Óvissa, óöryggi, og ótti ríkir meðal sjúklinga

Birgir Jakobsson

Birgir Jakobsson

„Ljóst er að margra vikna verkfall BHM auk uppsafnaðs vanda vegna verkfalls lækna síðastliðinn vetur hefur skapað mjög erfitt ástand í heilbrigðiskerfinu. Nú hefur verkfall hjúkrunarfræðinga bæst við og hefur það staðið yfir í eina viku. Stjórnendur stofnana hafa notað hugtök eins og fordæmalaust ástand og neyðarástand yfir þær aðstæður sem hafa skapast, þrátt fyrir að allt sé gert sem hægt er til að tryggja lágmarksþjónustu og öryggi sjúklinga,“ segir í minnisblaði sem Birgir Jakobsson, landlæknir hefur sent ríkisstjórn Íslands.

Ógn við öryggi sjúklinga

Í minnisblaði Landlæknisembættisins segir ennfremur:  „Sýnt þykir að núverandi aðstæður skapi verulega ógn við öryggi sjúklinga. Ástand heilbrigðisþjónustunnar er nú með þeim hætti að mikil óvissa, óöryggi og ótti ríkir, bæði hjá sjúklingum og starfsfólki. Í hnotskurn má segja að ekki verði hægt að tryggja öryggi sjúklinga og getur því ástandið valdið ómældum og óbætanlegum skaða. Það er þegar ljóst að fjölmargir sjúklingar hafa orðið fyrir verulegum óþægindum, drætti á greiningu og töfum á meðferð og munu áhrif þess aukast í stigvaxandi mæli eftir því sem verkföllin dragast á langinn. Ljóst er að það tekur langan tíma að meta það tjón sem sjúklingar hafa orðið fyrir, en Embætti landlæknis mun að sjálfsögðu gera nánari úttekt á áhrifum verkfalla þegar þeim lýkur.Verkföllum verður að ljúka tafarlaust, ef ekki á illa að fara. Það ástand sem hefur skapast er óþolandi og kemur til með að valda óbætanlegu tjóni fyrir fjölda sjúklinga og skaða heilbrigðisþjónustuna bæði til skamms tíma og til lengri tíma litið. Stjórnvöld bera nú ábyrgð á því að ljúka þessu ástandi með einum eða öðrum hætti.“

Ótímabær dauði bíður sjúklinga sem bíða

Ólafur Ólafsson fyrrverandi landlæknir ritaði grein í Fréttablaðið í dag og segir meðal annars: „Skortur á fé til heilbrigðisþjónustunnar og sein viðbrögð stjórnvalda við lausn verkfalla í heilbrigðisþjónustunni valda því að sjúklingum á biðlistum bíður ótímabær dauði, jafnframt bíður augnsjúklingum með alvarlegan hrörnunarsjúkdóm hratt vaxandi sjóndepurð og blinda, ef Alþingi (fjárveitingarnefnd) veitir ekki fé til kaupa á tilteknum lyfjum. Erlendar rannsóknir sýna að 10-15% sjúklinga deyja á löngum biðlistum t.d. hjartabiðlistum. Engin gögn eru til um slíkt brot á heilbrigðisþjónustunni síðan við tókum upp almennar tryggingar fyrir 70 árum. Fleiri dæmi mætti nefna. Ég er sammála landlækni um að þessu ógnvekjandi og lífshættulega ástandi verður að ljúka nú þegar. Stjórnvöld verða að bregðast við verkfalli heilbrigðisstétta.“

 

Ritstjórn júní 9, 2015 14:23