Örn Árnason ætlaði að frumsýna þessa sýningu fyrir tveimur árum og þá átti hún að heita ,,Sjitt, ég er orðinn sextugur”. En út af svolitlu frestaðist frumsýningin og heitið breyttist í ,,Sjitt ég er 60+” því nú er Örn orðinn 62 ára. Hann segist hafa gengið með þessa sýningu í maganum nokkuð lengi því það sé öðruvísi að vera í hópi að leika, eins og hann hafi alltaf verið, eða ráða alveg sjálfur. Hann segir hlæjandi frá því að nú geti hann til dæmis farið með hlutverk sem hann hafi aldrei fengið að leika eins og að syngja ,,ef ég væri ríkur” úr Fiðlaranum á þakinu og einræður Hamlets svo nokkuð sé nefnt. ,,Ég var nefnilega búin að reikna út að meðalævi íslenskra karla væri 81 ár. Það þýðir að af því ég er 62 ára er ég búinn með u.þ.b. 76% meðalævi minnar. Ég á því bara 24% eftir og verð því að nota tímann vel. Svona get ég auðveldlega gert það án þess að spyrja kóng eða prest,” segir hann og brosir. Áhorfendur fá að njóta söngs Arnar því eins og alþjóð veit er hann mikill söngvari. Og svo spilar Jónas Þórir Þórisson með á píanó en þeir tveir hafa unnið mikið saman í gegnum tíðina.
Vill verða gamall
Örn getur reyndar átt von á að ná nokkuð háum aldri því foreldrar hans eru bæði enn á lífi. Faðir hans, Árni Tryggvason leikari, er orðinn 97 gamall og móðir hans, Kristín Nikulásdóttir 93 ára. Sýning Arnar byggist á gríni eins og áhorfendur eiga von á en þó líka alvöru. Hann er líka einlægur og notar eigin sögu talsvert og þar koma foreldrar hans við sögu því öllu gríni fylgir nokkur alvara eins og máltækið segir. Grínistinn Árni Tryggvason glímdi til dæmis við mikið þunglyndi um ævina og Örn fléttar það inn í leikritið á meistaralegan og hlýjan hátt. Signý Pálsdóttir sagði til dæmis um þessa sýningu: ,, Mikið er hann Örn Árnason góður listamaður og mikið gull af manni. Sýningin Sjitt ég er 60+ í Þjóðleikhúskjallaranum er svo einlæg og skemmtileg að það hálfa væri nóg.” Og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir segir: ,,Frábær endir á góðri helgi með Erni Árnasyni. Þetta er svo fallegur óður til lífsins sem flutt er af einstökum hæfileikum – Pavarotti hvað?” Og enn einn áhorfandi, Valgerður Magnúsdóttir, segir að langt hafi verið síðan hún hafi hlegið svona mikið á yndislegri og mannlegri sýningu.
Hvað er þetta með aldurinn?
,,Aldurinn leggst bara nokkuð vel í mig,” segir Örn. ,,Ég fór nú ekki að pæla mikið í honum fyrr en ég áttaði mig að á nú gæti ég sótt um aðild að Félagi eldri borgara,” segir hann og hlær. ,,Ég hefði
örugglega getað komið ár minni betur fyrir borð peningalega um ævina en á móti hef ég notið lífsins og sé ekki eftir neinu. En ég segi unga fólkinu að það borgi sig að fara að hugsa snemma fyrir efri árunum því þau geti verið svo skemmtileg en þá vill maður ekki vera blankur.”
Örn virðist þó vera nokkuð hagsýnn því þegar hann kom í viðtalið var hann að koma frá því að selja koparrör sem komu í ljós í kjallaranum þegar hann endurnýjaði leiðslur þar. ,,Það er nefnilega hægt að selja þessi rör og við hjónin erum með sérstakan reikning þar sem við leggjum inn á og sá peningur verður að sjóði sem við getum leikið okkur með.”
Örn náði sér í réttindi sem leiðsögumaður og segist hafa mjög gaman af því starfi líka fyrir utan að hafa náð sér í menntun sem smiður. ,,En svo kom covid og allt hrundi, ferðamennirnir hurfu og enginn mátti sýna neitt,” segir hann. ,,En nú höldum við niðri í okkur andanum því covid þokunni virðist vera að létta” segir Örn sem tók þátt í þremur af ellefu sýningum í Þjóðleikhúsinu um helgina. ,,Það má auðvitað engu muna því fólk þarf að hafa fyrir því að fara á mannamót núna og það er ekki sjálfgefið að fólk nenni því,” segir Örn.
Um hvað er sýningin ,,Shitt ég er orðinn 60+”?
,,Í sýningunni fer ég í gegnum ferilinn minn en er líka að fjalla um hluti sem ég hef ekki verið að tjá mið mikið um. Eitt er til dæmis hvernig móður minni brá þegar þegar ég birtist á skjánum sem Bogi fyllibytta á bekknum á Arnarhóli en ég er víst sláandi likur Badda tvíburabróður mömmu. Hann hét Bjarni Reynir og var örlagafyllibytta frá unga aldri og lést þegar ég var 12 ára. En mamma gat líka hlegið að þessu því hún er líka mikill húmoristi eins og pabbi.
Svo tala ég um karl föður minn og þunglyndið hans og hvernig allir urðu hissa þegar hann gaf út bókina ,,Lífróður”. Í þá daga var nefnilega ekki talað um það sem var talið vandamál eins og þunglyndi og önnur geðræn vandamál eða samkynhneigð. Þetta var bara ekki rætt en í dag erum við sem betur fer komin lengra.” Örn fór með föður sinn fyrir tuttugu árum í hringferð sem hann kallaði ,,Feðgar á ferð” en það var það síðasta sem Árni lék og Örn segir að hann hafi notið þess þrátt fyrir allt.
,,Mig langar að fólk fari út af þessari sýningu með aðeins meiri tilfinningu en ,,þetta var bara ansi gaman”. Ég er sjálfur spar á áfengi og nota ekki önnur efni, reyki ekki og ætla að verða eldri ef ég mögulega get. Mitt fíkniefni er leiklistin og ég nýt þess fullkomlega að vera á sviði,” segir Örn Árnason sem horfist í augu við aldurinn með húmorinn að vopni.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.