Slysagildrur á heimilisins gerðar óvirkar

Heimilið er okkar griðastaður og þar líður okkur vel en engu síður er það staðreynd að mörg slys gerast inni á heimilum og sum þeirra geta haft alvarlegar afleiðingar. Þegar fólk tekur að eldast skerðist jafnvægisskynið og vöðvakrafturinn svo minna þarf til að detta og fall auk þess líklegt til að verða skaðlegt. Þess vegna er mikilvægt að fara reglulega yfir helstu slysagildrur á heimilum og gera ráðstafanir til að draga úr líkum á að einhver gangi í þær.

Svefnherbergið

Aldrei geyma inniskóna beint fyrir framan rúmið. Ef fólk þarf framúr á næturnar er alltaf hætta á að hnjóta um þá í myrkrinu. Geymdu þá á vísum stað til hliðar við náttborðið á stað þar sem þú gengur ekki um. Ef svefnherbergið er dúk- eða parketlagt ætti að festa vel niður mottur á gólfinu og gæta þess vel að hornin og ystu brúnir þeirra séu tryggilega fastar. Mjög mörg slys gerast þegar fólk rekur tærnar í mottur eða teppahorn og missir jafnvægið. Ef þær liggja lausar er líka hætta á að þær renni af stað þegar stigið er á þær. Föt ætti sömuleiðis aldrei að geyma á gólfinu.

sturta, bað, baðherbergiBaðherbergið

Langflest slys á heimilum gerast í eldhúsi eða baðherbergi. Þegar fólk stígur blautt út úr sturtu eða upp úr baði á rakar flísar. Einnig er algengt að eftir vissan aldur verið erfiðara að reisa sig upp af klósettinu og renna til hliðar eða detta fram fyrir sig þegar staðið er upp. Í dag er auðvelt að draga úr líkum á slíku með því að koma fyrir öruggum baðmottum við sturtu og baðkar, setja slár á vegginn til að grípa í og fá aðstoð við að hækka klósettið svo auðveldara sé að standa upp. Það er einnig gott að venja sig á að standa kyrr í sturtunni eða baðinu og þurkka sig þar áður en stigið er út á flísagólfið.

Eldhúsið

Heita vatnið á Íslandi er dásamleg auðlind en það getur verið skaðlegt. Það er góð regla að stilla kranann aldrei á heitasta þegar þvegið er upp látið renna í ílát. Uppþvottavélin þvær mjög vel og það er hægt að kaupa minni gerðir af þeim þegar fækkar í heimili. Sömuleiðis er góð regla að teygja sig ekki upp í efri hillur til að sækja þunga hluti. Stöðugar og góðar tröppur auðvelda öllum að ná lengra á öruggari og þægilegri máta. Það er líka hægt að koma fyrir hillum eða grindum sem hægt er að toga upp eða niður í eldhússkápunum. Þannig er allt sem fólk þarf á að halda ævinlega innan seilingar.

Það er líka góð regla að setja heita drykki á bakka og bera þá þannig að þeim stað þar sem fólk ætlar að njóta þeirra. Það minnkar hættuna á að heitt bollans skvettist beint á þig ef eitthvað kemur fyrir. Spam-helluborð sem slökkva á sér sjálf ef það gleymist eru frábær kostur.

Gangur og hol

Þótt undarlegt megi virðast eru gangar og hol meðal þeirra staða þar sem flest slys gerast. Það er vegna þess að einhver skilur eftir skó, fatnað, töskur eða annað á gólfinu og þegar næsti maður gengur upp dettur hann um það. Það er góð regla að renna augunum reglulega yfir helstu gangvegi heimilisins og fullvissa sig um að þar sé engin fyrirstaða. Samkvæmt erlendum rannsóknum verða um það bil 10% slysa hjá eldra fólki þegar það er á ferð milli herbergja á heimili sínu. Verstu slysin gerast þegar verið er að ganga upp eða niður stiga. Það er gott að koma fyrir handriði á veggnum við stigann líka þá er hægt að halda sér báðum höndum meðan gengið er um stigann.

eldvarnir, reykskynjari Eldvarnir

Reykskynjarar eru nauðsynlegir á öllum heimilum og það ætti að fá fagmenn til að koma þeim fyrir. Eldvarnarteppi ætti að vera í öllum eldhúsum á stað þar sem auðvelt og handhægt er að grípa til þeirra. Allir ættu sömuleiðis að vera búnir að æfa útgönguleiðir úr húsum sínum ef eldur kæmi upp.

 

Nokkrar góðar reglur:

  1. Vistið númerið 112 í símann ykkar. Gerið lista yfir helstu neyðarnúmer og komið þeim fyrir á nokkrum stöðum í íbúðinni. Á þeim lista ætti að vera neyðarlínana, læknavaktin, heimahjúkrun eða heimilisaðstoð ef það á við og nöfn þeirra ættingja eða vina sem koma til hjálpar ef á þarf að halda.
  2. Gætið þess að hlaða símann reglulega svo hann sé örugglega ekki batteríslaus næst þegar þið þurfið virkilega á honum að halda.
  3. Sýnið mikla aðgát í umgengni við kertaljós og annan opinn eld. Komið fyrir höttum á kertum sem slökkva sjálfkrafa á þeim þegar þau eru brunnin niður og forðist að kveikja á kertaskreytingum þegar þið eruð ein.
  4. Hafið heimilið vel lýst. Ein algeng slysagildra á heimilum er slæm lýsing. Sjónin daprast með árunum og við þurfum þess vegna á sterkari perum og meira ljósi að halda. Farið fyrir alla lýsingu á heimilinu og reynið að sjá til þess að hún sé ævinlega nægilega góð fyrir ykkar sjón og þarfir. Hægt er að koma fyrir búnaði á baðherbergi sem sér til þess að ljósið kvikni sjálfkrafa þegar gengið er um.
  5. Öryggishnappar eru frábært tæki fyrir eldra fólk og sjá til þess í mörgum tilfellum að fólk geti notið þess að vera heima lengur. Hægt er að fá upplýsingar um hvernig þeir virka og hjálp við að koma þeim fyrir hjá öryggisfyrirtækjum á borð við Securitas og Öryggismiðstöðina.
  6. Öryggiskerfi á heimilum eru ekki bara leið til að koma í veg fyrir innbrot eða tjón af völdum vatns eða elds. Þau geta einnig nýst til að sjá hverjir nálgast hús þitt, hver er að hringja dyrabjöllunni og þegar þú setur það á lætur það vita ef gleymst hefur að loka einhverri hurð.
  7. Þótt heimilið hafi verið hér til umfjöllunar er gott að muna að garðurinn, pallurinn og næsta nágrenni er hluti heimilisins. Þar þarf oft að huga að breytingum með auknum aldrei, t.d. gæta þess að engar hellur séu lausar í stéttinni, aldrei ganga út að blautan pallinn á inniskóm eða öðrum sléttum skóm, blautt gras getur sömuleiðis verið hált og góð regla er að skilja aldrei neitt eftir á glámbekk í garðinum þar sem hætta er á að einhver stíga á það. Skóflur, klórur, hrífur og önnur garðverkfæri eiga heima inni í skúr og sömuleiðis upprúllaðar garðslöngur.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 15, 2024 07:00