Lýsa vonbrigðum með aðgerðaleysi í kjaramálum eldra fólks

Landssamband eldri borgara hélt árlegan landsfund sinn um miðjan maí og samþykkti ályktarnir bæði um kjara- og húsnæðismál. Þær fara hér á eftir.

Landssamband  eldri borgara lýsir yfir miklum vonbrigðum með aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í kjaramálum eldra fólks. Þrátt fyrir yfirlýst markmið í stjórnarsáttmálanum og kosningaloforð um að draga  úr skerðingum og jaðarsköttum, hafa efndir engar orðið. Í drögum að fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028 eru engin fyrirheit um lagfæringar á kjörum eldra fólks.

Í hópi eldra fólks er fjöldi sem býr við óásættanleg kjör sem fara nú síversnandi í stjórnlausri óðaverðbólgu. Landsfundur LEB 2023 krefst þess að strax verði gripið til aðgerða til að rétta hlut eldra fólks og hafin verði vinna við að draga úr skerðingum í almannatryggingakerfinu.

Húsnæðismál.

Á síðustu áratugum hefur eldra fólki farið fjölgandi og allt bendir til að sú þróun haldi áfram. Mikilvægt er að taka mið af þessari þróun m.a. við skipulagningu og uppbyggingu íbúðahúsnæðis. Vel staðsettir íbúðakjarnar sem byggðir eru með þarfir eldra fólks gerir því mögulegt að búa lengur í sjálfstæðri búsetu. Landsfundur eldri borgara 2023  varar við því andvaraleysi sem nú ríkir og krefst þess að tekið verði tillit til þarfa eldra fólks við mótun húsnæðisstefnu og beinir því til sveitarfélaga að þau tryggi við skipulagningu nýrra byggingasvæða, uppbyggingu húsnæðis og þjónustu fyrir eldra fólk.

Ritstjórn júní 1, 2023 07:00