Prjónaskapur eykst alltaf í kreppu segir Malín Örlygsdóttir

Malín Örlygsdóttir er alin upp í handavinnubúð en hún byrjaði átta til níu ára gömul að aðstoða í handavinnubúð móður sinnar, Storkinum. Síðan tók Malín yfir reksturinn árið 1986 og seldi hann 1. janúar 2008.

“Það hefur alltaf verið rosalega mikil handavinna í kringum mig,” segir Malín þegar blaðamaður hringir í hana. “Langalangafi minn flutti inn fyrstu prjónavélina, hann var alltaf kallaður Prjóna-Eiríkur, og fóstra mín, afasystir og nafna rak prjónastofuna Malín þannig að þetta er í genunum,” segir hún.

Ýmsar nýjungar

Malín lærði fatahönnun með áherslu á prjón og íslensku ullina í Svíþjóð. Þegar hún flutti heim varð hún hönnuður hjá Álafossi þar til hún flutti sig alfarið í Storkinn og fór að hanna þar prjónauppskriftir úr garninu. Malín bryddaði upp á ýmsum nýjungum á ferli sínum í Storkinum, þar á meðal var hún fyrst til að bjóða upp á prjónanámskeið í versluninni.

“Það gekk rosalega vel. Stundum vorum við með námskeið fjögur kvöld í viku. Það var ægilega gaman,” segir hún.

Stundum var barátta að halda rekstrinum gangandi enda hefur ekki alltaf verið í tísku að prjóna. “Ég man eftir tímum þegar það þótti hallærislegt og gamaldags að prjóna en svo stundum hefur það verið í tísku og allt þar á milli.”

Malín bendir á að Íslendingar prjóni í kreppu. Það fylgi venjulega krísutímum að prjónaskapur eykst, þannig hafi það til dæmis verið í hruninu. “Það er alltaf besti tíminn þegar það er krísa. Ég hef heyrt að það séu margir núna heima að prjóna. Í sóttkví verður maður til dæmis  að gera eitthvað,” segir hún.

Prjónar mismikið

Barnaföt sem Malín hannaði.

Malín prjónar mikið. Þegar blaðamaður hringdi sat hún með prjónana og var að prjóna peysu á sjálfa sig. “Ég er nýbúin að prjóna á dóttur mína og ákvað að prjóna peysu á sjálfa mig úr garni úr Storkinum sem ég átti. Það er mjög mismunandi eftir tímabilum hvað ég prjóna mikið. Um tíma átti ég erfitt með að prjóna því að ég var aldrei ánægð með neitt sem ég gerði en svo hrekkur maður í prjónagírinn.”

Malín prjónar aldrei eftir uppskriftum núorðið en áður fyrr – meðan hún rak Storkinn – sat hún við þýðingar á frönskum og enskum prjónauppskriftum og prjónaði uppskriftina þá um leið því ekki er hægt að þýða beint, uppskriftin getur þurft útskýringa við í þýðingunni og þá skiptir miklu máli að vita hvernig þetta á að vera.

Meiri sköpunargleði

Prjónamarkaðurinn hefur breyst mikið frá því Malín byrjaði í Storkinum. Henni finnst verslanirnar betri núna, úrvalið fjölbreyttara og meira  listfengi. “Mér finnst prjónabúðirnar standa sig mjög vel. Það skin meiri sköpunargleði úr öllu núna,” segir hún.

Spurð um það hvað sé eftirlætisprjónaverslunin svarar hún: “Storkurinn er búðin mín. Mér finnst gaman að verslunin skyldi halda áfram.”

Mikil sköpunargleði blasir við þegar farið er í prjónabúðir.

 

Handavinnubúðir á höfuðborgarsvæðinu:

Amma Mús, Fákafeni 9, Reykjavík

Storkurinn, Síðumúla 20, Reykjavík.

Handprjón.is, Reykjavíkurvegi 64, Hafnarfirði.

Föndra, Dalvegi 18, Kópavogi.

Litla prjónabúðin, Faxafeni 9, Reykjavík.

Handverkskúnst, Hraunbæ 102a, Reykjavík.

Gallery Spuni, Engihjalla 8, Kópavogi.

Garnbúð Eddu, Strandgötu 39, Hafnarfirði.

Handprjónasambandið, Skólavörðustíg 19, Reykjavík.

Hannyrðaverslunin Sporið í Grímsbæ, Efstalandi 26, Reykjavík.

Handverkshúsið, Dalvegi 10-14, Kópavogi.

Litir og föndur, Smiðjuvegi 5, Kópavogi.

Fjarðarkaup handverkshorn, Hólshrauni 1b, Hafnarfirði.

Hagkaup.

Rúmfatalagerinn.

A4 ritfangaverslun.

Vinsamlegast athugið að listinn er ekki tæmandi.

 

Ritstjórn maí 21, 2020 08:06