósi menn að notfæra sér þennan möguleika. Nýlega var veitt um 1.6 milljörðum króna í að stytta biðlista í algengar aðgerðir, sem ætti að hafa í för með sér að það verður auðveldara að komast í aðgerðir hjá opinbera heilbrigðiskerfinu. Það kostar 1.200 krónur að fara til læknis á heilsugæslustöð á dagvinnutíma, en 600 krónur fyrir fólk sem er alveg komið á eftirlaun og hefur þá einmitt betri möguleika á að sækja þessa þjónustu á daginn. Þeir sem eru hættir að vinna og að fullu farnir að taka sín eftirlaunaréttindi, fá eining afslátt ef þeir fara til sérfræðings. Líka í ákveðnar rannsóknir og beinþéttnimælingu.

Lífeyrir hækkar ef töku hans er frestað. Margir verða undrandi á hversu lítið þeir fá í launaumslaginu frá Tryggingastofnun eða lífeyrissjóðnum þegar þar að kemur. Það er hins vegar hægt að hafa áhrif á hversu mikið menn fá, með því að hefja tökur lífeyris eins seint og mögulegt er. Með því að fresta því að taka ellilífeyrir í til dæmis í fimm ár, frá 67 ára til 72 ára,  hækkar hann um 0.5 prósent á mánuði eða sex prósent á ári –  eða sem nemur 30 prósentum á tímabilinu. Með nýju lögunum sem taka gildi um áramót, geta þeir sem eru fæddir árið 1952 og síðar frestað töku lífeyris til 80 ára.

Fyrirbyggjandi aðgerðir. Það sparar að sama skapi peninga, ef menn halda sér í formi og komast hjá því í lengstu lög að leita mikið til heilbrigðiskerfisins.   Meðallífslíkur íslenskra kvenna eru nú 83-84 ár, en íslenskir karlar lifa að meðaltali í 81 ár. Lífslíkur Íslendinga eru með þeim bestu í Evrópu og fólk lifir líka almennt lengur við góða heilsu.  Auðvitað getur fólk veikst af alvarlegum sjúkdómum, en ef menn temja sér heilbrigða lifnaðarhætti, borða hollan og fjölbreyttan mat, hreyfa sig reglulega og halda sér í kjörþyngd, eru meiri líkur á að þeir eigi lengra og betra líf. Það er líka góð regla að fara í læknisskoðum reglulega. Svanur Sigurbjörnsson læknir mælir til dæmis með því að menn láti fylgjast reglulega með blóðsykri og kólesteróli. Hann telur nóg fyrir fólk upp úr miðjum aldri að fylgjast með því á þriggja til fimm ára fresti hafi menn góð gildi, góðar blóðfitur og eðlilegan blóðsykur og þá sérstaklega ef fólk fitnar ekki of mikið, lendir ekki í alvarlegum veikindum eða verður kyrrsetufólk.

Að vinna lengur. Ein leið til að bæta fjárhaginn á efri árum er að afla sér meiri tekna, eða vinna lengur.  En það eru ekki allir sem geta það og skerðingar í almannatryggingakerfinu hér á Íslandi virka svo sannarlega ekki hvetjandi á fólk að vinna lengur. Frítekjumarkið verður um áramótin lækkað úr rúmlega 100.000 krónum á máunði í 25.000 krónur.  Atvinnutekjurnar minnka síðan ellilífeyrinn frá Tryggingastofnun, auk þess sem skattur er að sjálfsögðu greiddur af þeim.  Það verða því aðeins um 30%  af 100.000 krónunum sem skila sér á endanum í vasa þess sem stundar vinnu á efri árum.  Þessu þarf nauðsynlega að breyta, því margir geta og vilja vinna lengur.  Þeir vilja halda við þekkingu sinni og færni, taka þátt í samfélaginu og bæta fjárhaginn.  Við hjá Lifðu núna höfum stundum rætt við eldra fólk sem vill halda áfram að vinna, en það er ekki alltaf mögulegt.  Til viðbótar skerðingunum, sem minnka tekjurnar, er stundum erfitt fyrir fólk að fá vinnu eftir sextugt og jafnvel fyrr. Viðhorf samfélagsins til eldra fólks eru þannig líka þröskuldur í vegi eldra fólks sem vill vinna áfram.

Afslættir. Félög eldri borgara hafa afslætti víða, rétt eins og ýmis önnur félög.  Afslættir eru oft á bilinu 5-10% en ákveðin fyrirtæki veita eldri borgurum mun meiri afslátt, svo sem Slippfélagið sem selur málningu og Gleraugnaverslunin Glæsibæ sem hefur árum saman veitt eldri borgurum 35% afslátt.  Þó afsláttur sé ekki mjög mikill, safnast þegar saman kemur. Það væri líka ástæða fyrir eldra fólk að skoða það að kaupa meira í gegnum netið, ef þeir hafa tölvufærni til þess eða einhvern sem getur aðstoðað þá við það. Það hefur margsinnis komið fram, að fleiri og fleiri nota erlendar netverslanir, sem bjóða margfalt lægra verð á mörgum nauðsynlegum vörum en almennt gerist hér á landi.

Ritstjórn desember 5, 2016 11:56