Saltfiskur að portúgölskum hætti

Portúgalir eru snillingar að elda saltfiskinn sem þeir flytja inn í stórum stíl frá Íslandi. Þessi réttur sem nú er birtur ber með sér áhrif frá Portúgal en líka frá franskri og ítalskri matargerð. En gamla, góða saltfiskbragðið fær að njóta sín og hann er auk þess sérlega einfaldur og allir geta eldað þennan gómsæta rétt. Uppskriftin er ætluð fyrir 4.

700 g saltfiskur, t.d. saltaðir þorskhnakkar

8 – 10 forsoðnar kartöflur (eða ferskar soðnar)

30 g smjör

2 litlir laukar eða einn stór

3 hvítlauksrif

1 dl svartar eða grænar ólífur, skornar í sneiðar.

½ hvítlauksostur

1 bolli rifinn ostur

malaður svartur pipar

Hitið ofninn í 200 °C. Setjið fiskinn í vatn í pott og látið suðuna koma upp. Takið pottinn af hellunni og látið fiskinn standa í pottinum í 3 mín.  Skerið laukinn á meðan smátt og steikið hann glæran á pönnu við vægan hita. Skerið hvítlaukinn smátt og steikið með á pönnunni í 1 mín. Skerið kartöflurnar í 4 hluta og setjið í eldfast mót. Rífið eða skerið saltfiskinn gróft niður og leggið ofan á kartöflurnar. Dreifið lauknum síðan yfir allt saman. Skerið smjörið í litla bita og dreifið yfir laukinn og svo ólífurnar. Rífið hvítlauksostinn yfir fiskinn ásamt rifna ostinum. Bakið í ofninum í 20 mín. Stillið ofninn að lokum á grill og grillið réttinn í 2 mín. eða þar til osturinn byrjar að brúnast fallega.

Þennan bragðgóða og -mikla rétt er gott að bera fram með portúgalska rauðvíninu Flor de Crasto.

 

 

Ritstjórn nóvember 17, 2017 09:22