Skemmtileg og alls ekki fyrirsjáanleg ástarsaga

Hittu mig í Hellisgerði eftir Ásu Marín er létt og skemmtileg ástarsaga eða skvísubók, eins og hún er kölluð á kápunni. Hún fjallar um Snjólaugu, einhleypa móður um fertugt sem horfir fram að vera ein um jólin. Barnsfaðir hennar vill fara með dóttur þeirra til Tenerife og þá er góð ráð dýr. Snjólaug hefur alltaf fengið að hafa telpuna hjá sér á jólunum og hana langar ekkert til að samþykkja þetta en verður til að halda samskiptunum góðum.

Henni dettur það helst í hug að koma sér upp „jólakæró“ eða kærasta til að verja jólunum með en ekkert endilega búast við að sambandið endist lengur en sem nemur þeim tíma sem hátíðahöldin standa yfir. Hún reynir stefnumótaapp en hefur ekki árangur sem erfiði. Þá rekst hún á auglýsingu frá ferðaskrifstofu þar sem auglýst er eftir einhleypu fólki til að taka þátt í prufukeyrslu á ferð fyrir einhleypt fólk í anda þátta á borð við Love Island og fleiri. Hún sendir inn umsókn af rælni, kemst inn og þá hefst fjölbreytt ferð um áhugaverða staði og afþreyingarmöguleika Suðurlands. Snjólaug fer út fyrir þægindarammann, kynnist nýju fólki og lærir ýmislegt um sjálfa sig og aðra.

Ása Marín hefur náð góðum tökum á því bókmenntaformi sem hún hefur valið sér. Hún skrifar notalegar ástarsögur sem eru ævinlega með ferðasögu ívafi og þessi bók rennur vel, er lipurlega uppbyggð og skemmtileg. En þótt um formúlu bókmenntir sé að ræða er framvindan alls ekki fullkomlega fyrirsjáanleg eða ófrumleg. Hittu mig í Hellisgerði er því fín afþreying.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn desember 20, 2024 07:00