Fiskur af himni  eftir Hallgrím Helgason

Ragnhildur Erla Bjarnadóttir skrifar um bækur:

Á bókarkápu stendur Fiskur af himni 03.11.2014 – 03.11.2015 enda samanstendur bókin af ljóðum sem höfundur yrkir á þessu tímabili.  Í upphafi er sagt frá hversdagslegum hlutum í lífi höfundar sem er nokkuð í líkingu við ljóðræna dagbók þar sem segir frá lífi venjulegrar íslenskrar fjölskyldu sem ferðast, horfir á fótbolta, nýtur jóla og áramóta og tekur á móti  lífinu eins og það kemur fyrir.  Skil verða þegar tilkynnt er um fyrsta barnabarnið

01.04.15

Að vera afi

Að verða framtíðinni fortíð

Verða hérinu þar

erinu var

 

Árstíðunum er fallega lýst, sérstaklega íslenska vorinu.

 

16.04.15

Íslenska vorið

engu líkt

Blóm sem blómgast

í frosti

Hrímaðar flugur

héluð lauf

og ískaldar sólskinsnætur

Hjörtu sem frjósa saman

 

Ragnhildur Erla Bjarnadóttir.

Sorgin knýr dyra þegar litla barnabarnið fæðist andvana.  Hallgrímur nær þvílíkum heljartökum á lesandanum í næstu ljóðum að ekki er hægt annað en að  lifa sig inn á vanmátt fjölskyldunnar og taka þátt í hinni miklu sorg.

 

26.09.15

…………

Að fæða dauðann

er ekki verkefni lífsins

 

Við mótmælum öll

eins og hópur bölvandi bænda

með heykvíslar og heimagerð skilti

sem mótmælir fjalli

Úti á ganginum hríðskelfur faðirinn

í fangi okkar

 

Sorgin er köld

sorgin er ísköld

sorgin er svartur jökull

sem skríður yfir á rauðu

 

Kannski má finna örlítinn sáttatón þegar hlátur heyrist eftir útför litla barnsins.

 

Lífið er stærra en dauðinn

og dregur sig aðeins í hlé

rétt á meðan hann athafnar sig

en flæðir síðan

þeim mun kröftugar fram

í allri sinni miskunnarlausu

ofanjarðargleði (bls. 101)

 

Í þessu skáldverki er Hallgrímur á persónulegum nótum og með einlægni sinni nær hann vel til lesandann sem á auðvelt með að skilja og setja sig í spor hins syrgjandi afa.  Mjög áhrifamikil bók.

 

Ritstjórn nóvember 21, 2017 10:54