Opnaði nýjan heim að fara til Úsbekistan

Hjónin Arna Borg Snorradóttir og Sighvatur Sveinsson eru nýkomin heim úr hálfsmánaðarferð til Úsbekistan, en þangað fóru þau í ferð með fyrirtækinu Söguferðum.  „Að fara til svona fjarlægra landa er fyrst og fremst ævintýri og að gera eitthvað annað er fara alltaf til Tenerife, gefur manni rosalega mikið“, segir Anna við blaðamann Lifðu núna þar sem við sitjum í rólegheitum á heimili þeirra Sighvats. Hann tók myndirnar úr ferðinni sem fylgja með greininni.

Sjö klukkustunda flug frá London

Ferðin hófst með því að þau flugu til London, þar sem tekið var kvöldflug til Taskent höfuðborgar Úsbekistan. Flugið þangað tekur 7 klukkustundir. Úsbekistan var stórveldi á 14. og 15.öld sem náði yfir gríðarlega stórt landsvæði. Það var margt að skoða í Taskent, þessari fornu borg, sem þurfti að endurbyggja nánast frá grunni eftir stóran jarðskjálfta árið 1966. „Fólkið var mjög vinalegt  og það var alls staðar tekið vel á móti manni“ segir Arna. Íbúarnir eru flest allir múslimar en þarna er ekkert ofstæki. Við sáum hvergi konur í búrkum og þó þær noti slæður þurfa þær ekki að hylja andlitið. „Slæðurnar eru litríkar, fallegar og glitrandi, alsettar samelíusteinum og það var áberandi hvað bæði kynin notuðu mikla liti í fatnaði. Vestræn áhrif voru áberandi, til dæmis á hótelunum þar sem morgunverðarhlaðborðið hefði getað verið á hvaða hóteli sem er á vesturlöndum“.

Arna og Sighvatur nutu lífsins í ferðinni

Gylltum tárum grátið niður veggina

Frá Taskent var farið til borganna Fergana, Khiva sem er á minjaskrá UNESCO, Bukhara og svo Samarkand, en þar átti Kínaforseti fund með Putin og fleirum um það leyti sem íslenski hópurinn dvaldi þar. Í Samarkand er einnig að finna merka stjörnuathugunarstöð. Farið var milli borga með rútum, lestum og flugi.  Hvarvetna blasti sagan við í þessu forna menningarríki, sem á rætur að rekja allt aftur til áranna 900 til 1000.  Gamlir trúarskólar voru algengir, en fæstir þeirra eru lengur í upphaflegri notkun, einum skólanum hafði til dæmis verið breytt í listamiðstöð, þar sem listamenn voru með vinnustofur og seldu verk sín. Grafhýsi voru algeng og standa enn víða. Harðstjórinn Timar sem ríkti í Uzbekistan á stórveldistímunum hafði til að mynda reist grafhýsi yfir systur sína sem mikið var lagt í. Á veggjum þess voru mótuð gyllt tár eins og þeim væri grátið niður vegginn.  Harðstjórinn var ekki harðari af sér en svo, þegar að honum sjálfum kom.

Silkiteppið kostar eina milljón króna

Rússar lögðu Úsbekistan og nágrannalöndin, svokölluð -stan ríki, undir sig árið 1922 og ríktu þar í 70 ár. Þegar þeir hurfu á braut í kringum 1990, varð Úsbekistan lýðveldi.  -stan ríkin vilja fá meira sjálfstæði gagnvart alþjóðasamfélaginu og þarna hefur stundum verið róstursamt. Nýlega urðu deilur milli Tadsjikistan og Kazkstan sem enduðu með ófriði og mannfalli. Úsbekistan var hluti af gömlu Silkileiðinni sem lá frá Ítalíu til Kína og þau Sighvatur og Arna segja silkiteppin sem þarna eru ofin hrein listaverk, enda kosta þau skildinginn. Ein milljón króna er ekki óalgengt verð fyrir eitt slíkt, en þau eru einkum seld erlendum ferðamönnum. Verðlag er samt ekki hátt í landinu miðað við það sem við eigum að venjast og hægt að fá léttan hádegisverð fyrir tvo ásamt bjór og vínglasi fyrir 1500 krónur íslenskar.

Kom á óvart hversu vestrænt þetta var

„Það er margt minnisstætt úr ferðinni segir Sighvatur og nefnir gamla grafhýsið og stjörnuathugunarstöðina í Samarkand þar sem farið var að fylgjast með tímanum  fyrir mörg hundruð árum síðan. Trúarskólarnir og grafhýsin eru glæsilegar byggingar og grafhýsin voru fargurlega skreytt gulli. „Þegar Rússarnir komu skófu þeir gullið af  og höfðu á brott með sér. En síðar var þetta lagfært og málað gyllt á ný, þó ekki með ekta gulli“, bætir hann við.  „Sagan opnaðist þarna fyrir mér á alveg nýjan hátt“, segir Arna. „Það kom mér á óvart hversu vestrænt þetta var og hvað fólkið var vinalegt og þægilegt. Öll þessi list var ótrúleg, hvort sem var silkið eða leirinn og þessi gríðarlega gamla og mikla menning, skrautlegu byggingarnar, skólarnir og grafhýsin.

Fagurlega útskorið brauð heimamanna

Langaði eitthvað annað en til Tenerife

Arna og Sighvatur ferðast mikið og hann segir brosandi að hún stjórni, hann fari bara með. Ferðin til Úsbekistan var hins vegar ekki á ferðaplaninu þetta árið, heldur hugðust þau fara til Singapúr, Víetnam og Kambodíu með Örnólfi Árnasyni í nóvember. „Upphaf ferðarinnar má rekja til þess að ágætur vinur okkar fór þetta síðast liðið vor og sagði okkur frá ferðinni. Allt í einu langaði mig svo að fara eitthvað annað en til Tenerife. Þetta var eiginlega hugdetta og við ákváðum að fara með skömmum fyrirvara“, segir Arna og þau Sighvatur hafa ekki slegið Víetnam ferðina út af borðinu, þrátt fyrir þennan útúrdúr til Úsbekistan.

Gaman að koma í þennan heimshluta

Þau hafa ferðast mikið um dagana bæði innanlands og utan og ætla að halda áfram að ferðast á meðan heilsan leyfir. „Ferðalögin gefa svo mikla gleði. Maður kynnist nýju fólki og hópurinn sem fór til Úsbekistan var sérstaklega góður, ekkkert vesen“, segja þau og Arna bætir við „Þetta var ekkert nema gleði og það var svo gaman að koma í þennan heimshluta. Þessi lönd hafa verið eitthvað svo langt í burtu en það opnast fyrir manni algerlega nýr heimur við að koma þangað“.

Svisslendingar eru að byggja upp þetta skíðasvæði í Úsbekistan

 

 

Ritstjórn október 7, 2022 07:00