Skemmtið barnabörnunum á aðventu

Það er eitt og annað sem afar og ömmur geta gert með barnabörnunum til að stytta biðina til jóla. Í grein á vefnum  liveabout.com  er stungið upp á  nokkrum hlutum til að gefa lífinu lit í skammdeginu. Lifðu núna þýddi lauslega, stytti og endursagði.

Gefið börnunum litla jólasögu, litla bók með fallegum myndum og lesið hana upphátt fyrir börnin. Með tíð og tíma fjölgar bókunum og þá verða fleiri bækur til að lesa saman fyrir hver jól. Hver elskar ekki að hlusta á fallegar jólasögur á aðventunni. Það er líka tilvalið að fá börnin til að semja eigin jólasögur með ykkur. Þið sjáið um að skrifa söguna upp eftir þeim og svo geta börnin myndskreytt. Að ári getur verið mjög gaman að skoða jólasögu síðasta árs. Það er líka hægt að spreyta sig á að semja jólaljóð eða jólalag.

Týnið til gamlar jólamyndir af fjölskyldunni og gefið börnunum. Það er hægt að láta skanna þær og prenta út á pappír. Flestum börnum finnst gaman að skoða gamlar jólamyndir af pabba og mömmu þegar þau voru lítil og gamlar jólamyndir af afa og ömmu þegar þau voru börn.

Takið frá einn dag í desember og bakið piparkökur eða piparkökuhús með börnunum. Hvað er skemmtilegra en að skeyta fallegt hús eða kökur með þeim. Það er sama á hvaða aldri þau eru, þau verða ánægð með útkomuna. Þeim finnst án efa líka gaman að baka smákökur með afa og ömmu. Hvað er betra en að fá heitar smákökur með kaldri mjólk á aðventunni.

Flestum finnst gaman að búa til jólaskraut. Því ekki að eyða svo sem einum eftirmiðdegi í að klippa út snjókorn, stjörnur, búa til kramarhús og jólasveina. Þetta er eitt af því sem flest börn elska.

Ef að afi og amma ætla að leyfa barnabörnunum að gista hjá sér er ekki úr vegi að kaupa handa þeim náttföt eða sokka með jólamyndum. Ungum börnum finnst það mjög skemmtilegt og aldrei að vita nema það verði auðveldara að koma börnunum í ró.

Kennið börnunum að gefa með sér. Hjálpið þeim að útbúa jólapakka handa öðrum börnum sem ekki eiga jafn mikið og þið. Komið gjöfunum til Mæðrastyrksnefndar, Rauða krossins eða annarra sem taka við slíkum gjöfum og deila þeim út.

Það hafa flestir gaman að því að syngja. Því ekki að leita á netinu að textum að uppáhalds jólalögunum prenta út og setja saman litla söngbók. Þá geta allir sest niður og sungið saman. Það ætti að slá í gegn.

Ritstjórn desember 4, 2018 09:00