Brúðhjón á tíræðisaldri

Fólk er aldrei of gamalt til að verða ástfangið og gifta sig, það sannast á þeim Gertrude Mokotoff 98 ára og Alvin Mann 94 ára en þau gengu í hjónaband nú í byrjun mánaðarins umkringd nánustu fjölskyldu og vinum á borgarskrifstofunum í Middletown N.Y. Fjallað er um hjónin á vef New York Times. Lifðu núna þýddi og endursagði hluta greinarinnar.

Alvin og Gertrude höfðu bæði misst maka sína fyrir nokkrum árum og búið ein síðan. Þau hafa alltaf hreyft sig mikið og á efri árum fóru þau á sömu líkamsræktarstöðina. Fyrir átta árum kynnti sameiginlegur vinur þeirra þau hvort fyrir öðru í ræktinni. Hann sagði við Alvin að hann langaði að kynna hann fyrir heillandi ungri konu og það var upphafið að farsælu sambandi. Sambandi þar sem bæði áttu sína drauma, vonir og markmið.

Sjálf segja hjónin að þetta hafi verið nánast ást við fyrstu sýn. Fljótlega eftir að þau höfðu verið kynnt hvort fyrir öðru fóru þau á sitt fyrsta stefnumót. „Hann var fullkominn herramaður,“ segir Gertrude og Alvin bætir við „það var eitthvað við hana sem lét mig langa til að halda áfram að spjalla.“ Tíminn leið og þau héldu áfram að hittast. Nú hlæja þau dátt þegar þau rifja það upp þegar þau sváfu í fyrsta sinn saman undir sama þaki. „Við höfðum eytt heilum degi saman og um kvöldið bjó ég um Gertrude í gestaherberginu og ætlaði svo sjálfur að sofa í mínu svefnherbergi. Ég leiddi hana til sængur og bauð góða nótt. Þegar ég ætlaði að fara inn til mín þá spurði hún mig hvert ég væri eiginlega að fara.“

Það var svo kvöld eitt í júní þegar þau voru að koma úr óperunni að Gertrude ákvað að biðja Alvin um að giftast sér. „Ég var þreytt á að vera að eltast við hann,“ segir hún. Brúðkaupsdagurinn var ákveðinn 5. ágúst. Hjónin eiga samtals 7 börn, 12 barnabörn og 7 barnabarnabörn. Um 50 manns voru viðstödd brúðkaupið.

Aldur hefur aldrei stoppað þau Gertrude og Alvin í því að gera það sem það sem þau langar. Alvin segir að hann trúi því að sé munur á því að verða gamall og finnast maður vera gamall. Honum finnist hann enn í fullu fjöri. Á síðasta ári útskrifaðist hann með BA próf í sögu frá Mount St. Mary College í Newburgh en áður hafði hann lagt stund á viðskipti. Gertrude á sömuleiðis farsælan feril að baki sem líffræðingur og háskólakennari og sem fyrsti kvenborgarstjórinn í Middletown.

Afstaða hjónanna til aldurs er aðdáunarverð.“Aldur skiptir okkur engu máli. Við sjáum hann ekki sem hindrun. Við gerum bara það sem okkur langar til,“ segja hjónin. Alvin segir að hann sé oft spurður hvað haldi þeim svo ungum í anda.“Þar eiga læknavísindin hlut að máli en sá þáttur sem sem skiptir miklu meira máli er að við lifum lífinu áhyggjulaus. Við látum ekki það sem við höfum enga stjórn á angra okkur.“

Ágúst verður annasamur mánuður hjá þeim hjónum því á sunnudag verður Gertrude 99 ára og þá verður veisla. Þau fara enn tvisvar í viku í ræktina þar sem þau hittust fyrst. Þeir sem vilja lesa nánar um Gertrude og Alvin geta lesið meira um þau hér.

 

 

Ritstjórn ágúst 17, 2017 13:48