Ekki príla uppá stól

Það er nokkuð algengt að fólk slasist í heimahúsum og algengara með hækkandi aldri eins og sjá má á töflunni hérna fyrir neðan.

Tafla yfir heima og frítímaslys

Slysahætta eykst með aldrinum

Samkvæmt fyrirlestri Ólafs Þórs Guðmundssonar öldrunarlæknis á Landsspítala háskólasjúkrahúsi, eru um 75% slysa hjá fólki sem er 65 ára og eldra vegna þess að það dettur, ýmist heima hjá sér eða utandyra. Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur ásamt Öryggismiðstöðinni kynnt fólki öryggi í heimahúsum, en hættan á því að fólk slasist eða detti heima hjá sér eykst með aldrinum. Samkvæmt tölum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu urðu 5% fólks á aldrinum 70-74 ára fyrir slysum heima hjá sér eða í frítíma sínum árið 2012. Þessi prósenta fór hækkandi með aldrinum og var komin í 9% hjá fólki á aldrinum 85-89 ára.

Gott að hafa tröppu

Eins og fyrr segir verða slys í heimahúsum hjá fólki á öllum aldri. Hver kannast ekki við að þurfa að príla uppá stól til að ná í hluti sem eru efst í skápunum, eða að þurfa að skipta um peru og setja upp gluggatjöld? Það er ekki alltaf auðvelt. Dagbjört H. Kristinsdóttir hjúkrunarfræðingur og  verkefnisstjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu segir ýmislegt hægt að gera til að auka öryggið á heimilinu. Það sé til dæmis gott að hafa tröppu með tveimur þrepum til að stíga uppá svo menn detti ekki, og gott ef hún er með handfangi til að halda í.

Dagbjört H. Kristinsdóttir hjúkrunarfræðingur

Dagbjört H. Kristinsdóttir hjúkrunarfræðingur

Nota ekki efstu hillur

Þá sé gott ráð að geyma ekkert í efstu hillunum í mjög háum skápum, nema kannski jólaskrautið sem einungis er notað einu sinni á ári. Stundum þegar fólk er farið að eldast fær það börnin sín til að aðstoða við hluti eins og að skipta um perur, eða sækja eitthvað uppí háa skápa, en þau eru ekki alltaf tiltæk og þá getur góð trappa hjálpað. Hún segir gott að trappan sé bara með tveimur þrepum vegna þess að annars verði fallið hærra, detti menn niður af henni.

Áltrappa þægileg í meðförum

Hún segir gott að trappan sé létt og þess vegna eru áltröppur góður kostur. Það sé verra ef hún sé þung og það sé erfitt að færa hana. Þá sé það tvímælalaust þægilegt að geta sett tröppuna saman og sett hana til dæmis inní kústaskáp þegar hún sé ekki í notkun. Dagbjört segir að pallar sem eru notaðir fyrir barnabörnin, til dæmis til að stíga uppá þegar þau tannbursti sig, séu góðir fyrir allra. Þeir séu stamir og léttir, en að vísu bara eitt þrep. „Ég er mjög hrifin af þeim“ segir hún.

Dæmi um tröppu til heimabrúks

Dæmi um tröppu til heimabrúks

Þessi trappa er einnig hentug

Þessi trappa er einnig hentug

Hér sjást tröppur sem eru góðar til að nota heima, önnur er frá Byko en hin frá Húsasmiðjunni.  Þær kosta tæpar 4000 krónur.

Dagbjört heldur fyrirlestur hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík á morgun klukkan 16.

 

Ritstjórn febrúar 4, 2015 15:02