Susan Sarandon er ein þeirra leikkvenna í Hollywood sem kvarta ekki undan verkefnaleysi þótt hún verði sjötíu og níu ára á þessu ári. Hún er glæsileg, greind, fylgist vel með og liggur ekki á skoðunum sínum. Milli þess sem hún leikur í kvikmyndum og vinsælum sjónvarpsþáttum berst hún ötullega fyrir mannréttindum og aukinni samfélagsvitund í Bandaríkjunum.
Susan er elst níu barna þeirra Philips Leslie og Lenoru, konu hans. Philip var söngvari í stórhljómsveitum en söðlaði síðar um og hóf að starfa við auglýsingar. Lenora var heima og sá um barnahópinn. Fjölskyldan var kaþólsk og Susan gekk fyrst í kaþólska barnaskóla og lauk síðar prófi í leiklist frá kaþólskum háskóla. Í háskólanum kynntist hún Chris Sarandon, ungum og upprennandi leikara. Þau giftust og hún studdi hann í leit hans að umboðsmanni. Einhverju sinni, þegar Chris var beðinn um að lesa handrit fyrir umboðsmann, tók hún að sér að lesa á móti honum. Það varð til þess að umboðsmaðurinn bað hana að koma aftur nokkru seinna og gangast undir áheyrnarpróf vegna hlutverks í kvikmyndinni Joe. Hún fékk hlutverkið og eftir það var teningnum kastað. Hún ákvað að verða leikkona. Seinna sagði hún í viðtali að hún hefði í raun ekki viljað giftast Chris en ekki átt annarra kosta völ vegna þess að þau hefðu getað verið rekin úr kaþólska háskólanum þar sem þau stunduðu nám ef þau hefði ekki gert það.
Susan er meðal virtustu leikkonum í Hollywood en nýtur ekki eingöngu virðingar fyrir leikhæfileika sína heldur einnig fyrir dugnað sinn og ósérhlífni í mannréttindabaráttu. Hún hefur barist fyrir réttindum eyðnisjúklinga, barna og blökkumanna. Hún er alfarið á móti dauðarefsingum og hún og fyrrverandi sambýlismaður hennar, Tim Robbins, gerðu saman myndina Dead Man Walking til að vekja athygli á þeim málstað. Susan á þrjú börn, Evu, sem lék á móti móður sinni í The Banger Sisters, Jack Henry og Miles. Eva er dóttir Franco Amurri leikstjóra sem Susan bjó með um nokkurra ára bil en það samband rann út í sandinn þegar hún kynntist Tim Robbins við upptökur á Bull Durham. Í dag er hún í þeirri stöðu að hún getur valið þau hlutverk sem hún tekur að sér og hún nýtur þess, að eigin sögn að leika.
Þegar hún var ung kona þjáðist hún af endómetríósu og lengi hefur hún barist fyrir að því að sá sjúkdómur verði viðurkenndur og rannsakaður. Henni var því sagt að litlar líkur væru á að hún gæti eignast barn en þegar Susan var þrjátíu og níu ára varð hún óvænt ófrísk og Eva var sannarlega velkomin í heiminn. Syni sína tvo eignaðist hún 1989 og 1992. Jack er eldri en Miles yngri og hún fjörutíu og sex ára þegar hann fæddist. Þeir hafa einnig báðir fetað í fótspor foreldra sinna og meðal annars lék Miles í Dead Man Walking. Susan fékk Óskarsverðlaunin fyrir leik sinn í þeirri mynd en hún hefur verið tilnefnd fjórum sinnum til þeirra verðlauna, fyrir The Client, Lorenzo’s Oil, Thelma & Louise og Atlantic City.
Nýjasta verkefni Susan er Netflix-kvikmyndin Nonnas en hún nýtur mikilla vinsælda um þessar mundir. Að baki sögunnar sem sögð er í myndinni er raunverulega saga, Joe Scaravella sem er í dag sextíu og níu ára gamall opnaði veitingastaðinn, Enoteca Maria árið 2007 eftir að amma hans, Domenica dó, rétt fyrir hundrað ára afmæli sitt. Joe hafði áður misst afa sinn, pabba sinn, móður sínam Maríu sem veitingastaðurinn heitir eftir og systur sína. Hann varð mjög þunglyndur í kjölfarið, sennilega þykir engum það mikið, en ákvað að nota arf sem hann fékk eftir þau til að opna veitingahús og ráða ömmur til að elda. Þetta sló í gegn og veitingahúsið er enn í dag mjög vinsælt. En sú saga er betur sögð í myndinni. Staðurinn er mjög vinsæll enn í dag og enn eru ömmur í eldhúsinu.
Sakleysinu spillt
Susan Sarandon vakti hins vegar fyrst verulega athygli þegar hún lék í Rocky Horror Picture Show. Það er klassísk kultmynd sem menntaskólanemar um allan heim njóta að uppgötva á hverju ári. Klúbbar hafa sprottið upp í kringum myndina, ákveðin tíska og svo auðvitað söngleikurinn sem settur hefur verið upp víða um heim. Tónlistin er frábær og þemað mátulega súrrealískt. Í hnotskurn fjallar myndin um saklaust ungt par sem villist inn í kastala gerspilltrar geimveru og upplifir þar ævintýri sem ættu að endast þeim ævina. Thelma & Louise er án efa frægasta mynd hennar og segir sögu tveggja vinkvenna sem hafa verið fórnarlömb karlmanna allt sitt líf. Þær leggja upp í ferðalag og þegar annarri er nauðgað missa þær alla stjórn á atburðarrásinu og fyrr en varir eru þær eftirlýstar af alríkislögreglunni og á flótta eftir þjóðvegum Bandaríkjanna.
Sekt, sakleysi og þjóðfélagsleg ábyrgð
Í Dead Man Walking leikur Susan nunnuna Helen sem heimsækir dauðadæmdan morðingja í fangelsi. Matthew Poncelet bíður aftöku fyrir morð á tveimur unglingum. Hann heldur fram sakleysi sínu og segir félaga sinn hafa framið morðin en fljótlega verður ljós að hér er á ferðinni samviskulaus maður fullur haturs í garð kvenna, blökkumanna og fleiri minnihlutahópa. Nunnan hlustar á hatursorðræðu hans en getur samt sem áður ekki sætt sig við að samfélagið taki þá ákvörðun að drepa þennan mann með köldu blóði. Susan tók þátt í gerð þessarar myndar vegna þess að hún alfarið á móti dauðarefsingum og telur þær alrangar. Hún fékk Óskarsverðlaunin árið 1982 fyrir leik sinn í þeirri mynd.
Sagt er að pólitískar skoðanir hennar og mannréttindabarátta hafi komið í veg fyrir að hún hlyti Óskarsverðlaunin oftar en hún var tilnefnd fyrir Lorenzo’s Oil, Thelma & Louise og Atlantic City.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.