Gert er ráð fyrir að hækkun eftirlauna frá Tryggingastofnun ríkisins verði 3.5% um næstu áramót. Á sama tíma hefur launavísitalan hækkað um 6%, eða næstum helmingi meira en eldri borgarar eiga nú að fá. Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara segir að þeir sætti sig ekki við 3.5% hækkun um áramótin. „Við viljum að það teljist eðlilegt að þessi hópur fylgi launaþróun í landinu. Það er ekki svo stór hópur sem er á lágmarkslaununum sem samið er um í kjarasamningum og sá hópur á auðveldara með að útvega sér viðbótartekjur en eldri borgarar“. Hún segir einnig að eldri borgarar hafi lengi furðað sig á því að þeir fái launahækkun einungis um áramót, oft mörgum mánuðum eftir að búið er að semja á almennum launamarkaði og aðrir hópar þá löngu búnir að fá sínar kauphækkanir- jafnvel aftur í tímann.
Þórunn segir að með nýföllnum dómi um leiðréttingu vegna mistaka sem urðu á Alþingi við afgreiðslu almannatryggingalaganna á sínum tíma, hafi um sex milljöðrum króna verið varið til leiðréttinga, sem fóru í ranga vasa.
„Þarna var um að ræða leiðréttingu vegna mannlegra mistaka og fólk með góðar tekjur fékk í framhaldinu hundruð þúsunda í leiðréttingar. Þessu fé hefði verið betur varið til að bæta hag þeirra sem verst standa, en hálaunahópanna“, segir hún.
Kjaranefnd Landssambandsins koma nýlega saman og samþykkti ályktun þar sem lögð er áhersla á hækkun almenna frítekjumarksins í áföngum, þannig að það verði komið úr 25.000 krónum í 100.000 krónur árið 2022. Þórunn telur þetta sérstaklega mikilvægt vegna lífeyristekna. „Ríkið er núna að taka hluta lífeyristekna eldri borgara til sín“, segir hún og er ekki sátt við það fyrirkomulag.