Eftirrétturinn sem svíkur aldrei!

Þetta krem er punkturinn yfir i-ið í veislumáltíð. Kremið má frysta og þá verður úr unaðslegur ís. En ófrosið er það tilvalið með fallegum berjum í skál eins og jarðarberjum, bláberjum, hindberjum eða bara hvaða  berjum sem er. Auðvelt er að ímynda sér litfögur ber í skál og þetta krem yfir. Og bragðið svíkur ekki.

2 pelar rjómi, þeyttur

5 eggjarauður og eitt egg

6 msk. sykur, má minnka ef vill

4 msk. sérrí

1 vanillustöng

Þeytið eggjarauðurnar, eggið og sykurinn saman. Blandið þeyttum rjómanum og sérríinu saman við. Skafið innan úr vanillustönginni og blandið út í kremið. Á þessu stigi má setja kremið í form og frysta og borða sem ís eða bara bera það fram ófrosið með berjum. Ef kremið er búið til með fyrirvara og geymt í kæli sest vökvinn á botninn og þarf að hræra saman áður en kremið er borið fram.

Ritstjórn ágúst 7, 2020 08:54