Leikarinn sem gerðist þýðandi

Sigurður Karlsson fékk snjalla hugmynd fyrir margt löngu þegar hann var í Svíþjóð að læra sænsku á sumarnámskeiði. Á þessu námskeiði voru líka allmargir Finnar og þar sem Sigurði þótti einfalt að læra sænskuna sagði hann í hálfkæringi að næsta tungumál sem hann  myndi læra yrði sennilega finnska. Honum þótti það tungumál heldur meiri  áskorun en sænskan. „Það verður þó líklega ekki fyrr en fer að hægjast um hjá mér og ég farinn að reskjast,“ sagði Sigurður. Síðan liðu 20 ár eins og hendi væri veifað og kominn var veturinn 2001-2. Sigurður stóð þá við stóru orðin og hóf að læra finnskuna fyrir alvöru í HÍ.

Ástæða til að prófa annað eftir 40 ára leik

Sigurður ákvað síðan að fara til Finnlands árið 2003 til að læra meira og þá datt hann auðvitað í svolítinn leik og einn vetur varð að sjö. “Þetta átti ekki að verða nema einn vetur en vorið 2004 tók ég að mér hlutverk í leikriti í Åbo svenska teater sem sýnt var veturinn eftir. Þegar sýningum lauk vorið 2005 fannst mér ekki ástæða til að flytja heim strax heldur reyna að komast betur inn í finnskuna. Það sama vor átti ég svo 40 ára leikafmæli og datt í hug að tími væri kominn til að prófa eitthvað annað. Ég hafði sumarið áður þýtt eina bók úr finnsku og ákvað að reyna betur fyrir mér á þeim vettvangi. Síðan hef ég lítið gert annað en að þýða finnskar bókmenntir“ segir Sigurður ánægður. Hann hefur ekki staðið á leiksviði í 11 ár heldur eingöngu verið við þýðingar og er núna að ljúka við að þýða sautjándu bókina. Þegar hafa komið út sextán skáldsögur í þýðingu hans og sú sautjánda kemur út næsta vor. Það er glæpasaga sem hefur slegið í gegn í Finnlandi.

Árin eftir miðjan aldur hafa verið mjög annasöm og lífleg hjá Sigurði Karlssyni leikara og í raun er meira að gera hjá honum núna en stundum þegar hann var upp á sitt besta í leikhúsinu.

 

 

 

Ritstjórn nóvember 13, 2017 11:43