Okkar fiðruðu vinir

Núna er gósentíð fuglaskoðara. Farfuglar eru að hefja sig til flugs frá vetrarstöðvum sínum til varpsvæðanna. Ótal margir flækjast hingað og eiga hér hvíldarstopp í mislangan tíma. Undarlegt fólk úr öllum stéttum, af báðum kynjum og hvaðan æva að hleypur af stað með öfluga sjónauka og linsur að vopni og keppist við að koma auga á þá. Fuglabækur eru einnig gott veganesti og nú er komið út listaverk sem sýnir fuglaskoðun í skemmtilegra ljósi en fræðibækurnar.

Þetta er bókin Fuglar eftir þau Hjörleif Hjartarson og rán Flygenring. Hjörleifur skrifar einstaklega skemmtilegan texta og nær að draga fram sérkenni fuglanna á kímin og nýstárlegan hátt. Hann setur líferni þeirra, útlit og kjörlendi í mannlegt samhengi. Til að mynda fáum við að vita hvaða andasteggir eru óábyrgir feður, hálfgerðir spjátrungar sem heilla kollurnar með skrauti sínu og fegurð en láta sig hverfa allskjótt þegar ungar taka að skríða úr eggjum og alvara lífsins tekur við.

Að auki fæst hér góð innsýn í skaphöfn, spörfugla, ránfugla, hænsnfugla og furðufugla. Fyrir áhugasama fuglavini eru þetta engu síður verðmætar upplýsingar en þær sem finna má í þungbrýnni fræðibókum.  Margvíslegar þjóðsögur tengdar fuglum eru hér einnig raktar sem og þau nyt sem menn hafa haft af þeim í gegnum tíðina.

Bráðfyndnar myndir

Myndir Ránar Flygenring eru hreint út sagt dásamlegar og ekki hægt annað en að skella upp úr þegar þær eru skoðaðar. Vissulega nýtast þær ekki eins vel til að þekkja fuglinn úti í náttúrunni og ljósmyndir eða nákvæmar teikningar en þær hafa skemmtanagildi umfram hinar.

Aftast í bókinni er að finna myndir af eggjum allra fugla, upplýsingar um aldur þeirra og stærð, málshættir þar sem þeir koma við sögu, veðurspá fugla og þjóðtrú. Þar er einnig auð síða til þess að ungir sem aldnir fuglaskoðarar geti skráð hjá sér þær tegundir sem þeir rekast á.

Þótt bókin sé skrifuð í léttum dúr eru allar upplýsingar sem þar er að finna réttar. Þarna er að fá mikla fræðslu um kjörlendi hverrar fuglategundar, hreiðurgerð, varp, fjölskyldulíf, far eða kyrrstöðu og lífshlaup. Hún er hins vegar góð leið til að vekja áhuga og byrja að kynna sér íslenska fugla. Eldri fuglaskoðarar hafa hér fengið gott vopn í hendur til að virkja þá yngri. Bókin er tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka og á sannarlega skilið að sitja á þeim lista.

Á hinssegin fuglaveiðum

Fuglaskoðun er skemmtilegt áhugamál. Það gefur allri fjölskyldunni færi á að fara saman út í náttúruna og láta reyna á athyglisgáfuna. Til eru góðir, ekki mjög dýrir kíkjar fyrir börn og fullorðna fólkið ræður alveg hve vandaða sjónauka það kýs að kaupa. Scope eru frábær viðbót og flott fyrir þá sem takast á við fuglana af mikilli alvöru. Mjög margir byrja hvert ár á fuglskoðunarferð og skrá hjá sér þær tegundir sem þeir sjá á fyrsta degi ársins. Þannig fæst áhugaverður samanburður en allir alvöru fuglaskoðarar byrja að telja á ný ár hvert. Þeir sem eiga góðar myndavélar bæta svo við myndum. Fuglaskoðun er ódýrt áhugamál því útbúnaðurinn þarf ekki að vera flókinn eða dýr en krefst þolinmæði og þolgæðis gagnvart veðri, vindum, votlendi og hrekkvísi fugla sem hafa lag á að fela sig vandlega fyrir vonglöðum safnendum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 20, 2024 07:00