Páskabækur Ásdísar

 

inn í færsluÁsdís Skúladóttir stýrir bókmenntahópi hjá háskóla þriðja æviskeiðsins, U3A og hefur verið með bókmenntahópa eða klúbba í áraraðir. Lifðu núna fór þess á leit við Ásdísi að hún gæfi lesendum hugmyndir að bókum sem gaman væri að lesa um páskana.  Þetta eru bækurnar sem Ásdís valdi.

 

 

 

 bók númer eitt„Þegar kóngur kom“ eftir Helga Ingólfsson

Þetta er söguleg spennuskáldsaga sem gerist árið 1874 og sögusviðið er miðbær Reykjavíkur með Menntaskólann í Reykjavík í forgrunni. Söguna segir Moritz Halldórsson nemi í MR og þarna koma fyrir þekktar persónur svo sem Hjaltalín landlæknir, Gestur Pálsson, Jón Sigurðsson og síðast en ekki síst Kristján konungur 9 sem færði okkur Íslendingum stjórnarskrána. Þetta er ótrúlega spennandi bók og skemmtileg kannske ekki síst fyrir þá sem vel þekkja til í miðbæ Reykjavikur að ég nú ekki tali um þá sem hafa verið í MR. Spennubók í sérflokki.

 

bóknumertvo„Héðinn, Bríet, Valdimar og Laufey“ eftir Matthías Viðar Sæmundsson.

Tilvalið að lesa þessa bók í ár í tilefni af 100 ára kosningaári kvenna til heiðurs Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Þó bókin sé í raun helguð Héðni Valdimarssyni, syni hennar, forstjóra Olíuverslunar Ísland og formanni Dagsbrúnar þá segir hún líka sögu fjölskyldunnar og varpar ljósi á tíðarandann og kjör fólks í Reykjavík á síðari hluta 19. aldar. Afskaplega vel skrifuð bók, skemmtileg og fræðandi. Tilvalin bók fyrir þá sem hafa gaman af sagnfræði og að lesa um ævi og örlög fólks. Pottþétt bók.

 

Saga_theirra_sagan_min-175x262„Saga þeirra, sagan mín“ eftir Guðrúnu Helgu Johnson

Þetta er lífssaga þriggja kvenna; Katrínar Thorsteinsson sem árið 1901giftist Eiríki Briem bónda í Viðey. Þarna sameinast voldugar og auðugar fjölskyldur þess tíma. Katrín á sér örlagaþrungna ævi sem hefur mikil áhrif á heimsborgarann dóttur hennar Ingibjörgu Briem. Það er dóttir Ingibjargar Katrín Stella Briem, kölluð Kanda, sem er sögumaður. Saga þessara kvenna er með ólíkindum og margt kemur í ljós sem áður var hulið. Bókin er ekki einasta dramatísk, spennandi og skemmtileg heldur afskaplega fróðleg ekki hvað síst um ævi og líf kvenna á sögutíma bókarinnar. Þetta er bók sem ekki má láta fram hjá sér fara.

 

 200_243„Eiturbyrlarinn ljúfi“ eftir Arto Paasilinna

Höfundur bókarinnar er afar vinsæll í heimalandi sínu Finnlandi. Það er Guðrún Sigurðardóttir sem þýðir bókina. Þetta er spennu- og skemmtisaga, dálítið groddaleg og farsakennd á köflum. Bókin fjallar um eldri konu, virðulega ofurstafrú komna á eftirlaun og þriggja kauða frá Helsinki sem vaða inn á heimili frúarinna með drykkjulæti og dónaskap. En ofurstafrúin á ráð undir rifi hverju og þá byrjar mikið ævintýri og stjórnlaus atburðarás. Það er alveg þess virði að kíkja í þessa bók í páskafríinu. Hún er öðruvísi, full af kaldhæðni og spennuþrungin.

 

tilraunnumertvo „Flekklaus“ eftir Sólveigu Pálsdóttur

Það má lesa það í erlendum blöðum að upp sé sprottin ný stjarna á himni íslenskra glæpasagna. Ég tek undir það. Flekklaus er þriðja bók Sólveigar Pálsdóttur. Fyrtsa bóki hennar hét „Leikarinn“, önnur hét „Hinir réttlátu“ og nú síðast kom út bókin „Flekklaus“. Allar eru þessar bækur þrælskemmtilegar og spennandi aflestrar. Það kemur upp eldur í fyrirtæki í Reykjavík á miðjum níunda áratugnum og ung kona ferst. Hvað gerðist í raun var aldrei upplýst en svo vill til að vitni sér tvö ungmenni forða sér á hlaupum. Guðgeir lögreglumaður fer nokkrum áratugum síðar til Svíðþjóðar sér til heilsubótar í Smálöndum og þá fer boltinn að rúlla! Heldur manni föngnum allt til loka eins og góðum „krimma“ sæmir.

Ritstjórn mars 31, 2015 12:20