Pantaðu hjá lækninum ef þú færð þessi einkenni

Danski læknirinn Charlotte Bøving leiðbeinir hlustendum Danmarks Radio um heilsu og það hvenær þeir eigi að leita læknis. Í þættinum „Læknirinn flytur inn“ fer hún heim til fólks og fylgist með því hvernig það lifir og venjum þess. Flestir verða undrandi þegar þeim er bent á að þeir lifi þannig lífi, að þeir séu á góðri leið með að koma sér upp lífsstílssjúkdómum sem muni draga úr lífsgæðum þeirra og stytta lífið.

Sjónum er ekki síst beint að karlmönnum í þessum þáttum. Það hefur nefnilega komið í ljós að horfur þeirra eru verri en kvennanna, ef þeir fá lífstílssjúkdóma. Það stafar meðal annars af því að þeir bíða of lengi með að fara til læknis, þannig að meðferðin hefst of seint.

Charlotte Bøving bendir á ákveðin einkenni, sem þýða að menn eiga að fara til læknis.

  • Yfirvigt /fita/offita – sérstaklega mikil magafita.
  • Öndunarerfiðleikar við minniháttar áreynslu.
  • Brjóstverkir þegar menn reyna á sig líkamlega.
  • Hósti og kverkaskítur sem menn losna ekki við.
  • Höfuðverkur
  • Þorstatilfinning – menn drekka mikið og pissa.
  • Sársauki í stoðkerfi við hreyfingu.

Þar fyrir utan bendir hún á hefðbundin alvarleg einkenni, en fái menn þau eiga þeir að leita læknis undireins.

  • Blóð í hægðum.
  • Erfiðleikar við þvaglát.
  • Ef menn hósta blóði.
  • Ef menn léttast.

 

Ritstjórn mars 1, 2016 12:00