Öldungaráðið komið til starfa

„Við höfum tekið þá ákvörðun að helga fyrsta fund okkar með borgarstjórn kjörum aldraðra kvenna í Reykjavík í tilefni af 100 ára kosningarétti kvenna,“ segir Guðrún Ágústsdóttir, formaður öldungaráðs Reykjavíkurborgar.

Í umboði borgarráðs

Öldungaráðið kom saman til fyrsta fundar í morgun en borgarstjórn samþykkti um miðjan desember að koma því á laggirnar. Ráðið starfar í umboði borgarráðs, því er ætlað að vera borgarstjórn, nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar til ráðgjafar um málefni og hagsmuni borgarbúa sem orðnir eru 67 ára og eldri. Það á jafnframt að stuðla að upplýsingagjöf og samstarfi Reykjavíkurborgar við hagsmunasamtök hópsins, móta stefnu og setja fram tillögur til borgarráðs. Öldungaráðið er ráðgefandi fyrir starfsemi Reykjavíkurborgar í málaflokknum og stuðlar, í samstarfi við þjónustumiðstöðvarnar, að eflingu félagsauðs og kynningu á þjónustu borgarstofnana við eldri borgara. Að minsta kosti einu sinni á ári á öldungaráðið að funda með borgarfulltrúum.  Eins og áður sagði verður fyrsti fundurinn, sem haldinn verður í vor, helgaður kjörum aldraðra kvenna í Reykjavík.

Gera könnun á högum aldraðra

„Áður en við förum að móta okkur stefnu um hvernig kjör aldraðra eigi að vera, verðum við að safna upplýsingum um stöðu aldraðra í borginni. Aldraðir eru ekki einsleitur hópur og kjör þeirra eru misjöfn líkt og annara þjóðfélagshópa,“ segir Guðrún og bætir við að það sé erfitt að alhæfa um hópinn fyrr en fyrir liggi könnun á högum eldri borgara í Reykjavík. Slíka könnun þurfi að gera hið fyrsta. Guðrún segir að Öldungaráðið hafi líka hug á að skoða stöðu aldraðra í borginni út frá alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. „Ég er ekki viss um að séum að uppfylla þau skilyrði sem þar eru sett,“ segir hún.

Aldursvænar borgir

Auk þess samþykkti ráðið að skoða hvort að Reykjavík eigi að taka þátt í verkefninu „aldursvænar borgir“ en það er á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Nú þegar eru fjölmargar borgir í heiminum komnar á lista stofnunarinnar.Loks má nefna að á þessum fyrsta fundi ráðsins var rætt um aðstæður eldri innflytjenda í Reykjavík og um aðgengi að vefsíðu borgarinnar.

Ritstjórn mars 11, 2015 17:37