Hjónin Jón Ársæll og Steinunn Þórarinsdóttir komust á miðjan aldur fyrir nokkru, hann fæddur 1950 og hún 1955. Þau segja hlæjandi frá því að staðreyndin um að vera komin á miðja aldurinn hafi komið þeim gersamlega í opna skjöldu. Þau eru þakklát fyrir góða heilsu sem þau segja að sé forsenda þess að geta átt góð efri ár. ,,Það eru nefnilega mikil sannindi í málshættinum um að heilbrigður maður eigi sér margar óskir en óheilbrigður aðeins eina. Mér leið alltaf eins og ég væri eilífur,” segir Jón og brosir, ,,en hef nú komist að því að svo er ekki.”
Studio manager kemur til aðstoðar
Steinunn samsinnir Jóni og bætir við að sér hafi þótt skrýtið að hafa verið beðin um viðtal um það hvernig væri að eldast. ,,Ég sá enga ástæðu til að ræða aldurinn yfirleitt en þegar ég fór að hugsa mig um hefur lífið auðvitað tekið breytingum með hækkandi aldri. Sem dæmi hafa hendur mínar minnt á sig en ég er ekki lengur með hendur ungrar konu,” segir Steinunn en hún fór að finna fyrir sliti við vinnu sína því höggmyndalist reyni óneitanlega á hendurnar. ,,Ég hef oft þurft að reiða mig á aðstoð við vissa vinnu í seinni tíð og þá hefur Jón komið sterkur inn sem sérlegur aðstoðarmaður og reddari. Til skamms tíma kynnti ég hann sem ,,þrælinn minn” eða ,,my slave” þegar við höfum verið við opnanir á sýningum erlendis en nú hef ég hækkað hann í tign og kynni hann sem ,,my studio manager” segir Steinunn og Jón er augljóslega ánægður með nýja tign.
Löng atvinnusaga en draga nú saman seglin
Jón Ársæll hóf atvinnusögu sína fimm ára gamall þegar sveitadvöl hans hófst þar sem hann var í sex sumur. Hann fór síðan á togara aðeins 12 ára gamall og fór síðar í kokkanám sem hefur oft komið sér vel í gegnum tíðina. ,,Ég hef verið mjög líkamlega sterkur og duglegur en nú finn ég að ég er ekki eins sprettharður og áður. Ég hugsa mig til dæmis tvisvar um þegar ég þarf að fara upp á þak að mála eða grafa skurði. Ég er auðvitað að grínast þegar ég segist vera ósáttur við að eldast en það eru samt ákveðin sannindi í því. Við því er ekkert að gera annað en að hugsa vel um sig og njóta þessa tíma sem við eigum. .” Hluti af námi Jóns í klínískri sálarfræði var öldrunarsálarfræði á sínum tíma svo fátt kemur honum á óvart þegar hann finnur fyrir aldrinum. ,,Mér leið bara alltaf eins og ég sjálfur væri eilífur og var sannarlega ekki undir það búinn að upplifa á eigin skinni breytingarnar sem verða á okkur öllum. En næsti kafli er svo dauðinn og ég hef velt því fyrirbæri töluvert fyrir mér. Ég finn ekki fyrir neinni hræðslu heldur sé ég hann fyrir mér þannig að við sofnum og við taki annað ævintýri.” Steinunn bætir hlæjandi við að Jón sé duglegur maður sem líti á dauðann sem spennandi verkefni.
Kynntust á bar 1980 en eru nýgift
Þau Jón og Steinunn kynntust á bar í Reykjavík þegar þau voru bæði nýkomin heim frá námi, hann frá Afríku þar sem hann lagði stund á eigin rannsóknir í sálarfræði og hún frá Ítalíu þar sem hún var í höggmyndalist. Jón spurði Steinunni í framhaldi hvort hún hefði verið á Ítalíu í fyrirsætustörfum og hún féll kylliflöt fyrir því. Þar með hófst þeirra samband og þau eru sammála um að sú vegferð hafi verið ævintýri líkust. ,,Mér finnst ég heldur hafa skánað með aldrinum þegar ég hugsa til baka,” segir Steinunn. ,,Í raun finnst mér þessi tími sem við erum á núna vera einn sá skemmtilegasti. Við höfum verið farsæl og erum að uppskera margt gott.”
Steinunn segir að það sé nú kannski til marks um að þau hafi farið að hugsa um að árunum færi fjölgandi að þau tóku ákvörðun um það fyrir nokkru að gifta sig. Það hafi verið praktískara að hafa þau mál í föstum skorðum og á hreinu. Þau eiga tvo syni, Þórarin Inga myndlistarmann og Þórð Inga tónskáld og rappara en hann er betur þekktur undir listamannsnafninu ,,Lord Pusswhip”. Þau notuðu tækifærið þegar sá eldri varð þrítugur og ,,gengu loks alla leið” eins og þau kalla það.
Húsasagan hófst
Eitt af því sem sameinar þessi góðu hjón er áhugi þeirra á gömlum húsum og hlutum. Þegar þau kynntust hafði Jón þegar keypt húsið sem þau búa enn í en þá var það aðeins rúmir 30 fermetrar að stærð. Strax þá upphófst húsasaga þeirra sem stendur enn. Þau byggðu fyrst við húsið og grófu svo kjallarann út og byggðu palla svo þá var plássið orðið gott.
Jón og Steinunn eiga síðan annað hús austur undir Eyjafjöllum þar sem þau hafa búið sér til litla paradís sem er í raun þeirra annað heimili. Þetta er hús sem hafði verið hluti af Höfðaborginni í Reykjavík og stóð eitt eftir þegar Höfðaborgarhverfið var rifið. ,,Tíu árum síðar fundum við annað hús, svipað hinu, en það hafði verið skíðaleiga við Umferðarmiðstöðina og margir muna eftir. Við splæstum húsunum tveimur saman og úr varð rúmlega 200 fermetra hús,” segir Steinunn. ,,Svo fann Jón litið hús sem við fluttum líka og er nú vinnustofa mín þar eystra,” segir Steinunn. ,,Það nýtist með vel á meðan Jón er að móta landið og rækta skóg sem hann á mestan heiðurinn að. Landið var alveg ónumið þegar við keyptum það því hér var ekki vegur, vatn eða rafmagn en bara mikil og góð mýri.” Jón segir að í landmótuninni og uppbyggingunni hafi verið fólgin mikil gleði og að hann sé með vissa fyrirmynd. ,,Ég kalla garðinn á Stóru-Borg Versali norðursins,” segir hann kíminn.
Frá jörð þeirra að Stóru-Borg sér til Eyjafjallajökuls og þau höfðu gosið fyrir augunum út um stofugluggann í bæði skiptin þegar jökullinn gaus. Fyrst voru þau viss um að þau gætu ekki verið þarna næstu árin því þykkt lag af ösku lagðist yfir allt. En næsta vor kom í ljós að askan var þessi fíni áburður og jörðin var enn frjósamari en áður.”
Öll vötn liggja til Seyðisfjarðar
Fyrir nokkrum árum keypti sonur Jóns og Steinunnar hús á Seyðisfirði en bæði eiga þau rætur í þeim góða bæ. Jón fæddist þar og ólst upp fyrstu árin og ætt Steinunnar er frá Þórarinsstöðum í Seyðisfirði en sú jörð er landnámsjörð. Upphaflega var forfaðir hennar, sem bar nafnið Þórarinn, landnámsmaður þar. ,,Nú hefur því ellefu hundrað ára sögu Þórarna verið lokað,” segja þau hlæjandi.
Það jákvæðasta við að eldast
Á heildina litið hefur líf okkar verið mikið ævintýri og við erum upptekin af því að hafa gaman á meðan við getum,” segja Jón Ársæll og Steinunn sem hafa komist að því að skemmtilegasti tíminn sé núna.
,,Ég er öruggari í eigin skinni og er meira sama um hvað öðrum finnst,” segir Steinunn og Jón samsinnir.
Örugglega gott hobbí
Þegar Steinunn sagði foreldrum sínum að hana langaði að fara í myndhöggvaranám sagði faðir hennar: ,,Já, það verður örugglega gott hobbí í framtíðinni elskan.” Hann var alltaf svo jákvæður en hafði ekki trú á að það gæti orðið að listamannsferli. Hann og mamma voru samt alltaf mínir helstu stuðningsmenn. Kannski finnur maður fyrir aldrinum við að hugsa til baka og rifja upp hvað tímarnir hafa breyst mikið. Þegar ég var að byrja voru fjórar konur í myndhöggvarafélaginu, enda að vissu leyti ekki álitið kvenmannsstarf, en nú eru meðlimir hátt í 200 og meirihlutinn konur. Þetta var 1980 þegar við Jón hittumst þarna á barnum og mér finnst bara ekki svo langt síðan. En gífurlega margt hefur breyst og margt til batnaðar,” segir Steinunn.
Að draga saman seglin
Jón er nú orðinn 72 ára og er svo heppinn að geta dregið seglin saman í rólegheitum þó svo verkefnin séu ærin og uppákomurnar margar. ,,Það má segja um okkur bæði að við höfum verið ,,herrar eigin daga” um ævina. ,,Upp á síðkastið hef ég í raun bara verið að leika mér í fjölmiðlum. Ég var til dæmis að klára heimildarmynd um leitina að gullskipinu á Skeiðarársandi sem er búin að vera mörg ár í smíðum.
Ljóst er að þessi líflegu hjón eru ekki að setjast í helgan stein heldur halda áfram að lifa lífinu lifandi þrátt fyrir að vera komin á miðjan aldur.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.
Þetta viðtal var síðast birt á Lifðu núna vefnum í apríl 2022 og hefur verið uppfært.