Það var í október árið 1956 sem útvarpsþátturinn „Á frívaktinni“ hóf áratuga göngu sína í Ríkisútvarpinu, en hann var í daglegu tali kallaður Óskalög sjómanna. Fyrsti umsjónarmaður þáttarins var Guðrún Erlendsdóttir, sem seinna varð hæstaréttardómari, en hún var sjómannsdóttir. Þetta kemur fram í BA ritgerð Rósu Margrétar Húnadóttur þar sem hún fjallar raunar um sjómannalögin sem ákveðna hefð innan dægurlagamenningar, en rekur sögu þáttarins í leiðinni. Í ritgerðinni segir:
Í þá daga bárust þættinum kveðjur og óskalög með bréfum sem lesin voru upp og þannig skilað í gegnum ljósvakann. Sjómenn sendu kveðjur í land og á sama hátt fengu þeir kveðjur frá þeim sem biðu þeirra í landi. Kveðjunum fylgdu gjarnan lög, bæði sjómannalög og önnur vinsæl dægurlög. Guðrún segir að henni hafi borist fjölmörg bréf frá sjómönnum og ættingjum þeirra, eða um 300-1000 bréf í viku hverri. Hún segir að það hafi ekki verið mikið um óskalagaþætti í þá daga, og reynir að skýra vinsældir þáttarins þannig.
Þátturinn á Frívaktinni átti gríðarlegum vinsældum að fagna og á fyrstu árum þáttarins voru söngkonurnar Ingibjörg Smith og Erla Þorsteinsdóttir mjög vinsælar, sérstaklega var lagið „Við gengum tvö“ í flutningi Ingibjargar geysilega vinsælt í þættinum. Sjómannalögin urðu sérstök grein innan íslenskrar dægurlagatónlistar. „Hann var sjómaður dáðadrengur“ og „Vertu sæl mey“ eru lög sem margir muna og sjómannalögin voru ótalmörg. Þátturinn hafði áhrif á dægurlögin sem samin voru á þessum tíma og rataði einnig inní íslensk skáldverk.
Í sjómannasögunni Pelastikk eftir Guðlaug Arason er því lýst er skipverjarnir fara allir niður í lúkar til þess að hlusta á óskalagaþáttinn. Einn af áhöfninni fær kveðju og allt ætlar um koll að keyra. Kveðjan verður tilefni til umræðna sem endast allan daginn, enda var kveðjan full af ástleitni; ,,Gunnar Halldórsson á mótorbátnum Sleipni frá Dalvík fær ástar- og saknaðarkveðjur frá einni, sem bíður og vonar, með laginu Hvítir Mávar….
Óskalagaþátturinn Á frívaktinni var meðal alvinsælustu útvarpsþátta í áraraðir, en hann var lagður niður árið 1990. Það er í ritgerð Rósu Margrétar rakið til mikillar fækkunar í íslenskri sjómannastétt og aukinnar samkeppni á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Þegar upp komu nýjar útvarpsstöðvar sem spiluðu dægurlög allan daginn, var grundvöllur óskalagaþátta Ríkisútvarpsins brostinn.