Ferðir fyrir söguþyrsta

Stórfenglegar byggingar í Samarkand.

Þorleifur Friðriksson er sagnfræðingur en hann rekur ferðaskrifstofuna Söguferðir ehf. ,,Hugmyndin að baki Söguferða er sjálfhverf forvitni mín. Það var mín leið til að geta ferðast til staða sem ég hafði sérstakan áhuga á og þótti líklegt að fleiri hefðu líka,“ segir Þorleifur. ,,Sem dæmi hef ég flækst um alla Austur-Evrópu, farið nokkrar ferðir til Norður Kóreu, Kína, Bútan og Nepal og nú er ég að fara aðra ferð mína til Úsbekistan en fyrri ferðin var farin um páskana. Margir hafa gríðarlegar ranghugmyndir um Úsbekistan og halda að
landið sé grátt og fátækt og stríð ríki allt um kring,“ segir Þorleifur. ,,Sannleikurinn er hins vegar sá að í landið er mjög friðsælt og þar er að finna gríðarlega fegurð og merkilega sögu. Ferðirnar til Úsbekistan er liður í slóð silkileiðarinnar miklu,“ segir Þorleifur. ,,Aðrar ferðir sem ég hef farið af þeirri leið voru til Georgíu, Armeníu og Aserbajdan og nú er það Úsbekistan,“ segir hann. ,,Úsbekistan var hluti af Sovétríkjunum og þar á undan hafði rússneska keisaradæmið lagt undir sig Mið-Asíu. Úsbekistan er friðsælt land í dag en sagan markast
af náinni sambúð við Rússa. Þeir hafa engu að síður varðveitt menningu sína vel. Þessi heimur er engum líkur og kannski hægt að jafna við sögu Egyptalands. Þegar Evrópumenn voru að berjast áfram á sauðskinnsskóm í mikilli fátækt á miðöldum var hámenning í Úsbekistan með merkilegri, en að sumu leyti grimmri sögu. Þarna er óskapleg náttúrufegurð en á miðöldum réði Timur Lenk, fæddur 1336 og dáinn 1405. Hann var gríðarlegur stríðsmaður, grimmdin holdi klædd og Úsbekistan varð heimsveldi á hans tíma. Hann hafði hins
vegar dálæti á fegurð og lét byggja upp borgir sem eru engum borgum líkar. Þar á meðal er Samarkand sem er meðal elstu borgum í Mið-Asíu sem hafa verið í stöðugri byggð. Sú borg er drottning allra borga og þangað ætlum við m.a. að fara í þessari ferð.

Úzbekistar búa að ævafornri handverkshefð. Handofin teppi eru oft töfrum lík. Hér er ung stúlka í borginni Bukhara við vefstólinn, með sömu handbrögðin, sömu einbeitinguna og sömu færnina og móðir hennar, amma, langamma og….

Timur Lenk rændi fólki sem gat nýst honum eins og arkitektum, fór með þá til Samarkand og lét þá reisa glæsilegar byggingar sem enn standa. Þarna var hámenning og í Úsbekistan kunnu menn skil á stjarnfræði sem var eitt- til tvö hundruð árum á undan Evrópumönnum. Þarna fæddist algebran og þeir fundu líka núllið á undan öðrum,“ segir Þorleifur.

Í ferðinni til Úsbekistan sem farin verður næsta laugardag segir Þorleifur  að sé fólk á öllum aldri. ,,Sá yngsti er um þrítugt og sá elsti á níræðisaldri. Í svona ferðum kemur reyndar í ljós að aldur er afar afstæður, reyndar eitthvað sem fær litla athygli í góðra vina hópi. Þetta eru ekki endilega ,,sögunördar“ heldur fólk sem hefur áhuga á menningu og sögu annarra þjóða og þyrstir í að heyra sögur sem það hefur ekki heyrt áður. Þessar ferðir eru ferðir sem ryðja burt fordómum,“ segir Þorleifur.

Ritstjórn ágúst 31, 2022 07:05