Smáatriðin leiða mig áfram

Þegar örlaganornirnar taka að spinna sinn vef hafa mennirnir ekki annað val en laga sig að þeim aðstæðum sem þeim eru búnar. Sigrún Ása Sigmarsdóttir greindist með vefjagigt þegar hún var um fimmtugt og þurfti þá að leggja til hliðar allar áætlanir um að arka á fjöll og ganga um óbyggðir þegar kæmi að því að hún hætti að vinna. Þess í stað ákvað hún að leita að því sem veitti henni gleði og ánægju og leggja rækt við það. Í ljós kom að listsköpun uppfyllir þessi skilyrði og samskipti við fólk. Sigrún Ása hefur síðan ort, málað og búið til djúp og gefandi tengsl.

Sigrún Ása sýnir um þessar mundir verk sín í Borgarbókasafninni í Spönginni. Sýningin stendur til 14. ágúst en safnið verður lokað um tíma í júlí vegna sumarleyfa. Yfirskrift sýningarinnar er Þráður og vísar til þess fínlega og smágerða í náttúrunni og myndunum. Fyrst liggur beinast við að spyrja, ertu lengi búin að stunda myndlist?

„Nei, bara mjög stutt,“ segir hún. „Ég fór að fá meiri áhuga á myndlist þegar ég var um fimmtugt. Þá fór ég mikið á söfn og skoðaði myndlistarbækur til að dáðst að listfengi annarra en það hvarflaði ekki að mér að ég myndi sjálf hafa einhverja hæfileika í þetta. Það eru um það bil fimmtán ár síðan þetta var. Þá byrjaði ég að fara á myndlistarnámskeið hjá Hörpu Björnsdóttur. Eitt það fyrsta sem ég gerði var að taka þátt í jólakortasamkeppni á vinnustaðnum mínum og ég vann keppnina. Þá hugsaði ég; já, ég get haldið áfram með þetta. Það eru aðeins tæp fimm ár síðan ég bjó til mína fyrstu facebook-síðu með myndlistinni minni og ákvað að gefa mér tíma og leyfi til að leika mér í þessu.“

Bláþráður

Vissi ekki að hún hefði myndlistarhæfileika

Þú hefur líka fengist við að yrkja, hefur þú gefið út eitthvað af ljóðunum þínum?

„Já, ég hef gefið út eina ljóðabók, Siffon og damask,“ segir hún. „Hún kom út þegar ég varð sextug og fjallar um vefnaðarvörubúðir í lífi mínu. Þá byrjuðu skrifin líka að koma fram.“

Ertu enn að vinna eða ertu komin á eftirlaun?

„Ég er hætt að vinna. Ég er bókasafns- og upplýsingafræðingur og vann lengi á bókasöfnum, síðast á safninu á RÚV í tíu ár. Það hefur verið mitt aðalstarf í gegnum tíðina þótt ég hafi gert eitt og annað meðfram því.“

Það er svolítið skemmtilegt til þess að hugsa að bóksafns- og upplýsingafræðin snúast fyrst og fremst um skipulag og koma skikki á hlutina en listin er kannski mest óreiða.

„Einmitt en ég bara vissi ekki að ég gæti þetta. Ég snerti varla á neinu sem kallast mætti list frá því ég var tólf ára og fram á miðjan aldur þegar ég fór að hafa áhuga á hvað aðrir voru að gera. Það var greinilega komin einhver forvitni í mig. Auk þess hafði verið mikið að gera í lífinu og ég ekki gefið sjálfri mér tíma til að sinna þessu neitt eða kanna þessa hlið tilverunnar.“

Himnabárur

Eykur sjálfsþekkingu með listsköpun

Nú eftir að þú ert byrjuð þessa listsköpun, hvaða máli hefur það skipt þig að vinna við hana?

„Ég fæ mjög mikla sjálfsþekkingu út úr þessu,“ segir hún. „Ég skoða hvað er inni í mér og þetta veitir mér mjög mikla gleði. Ég fór líka markvisst í að leita að hvað myndi veita gleði inni í líf mitt. Ég greindist með langvinnan sjúkdóm, vefjagigt, um fimmtugt og varð að hætta fjallgöngum sem ég hafði alltaf séð mig fyrir mér stunda fram á efri ár. Sá mig alltaf fyrir mér hlaupandi um öll fjöll. Ég varð hins vegar að finna mér eitthvað annað og ég fór í svolitla vinnu og markvissa leit að því sem gæti komið í staðinn. Ég fór líka að hugsa meira um lífið eftir  vinnu og vildi koma mér upp áhugamáli sem ég gæti auðveldlega stundað.

Ég fór á ritlistarnámskeið hjá Þorvaldi Þorsteinssyni á þessum tíma og það gaf mér byr undir báða vængi. Síðan hef ég farið á nokkur námskeið hjá Björgu Árnadóttur í Stílvopninu. Hún hefur leiðbeint mér töluvert með skrif og síðasta námskeið var á Indlandi. Þangað héldum við ritlistarhópur. Ég hef líka farið á myndlistarnámskeið og fengið réttindi til að kenna zentangle-teikningu. Það er sérstök teikniaðferð sem snýst um að róa hugann og vera í flæði um stund. Maður teiknar lítil verk fyrirfram valin mynstur. Á Íslandi þekkja þetta ekki margir en þetta er velþekkt fyrirbæri víða um heim. Við fórum saman að læra þetta þrjár systur og það gaf mér aukið sjálfstraust. Líka það að finna að ég hafði virkilega gaman af þessu, öllum þessum smáatriðum sem eru í þessum mynstrum, það kemur til mín þegar ég var að leita því sem gefur mér ánægju, lætur mér líða vel. Ég leiddist bara í þetta einhvern veginn þangað. Ég hef ekki mikið verið að kenna en geri það ef ég er beðin um og býð upp á stuttar kennslustundir, leiddar teiknistundir eins og við köllum þetta.“

Himnaliljur

Snýst um sköpunarþörfina

Vefjagigt er hamlandi sjúkdómur og um tíma var Sigrún Ása illa haldin af henni.

„Ég þurfti að hætta að vinna fyrr en ella,“ segir hún. „Það urðu ákveðin skil í lífinu á árabilinu 2014-2015. Þá komu upp erfiðleikar í fjölskyldunni. Það voru veikindi og dauðsfall og ég átti fullt af litlum barnabörnum. Þau fæddust sex á átta árum og það þurfti að sinna því og frábært að geta gert það. Þegar það allt fór að róast hugsaði ég með mér að ég vildi alls ekki missa af því að prófa eitt og annað. Þess vegna hellti ég mér aðeins út þetta.“

Erum við kannski of bundin því að telja að listin sé aðeins fyrir fólk með snilligáfu, þá sem eru fæddir með náðargáfu, og það haldi kannski aftur af okkur að reyna sjálf?

„Ég heyri það oft núna hjá jafnöldrum mínum að þeir segja: „Ég hef ekki svona hæfileika,“ og ég svara: „Ég vissi ekki að ég hefði þessa hæfileika en ég fór að leita að því sem ég er forvitin um og hvað gleður mig. Smám saman stækkaði ég þennan part af lífinu og fór lengra og lengra inn í þetta. Ég held að það sé einmitt mjög algengt að fólk haldi að það þurfi að kunna að teikna. Ég kann eiginlega ekkert að teikna. Ég teikna mynstur en teikna ekki manneskjur, hús eða hesta. Það er allt meira og minna abstrakt sem ég geri. Maður þarf ekki að hafa verið teiknandi allt sitt líf. Þetta snýst fyrst og fremst um að hafa þörf til að skapa eða búa eitthvað til. Ég hef auðvitað alltaf gert það þótt ég hafi ekki litið á það sem listsköpun. Ég saumaði föt á börnin, skreytti tertur og konfektmola, saumaði gardínur og bjó til kort.

Þegar ég fór á námskeiðið hjá Þorvaldi Þorsteinssyni leysti hann mig svolítið úr fjötrum. Hann kenndi okkur að maður þyrfti ekki að vera íslenskufræðingur eða bókmenntafræðingur til þess að geta skrifað. Það þyrfti ekki þekkja allar kenningar og reglur til að tjá sig í rituðu máli. Maður mátti bara skapa með skrifum og búa þess vegna til eitthvert bull.“

Blástur

En það er fleira sem Sigrún Ása setur í öndvegi. Hún bætir við:

„Þegar ég hóf leitina af því sem gæfi mér gleði fann ég að ég vildi líka búa til góð tengsl. Ég vildi eignast nýja vini og styrkja tengslin við eldri vini í gegnum bókaklúbba og fleira. Ég vildi líka búa til sterk tengsl við barnabörnin mín hvert og eitt. Góð tengsl snúast um smáatriðin og þau leiða mig áfram.“

Þess má geta að smáatriðin skipta einnig miklu í verkum Sigrúnar Ásu. Hún nostrar við og býr til mynstur eða einkenni sem setja svip á heildarmyndina þótt fáir taki eftir þeim við fyrstu sýn. Þetta er í senn áhrif frá zentangle-teikningunni og þeirri rækt sem hún vill leggja í að skapa sér ánægjulegt líf. Nú stendur yfir sýningin Þráður. Ertu með eitthvað fleira í bígerð á þessu ári?

„Nei, það er ekkert planað. Það er búið að vera svolítið mikið um að vera það sem af er ári. Ég var með opna vinnustofu á heimili mínu í mars og sýndi í Sundlauginni á Akureyri í apríl. En ekki fleira er á döfinni í bili,“ segir Sigrún Ása að lokum en áhugasamir geta skoðað verk hennar á heimasíðunni www.sigrunasa.is.

Á vef Borgarbókasafnsins er að finna eftirfarandi texta um sýningu Sigrúnar Ásu.

Svöl á sumri

„Náttúruleg form mynda rauða þráðinn í myndverkum Sigrúnar Ásu Sigmarsdóttur.  

Þar er sterk vísun í lífrænan plöntuheim og hið smágerða og fínlega er kallað fram með beitingu sterkra lita og áferðar. Ýktar línur birtast einnig.

Auga, snertiskyn og tilfinningar eru oftar en ekki mælitæki fyrir ákvarðanir. Litir eru valdir eftir sterkastri litalöngun hverju sinni, listin er tækifæri til að hlusta á eigið innsæi.

„Leikur og list er mín leið til að vaxa og búa til nýjar sögur um tilveruna. Sterk tenging við náttúruna vekur stöðuga forvitni, undrun, vellíðan og gefur innblástur. Sköpun mín birtist með ljóðum, vatnslitum, útsaumi, teikningu, málverki og margvíslegum aðferðum og verkfærum, ég æfi mig, reyni nýja hluti, leik mér og læri. Ég vil að fólk taki eftir upplyftingu og litagleði í huga sínum við skoðun á verkunum, að þau geri öðrum kleift að finna það sem ég finn, að dvelja með gleði í vakandi vitund.““

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júlí 3, 2024 07:00