Sigríður Stefánsdóttir kennari og fyrrum bæjarfulltrúi

Sigríður Stefánsdóttir var lengi kennari, bæjarfulltrúi og stjórnandi í ýmsum deildum og verkefnum hjá Akureyrarbæ. Hún átti líka lengi sæti í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir bæinn, sambandið, Alþýðubandalagið og Samfylkinguna.

Hún flutti til Akureyrar 1978, en er fædd á Ísafirði og alin upp og hlaut sína mennun í Reykjavík. Fyrst í Ísaksskóla, þá Austurbæjarskóla, Gaggó Aust, Versló og síðan Háskóla Íslands.
„Á starfsævinni fékkst ég við fjölbreytt verkefni, oft mörg á sama tíma og hafði oftast full mikið að gera.  Eftir að ég hætti störfum, hef ég reynt að halda áfram að vera virk,  gera ýmislegt og helst fjölbreytt  En ræð tíma mínum og verkefnum mun meira sjálf og geri núna margt sem varð út undan í önnum dagsins og vinnunnar“, segir Sigríður í samtali við Sigrúnu Stefánsdóttur.

„Síðustu fjögur ár hafa orðið tvær meiri háttar breytingar á lífi mínu.  Sú fyrri var að hætta störfum. Ég hafði fyrirfram haldið að það yrði erfiðara en það reyndist mér. Það besta var að geta haft meiri tíma fyrir fjölskylduna og manninn minn Erling Sigurðarson, sem var mörgum árum fyrr hættur föstu starfi og hafði lengi glímt við Parkinsonveiki.  Það var dýrmætt að geta tekið lífinu rólegar, verið meira saman, auk þess að ferðast innanlands og erlendis, sem við höfðum lengi haft áhuga á og yndi af.  Erlingur dó í nóvember 2019, og sú breyting að missa hann var mjög mikil og hafði djúp áhrif á mig og hefur enn. Makamissir eftir langa samfylgd er dýpri, veigameiri og meira langvarandi breyting, en ég hafði talið fyrirfram.  Og tíminn eftir missinn, bæði það formlega sem gera þarf og samskipti við vini og annað fólk, er eiginlega efni í aðra grein“, segir hún.

„En hvað er ég að gera núna?  Það er ýmislegt. Fljótlega eftir að ég hætti að vinna fór ég að fara í sundleikfimi með hópi, sem hittist alla virka morgna. Ótrúlega hollt, líkamlega, andlega og félagslega.  Svo hef ég haldið áfram að ganga með vinkonu, fjölskyldu, styttri göngur með Ferðafélaginu og ein, ef annað býðst ekki.  Og ég er enn með óbilandi áhuga á ferðalögum, styttri og lengri. Útivera og hreyfing og að kynnast nýjum stöðum, gerir mér mjög gott.

Ég gerðist sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum og vinn í búðinni hjá þeim einu sinni í viku, það er skemmtilegt.  Ég sit líka sem fulltrúi Félags eldri borgara í öldungaráði Akureyrar. Við fulltrúarnir höfum lagt okkur fram um að leggja fram tillögur og hafa áhrif. Árangurinn hefði mátt vera meiri og ég tel að á þessu sviði sé bæði hér, og víðar á landinu, mikið verk að vinna til að tryggja áhrif eldra borgara á sín mál.

Nú hef ég mun meiri tíma til að sinna ræktun og garðvinnu og hef af því ómælda ánægju.  Ég hef verið lengi í frábærum bókaklúbbi og svo er ég alltaf talin með í saumaklúbbi frá verslóárunum og hef reynt að mæta þar alltaf öðru hverju til að halda tengslunum.  Við Erlingur bjuggum tvisvar í Þýskalandi, í ár í hvort sinn, og höfðum haldið góðum tengslum, ferðum og samskiptum þangað, sem enn vara.  Vinnátta gömul og ný, skapar gefandi stundir og  er eitt það dýrmætasta í lífinu.

Það allra mikilvægasta er svo fjölskyldan nær og fjær. Fyrir utan systkini, frændsystkini og tengdafólk er nánasta fjölskyldan, börn, tengdadætur og barnabörn einfaldlega það besta í lífinu“, segir Sigríður að lokum.

Ritstjórn júlí 29, 2020 08:28