Kemst ekki yfir helming þess sem mig langar

Árni Gunnarsson verkfræðingur er fjölhæfur maður sem eins og fleiri „dellukarlar“ hefur komið sér upp aðstöðu í rúmgóðu geymslubili í Hafnarfirði fyrir „leikföngin“ sín. Í hans tilviki er þar aðallega um að ræða vélsleða, sexhjól, byssur og veiðistangir. Vélsleðann notar hann til ferðalaga á hálendinu að vetrum, og sexhjólið fyrst og fremst í veiðiferðir, bæði stang- og skotveiði.

Árni er nýlega hættur að vinna, eða réttar sagt er smám saman að hnýta lausa enda eftir rekstur eigin verkfræðistofu um langt árabil. Á starfsferli sínum sérhæfði Árni sig í jarðhitatækni og vann við undirbúning og uppsetningu jarðhitavirkjana bæði hérlendis og erlendis.

„Já, nú er ég bara að fylgja eftir síðustu samningsbundnu verkefnunum,“ segir hann – en bætir við:  „En staðan er samt sú að ég kemst ekki yfir helminginn af öllu því sem mig langar til að gera!“

Veiði og skíði

Þar er hann fyrst og fremst að vísa til áhugamálanna, sem flest hafa með útivist að gera. Árni hefur stundað útivist af ýmsu tagi allt frá barnæsku. „Ég var heppinn að eiga föður sem dró mig snemma í veiði, bæði lax- og skotveiði,“ segir hann. „Ég var á tólfta ári þegar faðir minn tók mig fyrst með í laxveiði. Það var í Miðfjarðará og Litlu-Kverká, sem renna til sjávar í Bakkaflóa. Faðir minn og fjórir veiðifélagar hans keyptu saman jarðir þar og tóku árnar á leigu.“

Á leið á hreindýraveiðar. Sexhjólið fjölhæfa í forgrunni.

Árni segir að fljótlega eftir að hann sneri aftur heim úr námi í Svíþjóð hafi fjölskyldan keypt jeppa sem nýttist vel í veiðiferðir og fleira. Árni nam vélaverkfræði við Kungliga Tekniska Högskolan í Stokkhólmi, og tók framhaldsnám í viðskiptafræði við Handelshögskolan í sömu borg.

„Ég stundaði líka skíðaíþróttina af kappi, sem ég kynntist fyrst á námsárunum í Svíþjóð, þangað til fyrir svona fjórum-fimm árum að ég ákvað að hætta því vegna slitinna liðþófa – og svo líka vegna þess að ég var kominn með ástríðu fyrir golfíþróttinni, og mátti ekki til þess hugsa að slasa mig á skíðum og geta þá ekki stundað golf.“

Árni sat lengi í rekstrarstjórn skíðadeildar KR. „Við önnuðumst um árabil, í sjálfboðastarfi, rekstur skíðasvæðis KR í Skálafellinu. Þegar best lét vorum við allar helgar í fjallinu frá jólum fram að páskum!“

Auk laxveiðinnar hefur Árni stundað skotveiði af álíka ástríðu álíka lengi. Hreindýraveiðar hefur hann stundað síðan árið 1994. Segist hafa veitt hreindýr flest ár síðan. Fyrst á svonefndu veiðisvæði 6, sem er sunnarlega á hreindýraslóðunum austanlands, upp af Skriðdal. Síðan, eftir að hreindýrin voru í auknum mæli farin að ganga lengra í norður, flutti hann sig yfir á svæði 1, sem gerir honum kleift að halda til veiða frá sinni „veiði-heimaslóð“ Miðfirði upp af Bakkaflóa.

Á vélsleðum í 40 ár 

Svo komu vélsleðarnir. „Ég eignaðist fyrsta vélsleðann í ársbyrjun 1981. Ótrúlega skemmtilegt tæki, sem reyndar nýttist líka vel í vinnu minni við að leiða rannsóknir á Nesjavöllum í aðdraganda byggingar virkjunarinnar. Maður lét líka lengst af vinnuna ganga fyrir leikaraskapnum – en ég hef samt haldið öllum þessum áhugamálum við,“ segir hann. Nema skíðaiðkuninni, eins og að framan er nefnt.

Árni við uppáhalds-ferðasleðann sinn í „dótakassanum“ í Hafnarfirði.

„Konan er með mér í þessu öllu,“ segir Árni aðspurður, og bætir við að nú standi einmitt fyrir dyrum paraferð á vélsleðum um Strandir. Kona Árna er Kolbrún Olgeirsdóttir kennari. „Í svona paraferðum er farið rólega yfir. Við dveljum yfir helgi á Hótel Djúpavík, en þaðan er ekið á vélsleðunum upp á hálendi Vestfjarðakjálkans. Þessar ferðir eru orðnar mjög vinsælar, setið um hvert pláss sem losnar. Við pöntuðum strax sl. haust,“ segir hann.

Þegar blaðamaður hitti á Árna í „dótakassanum“ hans í Hafnarfirði var hann reyndar nýkominn úr aðeins meira krefjandi vélsleðaferð um sama svæði, og var að dytta að stóra Arctic Cat-ferðasleðanum sínum. „Við vorum rúmlega 20 vanir sleðamenn í þessari ferð, undir leiðsögn Magnúsar Péturssonar og félaga sem reka Hótel Djúpavík þessa dagana. Um það bil helmingur ferðafélaganna í þessari ferð er hópur sleðamanna sem hefur haldið svolítið hópinn nokkuð lengi. Í sleðaferð fyrir allnokkrum árum að Fjallabaki kynntist ég fyrir tilviljun nokkrum félögum í sportinu, búsettum á Suðurlandi, sem höfðu þá tekið á leigu skála við Landmannahelli. Við höfum farið saman í margar ferðir síðan, mest á Fjallabakssvæðinu og þar upp af, en líka á öðrum landshornum eins og nú um Strandirnar,“ segir Árni.

Á rafhjólum um fjöll og firnindi

Á raf-fjallahjóli í Ingólfsfirði á Ströndum. Kolbrún tók myndina.

„Við hjónin keyptum rafmagnshjól fyrir nokkrum árum og höfum notað þau óspart til ferðalaga á sumrin, auk þess að fara flestra okkar ferða innanbæjar á þeim,“ segir Árni, og rekur nokkur dæmi um fjölhæfni fjalla-rafhjóla til ferðalaga í íslenskri náttúru:

„Það er alveg magnað hvað er hægt að komast á svona fjalla-rafhjóli. Við höfum t.d. reynslu af því að fara upp Reykjadal við Hveragerði, þar sem er jú vinsæl gönguleið að jarðhitasvæði, náttúrulaug og upp á Ölkelduháls og Hengilinn. Göngufólki finnst almennt enginn ami að því að maður noti sömu stíga og það, þegar þessi hljóðlausu hjól eiga í hlut. Að sjálfsögðu tökum við fullt tillit til göngufólks, sem á fyrsta rétt á slíkum stígum, svo það sé á hreinu! En ég nefni þetta nú bara sem dæmi um hve fjölhæf not er hægt að hafa af svona hjólum til gefandi útivistar mjög víða á Íslandi,“ bendir Árni á.

Hann nefnir líka að í fyrrasumar hafi þau hjónin farið á rafbílnum í Djúpavík, og hjóluðu svo þaðan á rafmagnshjólunum til norðurs í Krossneslaugina, yfir í Ingólfsfjörð og áfram þangað sem vegurinn endar.

Golfástríða

Fyrir utan að njóta íslenskrar náttúru á rafmagns-fjallahjólum og vélsleðum er golfið orðin mikil ástríða hjá þeim hjónum í stórum frænd- og vinahópi. Enda frábær útivist. „Við lengjum gjarnan vertíðina með golfferðum til Spánar eða Portúgals á vorin og haustin. Vorum t.d. um mánaðamótin febrúar-mars á Tenerife. Bjuggum þar í húsi inni á miðju golfvallarsvæði á norðvesturströnd eyjarinnar,“ segir Árni.

Árni og Kolbrún saman við gosstöðvarnar í Geldingadölum sl. sumar. Á raf-reiðhjólunum að sjálfsögðu!

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Ritstjórn mars 25, 2022 07:00