Betri með aldrinum

Tískuiðnaðurinn hefur löngum verið talinn óvæginn og stjórnast af útlitsdýrkun. Ungt, ofurgrannt fólk eigi eingöngu möguleika á að vinna innan hans. Margt bendir til að þetta sér að breytast. Að eldast hefur fengið allt aðra merkingu en áður. Fólk heldur heilsu og kröftum mun lengur og ellimerkin geta verið mjög heillandi. Þessar fyrirsætur sanna að allt er sextugum og eldri fært.

Vann sig frá gjaldþroti til auðæfa

Lauren Hutton fæddist 17. nóvember 1944 í Charleston í Suður-Karólínufylki. Hún óx upp sveitasælunni á Flórídaskaganum en hóf starfsferillinn sem Playboy-kanína tvítug að aldri. Hún var nægilega skynsöm til að sjá að kanínurnar voru bæði illa launaðar og valdalausar. Stúlkan pakkaði því ofan í ferðatöskur og hélt til New York staðráðin í að verða fyrirsæta og það varð hún. Lauren Hutton hefur oft verið kölluð fyrsta ofurfyrirsætan því vinsældir hennar urðu slíkar á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar að hún gat krafist nánast hvað launa sem var fyrir vinnu sína.

Árið 1974 skrifaði hún undir samning við Revlon-snyrtivörufyrirtækið og skuldbatt sig til að vera andlit þeirra og hlaut að launum milljón bandaríkjadali. Þetta var í fyrsta sinn sem fyrirtæki greiddi svo háa upphæð fyrir að fá að nota andlit fyrirsætu í auglýsingum sínum. Lífið lék við Lauren á þessu tímabili og hún lék í kvikmyndunum The Gambler, Paper Lion og American Gigolo. Lukkan er hins vegar fallvölt og á áttunda áratugnum barðist Lauren í bökkum. Umboðsmaður hennar og sambýlismaður lést úr krabbameini og í ljós kom að hann hafði tapað mestu af því fé sem Lauren hafði unnið sér inn með röngum fjárfestingum. Að auki varð sífellt erfiðara fyrir hana að fá vinnu en hún þótti, að mati auglýsenda, of gömul til að sitja fyrir. Þegar svo illa var komið fyrir henni sýndi hún hvað í henni bjó.

Henni tókst að blása lífi í ferilinn aftur og er enn í dag meðal hæst launuðu fyrirsætna í heiminum. Hún gerði annan samning við Revlon sem ekki var síður tímamótasamningur því það var í fyrsta sinn sem kona komin hátt á fimmtugsaldur varð andlit fyrirtækis í auglýsingum. Að auki kom hún fram sem gestaleikari í nokkrum sjónvarpsþáttum og stjórnaði um tíma eigin spjallþætti á CBS-sjónvarpstöðinni. Fyrir tólf árum stofnaði Lauren eigið snyrtivörufyrirtæki, Lauren Hutton Good Stuff. Vörur hennar þykja henta eldri konum sérlega vel og þessi fyrirsæta sem rambaði á barmi gjaldþrots fyrir þremur áratugum er í dag ein ríkasta kona Bandaríkjanna og býr í Taos í Nýju Mexíkó.

 

Hönnuðurinn sem gerðist fyrirsæta

Linda Rodin hóf ferilinn í tískuheiminum sem hönnuður. Hún fæddist og ólst upp á Long Island og hóf nám í New York-háskóla. Hennar sterkasti eðliseiginleiki var og er að eigin sögn þrá eftir fegurð og tjáning hennar. Átján ára gömul flaug hún til Ítalíu að hitta þáverandi kærasta sinn og endaði með að dvelja í nokkur ár og læra hönnun. Eftir námið þvældist hún um Evrópu, vann sem módel og stílisti með ljósmyndurum, gekk í Maxi-kápum, stígvélum sem náðu upp fyrir hnjákollana og með barðastóra hatta. Hún kynntist Twiggy og fleiri tískuíkonum síns tíma.

Þegar hún sneri aftur til Bandaríkjanna hóf hún að vinna með ljósmyndaranum, Gosta Peterson. Hann var frábær ljósmyndari en algjörlega óþekktur á þessum árum. Linda hafði mikla trú á honum og sem aðstoðarmaður hans tók hún einnig myndir. Systir hennar benti henni á að þær væru ekki sérlega góðar en fötin sem hún kysi að klæða fyrirsæturnar í væru æðisleg. Þá ákvað hún að gerast stílisti og vann við það um árabil. Hún ferðaðist lengi um í því skyni og klæddi stórstjörnur á borð við Madonnu, Cher og Halle Berry. Í Marrokkó kynntist hún ilmolíum og hóf framleiðslu á eigin ilmolíulínu sem hún seldi í Soho í búð sem hét Linda Hopp. Hún rak einnig um tíma listagallerí og bókbúð. Lengst var hún þó ritsjóri Harper’s Bazaar.

Hún var orðin sextug þegar hún hóf nýjan starfsferil, gerðist fyrirsæta og hóf framleiðslu á eigin fegrunarvörum byggða á olíunum sem hún þekkir svo vel. Hún er andlit eigin merkis og sýnir bæði snyrtivörurnar og fatnaðinn. Hún gekk sýningarpallana fyrir aðra hönnuði 65 ára og auk þess vinnur hún enn fyrir margar stórstjörnur og stílíserar útlit þeirra. Í dag er Linda 68 ára gömul og hvergi nærri hætt. Hún viðurkennir að það sé heilmikil vinna að reka fyrirtæki á borð  við hennar en hún segir að fyrst að nef hennar hafi reynst nægilega næmt til að fylgja lyktinni sé sjálfsagt að gera það. Þá á hún að sjálfsögðu við ilmolíurnar en jafnframt hefur hún sýnt og sannað að skyn hennar á markaðinn er ansi þróað því hún leikur sér að markaðssetningu á netinu og samfélagsmiðlum og hefur náð ótrúlegum árangri á stuttum tíma.

Áhugi á tísku ekki háður aldri

Valerie Pain er sjötíu og níu ára og á að baki langan og farsælan fyrirsætuferil sem byrjaði á sjöunda áratug síðustu aldar. Þótt hún vinni ekki lengur fullt starf gekk hún eftir sýningarpöllunum árið 2009 og náði því að vera elsta súpermódelið til að sýna föt á tískuvikunni í London. Hún er ein þeirra sem tók þátt í auglýsingaherferð Debenhams þegar fyrirtækið ákvað að sýna fjölbreytileika kvenna í auglýsingaherferð sinni árið 2013. Valerie nýtur þess að klæða sig fallega og bendir á að konur hætti ekki að hafa gaman af tísku og fegrunarvörum þótt þær eldist. Hún segir að tískuhönnuðir ættu að vera meira meðvitaðir um þetta.

Valerie er fædd og uppalin í London og hóf ung að starfa í tískuiðnaðinum. Hennar ferli lauk líkt og margra annarra þegar hún komst á fertugsaldur. Hún eignaðist barn um það leyti og hvarf af sjónarsviðinum um tíma. Eftir fimmtugt langaði hana að fara að vinna aftur og komst að hjá Close Models-skrifstofunni sem er með alls konar módel á skrá. Þar er að finna eldri konur, yngri, í stærri stærðum og með ýmis séreinkenni.

Módel frá fimmtán ára aldri

Carmen Dell’Orefice á að baki ríflega sjötíu ára fyrirsætuferil. Hún byrjaði að vinna fyrir Vogue fimmtán ára gömul árið 1946. Vinnan var henni ekki áhugamál eða ánægja fyrst og fremst því hún sá fyrir fjölskyldu sinni strax þá. Fátæktin var mikil á æskuheimili hennar en foreldrar hennar voru ítalskur og ungverskur innflytjandi. Samband þeirra var mjög stormasamt og þau voru í sundur og saman allan hennar uppvöxt. Stundum voru árekstrar þeirra svo heiftarlegir að Carmen var komið fyrir hjá ættingjum eða á fósturheimilum meðan ósköpin gengu yfir.

Hún var uppgötvuð af eiginkonu ljósmyndarans Hermann Landschoff þegar hún var þrettán ára í strætó á leið í balletttíma. Konan gekk til hennar og bað hana að sitja fyrir hjá manni sínum. Carmen gerði það en fyrstu myndirnar voru teknar á Jones Beach í New York og voru algjört flopp ef marka má hennar eigið mat. Tveimur árum síðar kom guðfaðir hennar henni að hjá Vogue þar sem hún fékk samning. Erwin Blumenfeld var aðalljósmyndari tímaritsins á þeim árum og hún varð fljótlega hans uppáhaldsmódel. Launin voru þó lág og alls ekki nóg til að sjá fyrir fjölskyldu. Carmen fór til að mynda á hjólaskautum milli staða í borginni til að geta mætt í vinnu því hún hafði ekki efni á að taka strætó.

Þær mæðgur bjuggu einar saman í lítilli íbúð þegar þarna var komið sögu og höfðu ekki síma. Hann var ekki sjálfsögðar á þeim árum heldur lúxus. Vogue sendi þess vegna sendiboða heim til þeirra hvenær sem Carmenar var þörf og hún hentist af stað á skautunum. Stúlkan var sömuleiðis vannærð og því óskaplega grönn. Þess voru dæmi að ljósmyndararnir yrðu að taka fötin saman með títuprjónum að aftan til þau héldust utan á henni meðan á myndatöku stóð. Carmen skreytti fyrst forsíðu Vogue sextán ára og vann með flestum þekktustu ljósmyndurum þessa tíma þeirra á meðal Richard Avedon, Cecil Beaton, Irvin Penn og Norman Parkinson. Salvador Dali var heillaður af henni og hún var ein af músum hans.

Þegar kom fram á sjötta áratuginn misstu bæði Eileen Ford og Vogue áhugann á Carmen. Hún þótti alltaf grönn. Hún leitaði sér lækninga og í ljós kom að vannæring æskuáranna hafði seinkað kynþroska hennar og hún þurfti að fá hormónsprautur til koma þroskanum af stað aftur. Þrýstnari línur urðu til að lyfta ferlinum úr lægðinni og hún skráði sig hjá Ford-skrifstofunni og naut þar mikillar velgengni um árabil meðal annars sem undirfatamódel. Hún giftist í annað sinn árið 1958 og vann ekki úti meðan á því hjónabandi stóð. Hún skildi við þann mann giftist aftur og skildi árið 1978 en Carmen virðist hafa erft skapsmuni foreldra sinna því öll hennar ástarsambönd hafa verið ákaflega átakamikil. Þegar þriðji eiginmaðurinn hélt sinn veg var hún illa stödd fjárhagslega og ákvað að reyna fyrir sér í fyrirsætubransanum enn og aftur. Henni tókst að vekja athygli hönnuða, jafnt sem ljósmyndara og síðan þá hefur hún unnið látlaust. Hún var ein þeirra er töpuðu miklum peningu eftir að hafa treyst svindlaranum Bernie Maddoff árið 2008. Henni tókst að bjarga sér með því að selja hjá Sotheby’s nokkrar af frægustu myndum sínum frá því í byrjun ferilsins og svo virðist umheimurinn til allrar lukku ekki hafa fengið nóg af þessari konu.

Vann módelkeppni tvítug

Daphne Selfe vann við afgreiðslu í verslun þegar hún ákvað að taka þátt í fyrirsætukeppni hjá litlu tímariti sem var gefið út í heimabæ hennar. Hún var tvítug og vann. Hún starfaði með frægum ljósmyndurum á borð við Mario Testino og David Bailey og vann fyrir Dolce & Gabbana, Ralph Lauren, Red or Dead og  TK Maxx. Hún hefur alltaf verið grönn og segir það vera vegna þess að hún óx upp á stríðsárunum þegar ekki of mikið var til af mat en þrátt fyrir það bendir hún á að hún hafi alltaf verið talin meðal í vinnunni. „Galdurinn er,“ segir hún, „að borða það sem þig langar í en í hófi. Elda sjálfur sinn mat. Ég borða ekki skyndifæði, hann inniheldur of mikið af sykri og salti. Ég stunda líkamsrækt þrisvar í viku og drekk mikið vatn. Að auki hefur jákvætt viðhorf allt að segja.“

Að hennar mati á hún velgengni sína fyrst og fremst því að þakka að hún ber sig vel og er hávaxin miðað við konur af sinni kynslóð en hún er 171 cm. Hún var send til London í nokkurra vikna þjálfun og lærði að ganga með bók á höfðinu, að fara út úr bíl án þess að sjæist upp undir pilsið og hegða sér á fágaðan hátt. Hún naut mikilla vinsælda á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar en hætti þegar hún giftist og eignaðist sitt fyrsta barn árið 1954. Síðar bættust við tvö til viðbótar.

Hún hélt þó áfram að vinna og náði nokkrum árangri. Hún fékk smáhlutverkum í kvikmyndum á borð við Sliding Doors, A Room with a View og James Bond-myndunum. Þegar hún missti mann sinn árið 1997 ákvað hún að slá til þegar fulltrúar Red or Dead höfðu samband við hana og báðu hana að ganga sýningarpallana fyrir sig á vorsýningu sinni. Þeir voru að leita að eldri módelum, manni og konu og Dapne ætlaði eingöngu að taka þátt í þessu til að skemmta sér en þetta reyndist hins vegar vera byrjunin á nýjum ferli. Stílisti sýningarinnar benti henni á að Vogue væri að vinna grein um öldrun og væru að leita að fyrirsætum.  Hún fékk vinnuna og eftir hafði módelskrifstofa samband og vildi setja hana á lista hjá sér. Í dag á hún fjögur barnabörn og nýtur þess að klæðast fallegum hátískufötum. Að auki rekur hún skóla fyrir verðandi fyrirsætur með dóttur sinni.

Ritstjórn nóvember 22, 2023 07:00