Sólin, útsýnið og barlómurinn

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar:

Þrátt fyrir nánast stanslaust flóð frétta og upplýsinga í fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og víðar getur verið erfitt að fá sanna eða rétta mynd af því sem er að gerast á hinum ýmsu sviðum. Upplýsingamagnið er svo gríðarlegt að maður verður að hafa sig allan við. Þess vegna geta útvarpsþættir, þar sem alls konar fólk ræðir vítt og breitt um hin ýmsu málefni, til að mynda við vel upplýsta þáttastjórnendur á helstu útvarpsstöðvum, verið gagnlegir fyrir okkur hin.

Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar um daginn þegar tveir miðaldra karlar mættu einn morguninn saman í einn slíkan útvarpsþátt til að ræða við þáttastjórnendurna um fréttir vikunnar. Eins og við var að búast mátti ekki á milli sjá hvor þeirra var skemmtilegri eða fróðari um það sem þeir völdu að fjalla um. Þeir skautuðu báðir léttilega og að því er virtist af mikilli víðsýni yfir hin margvíslegu málefni. Þangað til kom að lokum þáttarins. Þá fipaðist þeim báðum all hrikalega, og það sem verra er, þeir voru innilega sammála.

Fleyg ummæli fyrrverandi fjármálaráðherra á alþingi í mars 2007, rétt fyrir bankahrunið sem sumir hafa aldrei viljað vita af en ýmsir aðrir virðast hafa gleymt, rifjuðust því miður upp þegar kom að lokaorðum miðaldra karlanna tveggja. Ég hafði haft mikla ánægju, og reyndar einnig töluvert gagn, af því að hlusta á þá. Ánægjan hvarf hins vegar fljótt við kveðjuorð þeirra.

Í hinni frægu ræðu fjármálaráðherrans fyrrverandi kvartaði hann undan því að fólk sem kvartar undan hinu og þessu „sér ekki til sólar fyrir einu eða neinu,“ eins og hann orðaði það. Hann gerði reyndar gott betur, því síðar bætti hann því við, sem er án efa eitt af því minnisstæðasta sem sagt var í opinberri umræðu hér á landi í aðdraganda bankahrunsins fyrir áratug: „Drengir, sjáið þið ekki veisluna?“

Miðaldra karlarnir tveir, gestirnir í framangreindum útvarpsþætti, voru því miður á svipuðum slóðum og ráðherrann fyrrverandi. Þeir kvörtuðu yfir barlómnum í fólki í dag og spurðu, með svipuðum hætti og ráðherrann, hvort fólk sjái ekki sólina, og útsýnið, og fegurðina í landinu okkar. Og síðan kom gullkorn: Þeir spurðu hvort fólk sjái ekki hvað við höfum það rosalega gott. Og til að kóróna þetta enn frekar sögðu þeir í alvörunni, að fólk ætti að hætta þessum barlómi, og þessari öfundssýki, og þessari neikvæðni.

Það vill svo til, að á svipuðum tíma og karlarnir tveir voru að agnúast út í þá sem kvarta og kveina í sólinni, og með þetta líka fallega útsýni, að frá því var greint í í fréttum að ung, einstæð tveggja barna móðir hefði fengið afhenta fyrstu leiguíbúð leigufélagsins Bjargs, sem ASÍ og BSRB standa að. Félagið er að byggja nokkur hundruð íbúðir fyrir fólk sem ekki hefur mikið handa á milli, og sem er og hefur verið í húsnæðisvandræðum. Hin heppna einstæða móðir hafði til að mynda búið með börn sín í einu herbergi í foreldrahúsum. Það kom jafnframt fram í fréttinni að yfir þúsund fjölskyldur væru á biðlista eftir sambærilegri íbúð leigufélagsins. Til allrar lukku mun hluti þeirra væntanlega fá íbúð afhenta á næstunni. En ekki allir.

Ég er ekki viss um að þeir félagarnir hefðu sagt það sem þeir sögðu í útvarpsviðtalinu, um sólina, útsýnið, barlóminn, öfundsýkina og neikvæðnina, á sama tíma og „við“ höfum það gott, ef þeir hefðu haft upplýsingar á reiðum höndum um þá miklu húsnæðiserfiðleika sem allt of margar láglaunafjölskyldur hér á landi þurfa að kljást við. Fólk sem sumt þarf jafnvel að greiða meirihluta launa sinna í húsaleigu, eða sem hefur ekki nægjanleg laun til að þrauka með sómasamlegum hætti á milli mánaðamóta, hefur það nefnilega ekki gott. Eða ef þeir hefðu kynnt sér í alvörunni hvernig komið er fram við suma öryrkja og ellilífeyrisþega þessa lands, til dæmis ef þetta fólk er svo óheppið að fá kannski einhverjar aukagreiðslur frá vinnuveitanda sínum, eins og bónus eða eitthvað þess háttar, sem ekki er gert ráð fyrir í tekjuáætlunum áður en bætur frá hinu opinbera eru greiddar út. Og sem fólk þarf þá að stóru eða kannski að öllu leyti að greiða til baka til ríkisins. Svo tala menn um lækkun skatta.

Það er eflaust miklu þægilegra fyrir þá sem hafa allt sitt á hreinu að hugsa bara um sjálfa sig og sína og vera ekkert að eyða púðri í aðra. En það væri hins vegar miklu heppilegra ef þeir sem taka það hlutverk að sér að upplýsa okkur hin um fréttir vikunnar kynntu sér málin áður en þeir kvarta yfir barlómnum í okkur. Þá myndum við án efa njóta sólarinnar og útsýnisins miklu betur en annars, öll saman.

Grétar Júníus Guðmundsson júlí 29, 2019 07:34