Góðir ökumenn alla ævi

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Þórunn Sveinbjörnsdóttir fyrrverandi formaður LEB skrifar

Enn og aftur er þörf á að ræða um akstur á efri árum og hvað sé að breytast. Við viljum flest öll geta hreyft okkur eftir eigin þörfum og óskum. Sjálfstæði mannsins til að ferðast um er stórkostlegt og hefur farið vaxandi í okkar tíð. Bíllinn var ekki almannaeign fyrr en eftir 1970. Höft, gjaldeyrisskortur og leyfi þurfti til að fá bifreið til landsins. Í gögnum föður míns sé ég að hann þurfti leyfi fyrir Opel Kapitain bifreið sem hann keypti. Næst fór hann sjálfur til Þýskalands og keypti sér bifreið hjá Dello bílasölu. Vandinn þá var að afla gjaldeyris. Keyptur var gjaldeyrir á svörtum markaði af þeim sjómönnum sem fengu hluta launa í gjaldeyri. Þetta var árið 1963 og aftur festi hann kaup á Opel. Í Reykjavík á þessum árum var umferð mjög lítil en þó ekki hættulaus.

Börn voru vön miklu frelsi og gátu leikið sér á götum og um allt. Þegar það breyttist smám saman þurfti að fræða börn vel og fékk lögreglan það verkefni að fara milli skóla og leikskóla og ræða við börnin. Einnig fengu börn send í pósti frá Umferðarskóla unga fólksins gögn til að lesa og fræðast um umferðareglur. Það urðu samt slys og sum mjög slæm. Þess vegna var sífelldur áróður um að aka varlega. Ætla má að kennsla til ökuprófs hafi verið misgóð. Perónulega tel ég að Bogi Jóhann Bjarnason lögreglumaður og ökukennari hafi verið einstakur leiðbeinandi og örugglega fleiri. Ég var sautján ára þegar ég fékk ökuleyfi og hef verið heppin þessi  rétt tæpu 60 ár sem ég hef ekið bifreiðum. Enn má finna vænan vott af bíladellu í blóðinu. Það er því umhugsunarefni hvernig staða eldra fólks er úti í umferðinni. Sumir tala um gamlan karl með hatt og þykk gleraugu sem valdi truflunum…..og eða eldri konur í sunnudagsbíltúr. Þá eru aflvana húsbílar verðugt umhugsunarefni í umferðinni. Það er orðið stórhættulegt að aka á 60-80 km hraða á landsbyggðinni vegna framúraksturs bifreiða með afl Mikaels Schumakers.

Fleiri hliðar eru á þessu máli. Úreltar aðferðir eru við endurnýjun ökuskírteina. Það hefur alveg gleymst að koma þeim málum inn í nútímann. Fólk fær enga áminningu um að nú sé komið að því að endurnýja ökuskíteinið sem er oftast í veskinu ónotað áratugum saman þó aðeins af og til í notkun sem persónuskilríki. Í Danmörku er búið að afnema margfalda endurnýjun sem var eins og hér og ábyrgðin hefur verið flutt til fólksins.  Þín ábyrgð á að hætta að keyra, byrjar oft með samtali milli hjóna og eða barna okkar sem sjá að nú er skerpan að dvína. En erum við verri bílstjórar?  Ó, nei alls ekki. Tjón eldra fólks eru oftast hnippingar við t.d. að bakka eða leggja í þröng stæði. En bakkmyndavélar og góðir speglar eru að hjálpa mikið.

Eldra fólk á bílum hefur mikið dregið sig í hlé í umferðinni á aðalálagstímunum þar sem spennan og þrengslin valda vanlíðan. En þessi umferðarþungi er líka að skerða samskipti fólks og draga úr heimsóknum manna til fólksins síns. Margt eldra fólk fær færri heimsóknir vegna þess óhóflega tíma sem það tekur unga fólkið að komast heim síðdegis. „Þetta er eins og í milljónaborg“ segja margir en aðalvandinn er að skipulagið er rangt og vissir menn eiga sök á þrengingum og hindrunum sem hvergi þekkjast nema hér í Reykjavík. Af hverju er það svo?

Ein hindrun sem hefur verið tengd akstri á efri árum, er þegar maki deyr og konan sem hefur  gamalt bílpróf en hefur oftast setið í bíl við hlið mannsins síns er hikandi að byrja aftur að aka. Nú ber svo við að ökukennarar eru fúsir til að taka fólk í upprifjun og leiðbeiningu. Nokkur námskeið voru haldin um akstur á efri árum og þyrfti að endurtaka þau. Þau fengu góða umsögn. Rétt er líka að benda á að þegar fólk fer að hafa minna umleikis og fara sjaldnar í bæjar- eða búðarferðir, þá getur verið ráð að selja bílinn og nota þá peninga sem ella hefðu farið í tryggingar og rekstur í að taka leigubíl. Fólki finnst þetta mikið frelsi en þarf að hugleiða vel og undirbúa sig fyrir slíka breytingu. Til eru útreikningar um kostnað við þetta sem má finna í bæklingi frá LEB.is.

Bíllinn hefur gefið fólki ótrúlegt frelsi og er líka ómetanlegur í vondum veðrum til að komast á milli staða. Sumir eru líka að skutla börnum í allskonar tómstundir.  Að velja bíllausan lífstíl er á valdi hvers og eins en það getur verið gott að hugsa hvað þegar og ef ég get ekki keyrt lengur?

Þórunn Sveinbjörnsdóttir október 10, 2022 07:00