Katrín Halldóra Sigurðardóttir stígur á svið í Borgarleikhúsinu í haust og bregður sér aftur í hlutverk Ellyjar Vilhjálms. Sýningin gekk fyrir fullu húsi í tvö ár og ekkert lát var á vinsældunum þegar ákveðið var að hætt. En það hlýtur að vera sérstakt fyrir leikara að leika aftur sama hlutverk sérstaklega þegar um er að ræða sögu manneskju sem raunverulega var til. Katrín Halldóra getur hins vegar varla beðið eftir að byrja að nýju.
Sýningin byggir á ævisögu Margrétar Blöndal, Elly. Ekki var margt vitað um persónuna Elly þegar Margrét hóf að vinna að bókinni en hún byggði á viðtölum við börn hennar og fólk sem þekkti söngkonuna vel. Margt kom fólki á óvart þegar bókin kom út en ung leikkona hreifst af henni og bjó til verkefni úr henni í Listaháskólanum. Þar sá Gísli Örn Garðarson hana en hann og Ólafur Egilsson voru þá með í bígerð að búa til leikgerð upp úr bókinni. Sú unga stúlka var Katrín Halldóre sem nú snýr aftur eldri og mun reyndari í leiklistinni. Hvernig er að stíga aftur inn í hlutverk Ellyjar?
„Það er alveg yndisleg tilfining, ég er með fiðrildi í maganum yfir því að fá tækifæri til þess að gera þetta aftur sem er alls ekki algengt,“ segir hún. „Síðan síðast hef ég líka eignast tvö börn svo ég hef úr enn fleiri tilfiningum að spila úr en svo hlakka ég gífurlega mikið til að hitta alla áhorfendur aftur! Það er alltaf alveg einstök orka frá salnum á Elly, mjög mikill kærleikur og gleði og fólk elskar að fara með okkur í þetta ferðalag aftur í tímann. Þvert á kynslóðir.“
Ótrúleg tilviljun hve líkar raddirnar eru
Kærleikurinn stafar ekki síst af þeim áhrifum sem tónlist Ellyjar hefur haft á nokkrar kynslóðir Íslendinga. Óhætt er að segja að hún hafi sungið sig inn í hjörtu landsmanna og sum lögin hafa glatt fólk á góðri stundu en önnur komið þeim gegnum sorg og söknuð. Þið Elly þykið líkar og hafa líkar raddir. Fékkstu viðbrögð vegna þess þegar sýningin var fyrst í gangi fyrir fimm árum?
„Já, ég fæ stöðugt að heyra það hvað við séum líkar í útliti og svo þegar ég er komin í gervi Ellyjar, með kolluna og förðunina þá viðurkenni ég það að þá gerast einhverjir galdrar. Hún er bara mætt! Svo er alveg ótrúleg tilviljun í rauninni hversu líkar raddirnar eru, við erum með svipað tónsvið og það gerir bara leikhúsgaldurinn ennþá sterkari fyrir vikið og ég þarf ekki að sækja hennar hljóm langt yfir lækinn.“
Einhver tár munu án efa renna
Ragnar Bjarnason og Elly skemmtu saman á Hótel Sögu og víðar í mörg ár. Hann var náinn vinur hennar og það setti svip á sýningarnar áður að hann steig stundum á svið með þér og söng í lokin. Muntu sakna þess?
„Já, það var alveg yndislegt að hafa fengið að hafa Ragga með í lokin í öll þau skipti sem hann komst til okkar og ég mun sakna þess mikið að taka ekki lagið með honum í lokin,“ segir Katrín Halldóra. „En sýningin stóð samt líka án hans og þetta er auðvitað saga Ellyjar svo við segjum hana og getum svo í lokin, þegar tjaldið fer fyrir, hugsað með mikilli hlýju og djúpu þakklæti til hans og allra þessara mögnuðu listamanna semhafa kvatt sviðið hvert á eftir öðru. Svo það verður ljúfsár endirinn og örugglega einhver tár sem munu renna.“
En lögin í sýningu Ellyjar eru ekki einu dægurlögin sem Katrín Halldóra hefur gefið nýtt líf og rifjað upp öðrum til gleði. Þú hefur tekið upp sungið lög Jóns Múla og Jónasar og á nýjustu plötunni þinni Ást fyrir tvo, lög sem eldri kynslóðir þessa lands þekkja vel en þín hefur kannski aldrei heyrt. Er einhver skýring á hvers vegna þessi lög höfða svona til þín?
„Ég held ég hafi einfaldlega bara svona gamlan smekk. Ég elska að gera ábreiður af lögum sem mér þykir vænt um með tríóinu mínu. Eins hef ég bara hreinlega ekki samið mína eigin tónlist ennþá en ég hef reyndar samið texta við tvö jólalög sem ég hef gefið út. Kanski geri ég meira af því og þá kemur eitthvað glænýtt og ferskt út með mér,“ segir hún og brosir.
Aldrei verið jafnauðvelt að læra texta
En það styttist á nýja frumsýningu á Elly. Áttu von á að sýnt verði jafnoft nú og þegar sýningin gekk áður?
„Nei alls ekki, við sýndum 220 sýningar á tveimur árum síðast en núna verður sýningin aðeins sýnd í takmarkaðan tíma. Þetta verða 2-3 sýningar í viku. Svo núna mega þeir sem misstu af okkur síðast ekki sofna á verðinum heldur drífa sig að ná sér í miða.“
Og þá ekki síður þeir sem hafa hug á að rifja upp kynnin við Elly og njóta að nýju þessarar frábæru leikgerðar. Hvað hefur þú gert til að undirbúa þig?
„Ég er búin að vera læra textann aftur sem situr reyndar mjög fast eftir í hausnum á mér, aldrei verið svona auðvelt fyrir mig að læra texta! En svo er ég líka að hlaupa og æfa til að vinna upp þol og úthald sem þarf að hafa fyrir svona stórt sönghlutverk. Það er að mörgu að huga og nú er allt bara orðið klárt! Æfingar með leikhópnum á sviði í vikunni og svo byrjum við að sýna þann 6. september,“ segir Katrín Halldóra að lokum. Þess má geta að þegar er uppselt á fyrstu sýningarnar og því ákveðið að bjóða upp tvær dagsýningar klukkan 16 þann 23. nóvember og 8. desember, frábær tími til að njóta í aðdraganda aðventu og á aðventunni. Tvær sýningar verða einnig á hefðbundnum tíma eða klukkan 20 um jólin eða 27. og 28. desember.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.