Sakamálasögur – algjör nautnalestur

Íslenskum sakamálahöfundum fjölgar með hverju árinu sem líður og því ber sannarlega að fagna. Sakamálasögur eru stórskemmtileg bókmenntagrein og lestur þeirra fín hugarleikfimi því ósjálfrátt fer lesandinn að glíma við gátuna, leita að vísbendingum og leggja saman tvo og tvo. Hann fær ekki alltaf út fjóra en það getur einmitt verið mun skemmtilegra en hitt. Hér koma nokkrar spennandi og vel unnar sakamálasögur.

Í Huldu eftir Ragnar Jónasson hverfur höfundur aftur í tímann. Hulda er að vinna sig upp í lögreglunni, í hjónabandi og dóttir hennar, Dimma er augasteinn móður sinnar, ástæða þess að hún fer á fætur á morgnana. Hún er send norður í land þegar fréttist að bangsi hafi fundist í veiðihúsi þar en sá tengist tuttugu ára gömlu hvarfi lítils barns. Þetta er sem sé áður en Hulda stígur fram í bókunum Dimma, Drungi og Mistur. En í haust var frum­sýnd sjón­varpsþáttaröð eft­ir fyrstu bók­inni í leik­stjórn Lasse Hallström og það er Lena Olin sem fer með hlutverk Huldu. Eins og í öðrum bókum Ragnars er þessi fyrst og fremst drifin áfram af gátunni og forvitni lesandans um hana. Persónurnar eru áhugaverðar og samspil þeirra og tengsl skapa eru einmitt það sem heldur lesandanum við efnið. Mjög vel gert hjá Ragnari.

Kvöldið sem hún hvarf eftir Evu Björgu Ægisdóttur sver sig sannarlega í ætt við fyrri bækur hennar. Eva Björg er snillingur í að finna óvænta snúninga á sögufléttuna og hún leikur sér gjarnan að því að segja söguna frá nokkrum sjónarhornum sem síðan tengjast og renna saman í lokin. Að þessu sinni finnast mannbein í fjósi við gamalt eyðibýli í Hvalfirði. Málið flækist enn frekar þegar mun eldri bein ungbarns koma í ljós neðar í sömu gröf. Fljótlega verður ljóst að yngri beinin eru af unglingsstúlku sem hvarf á Akranesi en allir héldu að hefði framið sjálfsvíg. Elma og félagar hennar í lögreglunni á Akranesi fara með rannsókn málsins en um tíma virðist að innsæið ætli að bregðast Elmu í þessu máli enda er hún einnig að glíma við óöryggi í einkalífinu. Eva Björg er góður höfundur og kann vel þá list að byggja upp spennu. Henni er líka einstaklega lagið að skrifa um stöðu kvenna gagnvart ofbeldi karla. Hún kemur mjög vel til skila flóknu samspili milli þolanda og ofbeldismanns, valdaleysinu og vanmættinum gagnvart hinum sterka. Flott bók hjá Evu Björgu.

Slóð spordrekans eftir Skúla Sigurðsson er nokkuð óvenjuleg íslensk spennusaga einkum vegna þess að hún gerist alls ekki á Íslandi heldur í Kosta Ríka. Gabríel Tumi Hreinsson er þar í fríi ásamt tengdamóður sinni og tveimur ungum börnum sínum, Dofra og Anítu, þegar þeim er rænt. Fjölskyldan er þegar í sárum eftir að Snæfbjört, kona Gabríels og móðir barnanna, lést og nú dynur þessi ógæfa yfir. Lögreglan neitar að trúa að börnunum hafi verið rænt og telur að þau hafi vaknað af síðdegisblundi sínum og reikað eitthvert út í frumskóginn. Gabríel veit betur þá hefst örvæntingarfull leit hans að Anítu og Dofra. Hann kemst fljótt að því að hann er tilbúinn að gera nánast hvað sem er til að ná þeim aftur og það er ótrúlegt hversu langt föðurástin getur fleytt mönnum, meira að segja í ókunnugu landi. Þessi bók er spennudrifin og atburðarrásin er hröð. Hún er að sumu leyti ólík fyrri bókum Skúla, Stóra bróður og Manninum frá São Paulo því þar eru ýmsar gátur sem þarf að leysa en hér þarf hann aðeins að finna þann sem stendur að baki ráninu og spennan felst í hvort það tekst  áður en það verður um seinan. Skúli er góður höfundur og kann vel þá list að byggja upp spennu. Hann fer alltaf óvenjulegar leiðir í sínum sögum og að þessu sinni þarf lesandinn að velta fyrir sér hvort faðir sé í raun og veru tilbúinn að gera hvað sem er til að bjarga börnunum sínum?

Völundur eftir Steindór Ívarsson er frábærlega fléttuð og áhugaverð sakamálasaga. Atburðarrásin er hröð og í raun þrjú sakamál í gangi í einu. Strax í upphafi heyrir lesandinn af manni sem hvarf árið 1958 en hann á eftir að koma frekara við sögu síðar. Næst er honum kippt inn í nútímann þegar Rúna og Hanna eru rannsóknarlögreglukonur og vinna einstaklega vel saman. Þær eru sendar á vettvang þegar maður finnst látinn á heimili sínu að Klapparstíg 1 í Reykjavík.

Við fyrstu sýn gæti virst að maðurinn hafi svipt sig lífi en Rúnu finnst strax að eitthvað komi ekki alveg heim og saman og hugboð hennar reynist rétt. Á sama tíma eru félagar kvennanna tveggja að rannsaka morð á albönskum manni í Keilfelli. Þar er um að ræða augljós við undirheima Reykjavíkur. Þetta er mjög vel skrifuð og spennandi bók, í raun svo spennandi að maður leggur hana helst ekki frá sér fyrr en hún hefur verið lesin til enda.

Ég læt sem ég sofi eftir Yrsu Sigurðardóttur er bráðsnjöll, spennandi og skemmtileg sakamálasaga. Hér eru skrýtnir karakterar, dularfullir snúningar og alls konar sniðugar vendingar á söguþræðinum sem halda lesandanum í senn spenntum og uppteknum við að reyna að lesa í vísbendingarnar og giska á hver morðinginn er.

Níu ára stúlka hverfur úr garðskúr við húsið sem hún býr á menningarnótt. Níu árum síðar finnst ferðataska með fötunum hennar meðal þýfis í íbúð góðkunningja lögreglunnar. Foreldrar hennar fluttu úr bænum eftir hvarfið og Tý og Karó er falið að keyra vestur í Stykkishólm og segja þeim frá fundi fatnaðarins. Þegar þangað kemur finnst móðir hennar myrt. Er samband milli morðsins og hvarfs stúlkunnar?

Á sama tíma kynnumst við Grétu, einstæðri móður, sem flytur í íbúðina sem fjölskyldan bjó í þegar barnið hvarf. Henni líður ekki vel eftir að hún uppgötvar hvaða atburðir áttu sér stað í húsinu fyrir öllum þessum árum. Hún er hrædd um börnin sín og tortryggir nágrannana. Ekki bætir úr skák að hún kynnist hinni mjög svo uppþrengjandi Mettu og kaldlyndri og andstyggilegri vinkonu hennar, Dóru.

Yrsa sannar hér enn og aftur að hún er fljúgandi fær og hér nýtur sín vel kímni hennar og gott auga fyrir því sem er kómískt í fari manna. Hún kann líka öðrum betur að nýta sér skrýtnar tilviljanir og það hvernig tilviljanirnar geta stundum raðast saman á stórmerkilegan hátt. Henni tekst að gera þetta allt trúverðugt og sagan gengur fyllilega upp.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn nóvember 21, 2024 07:00