Hlaupavargur eftir Kerstin Ekman er heillandi bók. Hún er svo einstaklega vel unnin og uppbyggð að það eitt er unun að njóta. Hér er fjallað um manninn, umgengni hans við náttúruna og dýrin. Ulf Norrstig er skógarvörður og veiðimaður. Hann hefur frá unga aldri veitt en þegar sjötugsafmælið nálgast horfist hann í augu við villtan úlf á veiðislóð sinni og eitthvað gerist. Hann gefur dýrinu nafn, Háleggur, og í sál hins sjötuga manns byrja einhverjar hræringar.
Konan hans, Inga, er bókaunnandi og hún benti honum á Dagbók veiðimanns eftir Túrgenjev segir að hann muni áreiðanlega hafa gaman af henni og talar um að hann ætti að skrifa sambærilega dagbók um eigin feril sem veiðimaður. Ulf hafði nefnilega haldið dagbók frá unga aldri um veiðiferðir sínar en þegar hann fer að skoða gamlar dagbókafærslur kemst að því að textinn er naumur, vart meira en ein eða tvær setningar í sumum tilfellum en minningarnar eru þarna. Hann fer að rifja þær upp og sumar eru óþægilegar en aðrar sterkar. Svipmyndir af manninum frammi fyrir villtri náttúru og hvernig stundum skapast skilningur og tengsl milli manns og dýrs. Ulf fer sem sé að skrifa sína veiðimannsdagbók í huganum.
Alls konar tilfinningar taka að brjótast um innra með veiðimanninum og skógarverðinum. Manni sem hingað til hefur talið eðlilegt að nýta náttúruna og ekki fundið fyrir viðkvæmni þótt hann hafi gengið fram á illa særð dýr og meðhöndlað bráð sína. Inn í þetta fléttast svo lögreglurannsókn á íkveikju og þá vindur sögunni fram eins og bestu gerð af sakamálasögu. Kerstin byggir frásögnina upp á snilldarlegan hátt, það hvernig hún fléttar saman hugmyndunum og allt hið ósagða sem vekur upp alls konar vangaveltur og spurningar með lesandanum er hreinlega ótrúlega vel unnið og eftirminnilegt. Allar persónur bókarinnar eru heilstæðar og raunverulegar í huga lesandans. Já, það er óhætt að mæla með lestri þessarar bókar og hún er ein af þeim sem eiginlega verður að tala um. Takið hana upp í bókaklúbbnum eða fáið aðra til að lesa hana svo þið getið rætt efnið.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.