Tími jólahlaðborðanna er runninn upp og flestir fara á minnsta kosti eitt slíkt. Viðbót í flóruna er hlaðborð á fallegum stað úti á landi og Hótel Grímsborgir í Grímsnesi uppfylla öll skilyrði sem hægt er að gera til þess að njóta notalegrar hvíldar og tilbreytingar á yndislegum stað. Helga Guðný Margrétar hótelstjóri á Hótel Grímsborgum var spurð út í hlaðborðið þeirra.
Jólahlaðborð í sveitinni, er það ekki algjör draumur?
„Jú það er algjör draumur. Að mæta hingað um miðjan dag, fara í pottinn og njóta ljósaskiptana. Mæta svo uppábúinn á jólahlaðborðið, fá sér jafnvel kaldan drykk á barnum og njóta með sínu besta fólki. Algjört draumakvöld,“ segir hún.
Hvað bjóðið þið upp matarkyns? „Við erum með mjög fjölbreytt úrval af allskyns góðgæti. Auðvitað þetta helsta eins og purusteik, hangikjöt, kalkún og hamborgarhrygg. Að auki eru ýmsir aðrir réttir, salöt og meðlæti sem yfirmatreiðslumeistarinn okkar hefur útbúið. Hjá okkur finna allir eitthvað við sitt hæfi.“
Hreimur syngur og DJ Geir Flóvent spilar
Sumir eru farnir að slá saman jólatónleikum og jólahlaðborðinu. Þá mæta skemmtikraftar á veitingastaðinn og bæta upplifun gesta. Er einhver afþreying í boði, á ykkar vegum eða í nágrenninu sem þið mælið með?
„Já, við vorum svo heppinn að fá hann Hreim sem flestir þekkja til að koma og taka nokkur lög með okkur á meðan gestir eru rétt að klára að borða. Síðan þegar hann hefur klárað sitt prógram þá kemur DJ. Geir Flóvent og spilar frábær lög fyrir dansi við frábærar undirtektir gestanna sem hafa dansað þangað til við kveikjum ljósin.“
Varla er hægt að hugsa sér fallegri stað en Grímsnesið. Búrfell vakir yfir og Sogið sú fallega vatnsmikla á liðast þar í gegn kyrrlát og hljóð. Grímsborgir eru rómantískur staður. Er algengt að til ykkar komi pör?
„Já það er mjög algengt að hingað komi pör – annaðhvort við ákveðin tilefni eða bara til að njóta sveitarinnar og breyta aðeins útaf vananum og hvíla sig í öllu amstrinu.“

Hótel Grímsborgir er rómantískt boutique-hótel í fallegri íslenskri sveit.
Góð jólagjöf fyrir fjölskylduna
Hótel Grímsborgir býður bæði upp á herbergi og smáhýsi. Hægt er að taka slíkt á leigu og mæta með börnin sín og barnabörn í sveitina. Það er skemmtileg jólagjöf handa fólki sem flest á allt sem því langar til. Fáið þið til ykkar marga slíka hópa?

Hlýleiki er einkennandi fyrir allt innandyra á hótelinu.
„Við fáum líka mikið af fjölskyldum til okkar, bæði foreldra með börnin sín og svo stórfjölskyldur. Við erum með mjög fjölbreytt úrval gistirýma sem hentar fyrir ýmsar stærðir og gerðir af hópum/fjölskyldum.
Þá er að lokum ekki úr vegi að spyrja fyrir þá sem langar að skella í eitt góðri matarupplifun, yndislegri náttúru og skemmtun, er jólahlaðborðið uppselt?
„Nei ekki alveg, eigum ennþá sæti laus 5. og 13. desember,“ segir Helga Guðný en áhugasamir ættu að flýta sér að bóka því sætin fara fljótt.







