Söngkonan sem flutti í sveitina

Guðrún Helga Sigurðardóttir skrifar

Kristín Á. Ólafsdóttir hefur búið í Reykholti í Borgarfirði í tæp tíu ár. Yfir veturinn vinnur Kristín fimm daga vikunnar í Reykjavík en hún hefur kennt við menntavísindasvið Háskóla Íslands, áður Kennaraháskóla Íslands, síðustu 15 árin. Þar er Kristín aðjúnkt og kennir tilvonandi þroskaþjálfum, tómstunda- og félagsmálafræðingum og grunnskóla- og leikskólakennurum ýmislegt sem tengist tjáningu í töluðu máli og á sviði leiklistar.

„Fyrir kennara skiptir máli að beita röddinni rétt og tala skýrt og vel,“ útskýrir Kristín

Hún er fædd og uppalin í Reykjavík 1949 og því 65 ára en samt fyrst og fremst alin upp við það að vera Vestfirðingur því foreldar hennar voru sveitakrakkar úr Önundarfirði sem fluttu á mölina og hófu sinn búskap í Reykjavík.

Vestfirðir settu mark sitt

„Í mínum uppvexti var títt að gestir kæmu að vestan og brottfluttir Vestfirðingar komu mikið heim. Afi og amma, sem höfðu verið bændur í Önundarfirði, bjuggu heima hjá okkur síðustu árin sín þannig að við systkinin fengum að alast upp á heimilinu með þeim sem var ómetanlegt. Vestfirðirnir voruí brennidepli í mínum uppvexti og Önundarfjörðurinn alveg sérstaklega og fólkið þaðan. Það fólk skipti meira máli í mínum litla barnsheimi en Reykvíkingarnir,“ segir Kristín.

Hún flutti um tíma til Akureyrar og bjó þar í fimm ár á áttunda áratugnum og svo í Kaupmannahöfn í tvö ár þar sem hún bætti við menntun sína. Að öðru leyti hefur Kristín búiðbúið í Reykjavík eða þar til þau hjónin keyptu hús í Reykholti fyrir 10 árum. „Á sumrin nýt ég mín sem húsmóðir í sveit. Við erum með einn hund og svo ræktum við heilmikið í kringum okkur, maðurinn minn sér sér um tré og kartöflur og ýmislegt sem má borða, ég sé meira um blómin. Mér finnst yndislegt að geta verið meira í náttúrunni. Takturinn í okkur er orðinn sá sami og takturinn í sveitinni,“ segir hún.

Þora að tjá sig

Kristín er leikari að mennt og lék til dæmis með Leikfélagi Reykjavíkur og Leikfélagi Akureyrar, var með í því að stofna Alþýðuleikhúsið 1975 og lék með því fyrstu árin. Síðan fór hún að fikra sig áfram við að leikstýra, kunni því vel og bætti við sig leikhúsfræði í Kaupmannahöfn um 1980. Þar kynntist hún leikrænni tjáningu sem er hugsuð fyrir krakka og unglinga til að ýta undir þroska þeirra, persónulega og félagslega. Í gegnum leikræna tjáningu ná þau betur sjálfsöryggi, þora að tjá sig og nota ímyndunaraflið. Eftir heimkomuna hefur Kristín alltaf kennt með leikræna tjáningu sem aðal viðfangsefni. Sjálf hefur hún ekkert leikið frá því á níunda áratugnum.

Margir muna eftir Kristínu úr pólitíkinni. „Maður er ekki alltaf leikstjóri að eigin lífi,“ segir hún og bendir á að tilviljanirnar valdi því stundum að allt í einu sé maður kominn út allt aðra braut en maður ætlaði. Hún fór að hafa afskipti af stjórnmálum á áttunda áratugnum, var í bæjarpólitíkinni á Akureyri og svo í átta ár í borgarstjórn. Frá 1999 hefur hún eingöngu unnið við kennslu.

Víðsýnni með árunum

Kristínu finnst gott að eldast, fyrst og fremst af því að henni finnst kjarninn í sjálfum manni heilli. „Maður verður öruggari með sjálfan sig og sín viðhorf, með aldri og reynslu dregur úr óöruggi, feimni og óvissu um það hvort maður sé að hugsa hlutina rétt og hvort maður sé að gera réttu hlutina. Allt þetta minnkar og þar með verður hann þéttari þessi kjarni, sem mér finnst vera ég. Maður er öruggari um hvað manni finnst raunverulega. Þó það sé mjög fjarri að maður sé viss um alla hluti finnst mér gott að eldast. Líklega er það þetta sem við köllum þroska, hann lætur mér líða betur en áður,“ segir Kristín.

„Kannski verður maður líka á vissan hátt víðsýnni þó það geti hljómað sem mótsögn. Kannski verður maður bara sáttari við það að á flestum málum eru margar hliðar, það er bara eðlilegt og maður veit að sannleikurinn er ekki einn. Hann er ekki eins hjá okkur öllum. Það er gott að átta sig á því. Um tvítugt fannst mér heimurinn svarthvítur, í dag sé ég margfalt fleiri liti í mannlífinu en ég gerði þá. Um tvítugt hélt ég að það væri tiltölulega lítið mál að bæta heiminn og gera hann skynsamlegri en ég er búin að átta mig á að það er mikið mál. Hlutirnir eru margslungnari en ég hélt þegar ég var yngri,“ segir hún.

Ríkari með árunum

Kristín vildi gjarnan hafa sama afl og úthald í skrokknum og hún hafði fyrir 20-30 árum. Líkamsorkan rénar með árunum en hún segist leggja meira upp úr því sem fylgir huganum, að halda því andlega. „En jú, jú, auðvitað vildi ég hafa meira líkamlegt úthald en ég hef. Ég finn að ég þarf að sofa meira og verð fyrr þreytt en áður. Aldurinn setur mark sitt þar. En svo endurnýjast lífið þegar maður fylgist með börnunum verða fullorðin og maður eignast barnabörnin. Það er yndisleg lífsfylling. Maður verður ríkari með árunum.“

Hérna fyrir neðan eru tvær nýlegar myndir af Kristínu í sveitinni og á neðstu myndinni er Kristín ásamt eiginmanni sínum Óskari Guðmundssyni, börnum sínum, tengdabörnum og barnabörnum ásamt kærasta sonardóttur Kristínar.

 

 

 

Ritstjórn apríl 10, 2015 15:20