Meðal nýjunga í starfsemi Endurmenntunar háskóla Íslands, eru námskeið um spendýr í náttúru Íslands. Eftirfarandi námskeið verða í mars.
Refir í náttúru Íslands – 2.mars 2020
Kennsla: Ester Rut Unnsteinsdóttir líffræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
Í umfjöllun um áhrif loftslagsbreytinga hafa dýr á norðurslóðum oft borið á góma. Fáir vita að ein þeirra tegunda sem sérstaklega er fylgst með í þessum málaflokki er heimskautarefurinn, sama tegund og refurinn okkar íslenski. Refurinn er eina upprunalega landspendýr landsins og var til staðar á landinu löngu áður en landnám manna hófst. Íslendingar hafa stundað refaveiðar alla tíð, ýmist vegna hins verðmæta feldar eða til að hefna fyrir meintar búsifjar af hans völdum. Almenn þekking á stöðu íslenska refastofnsins er hinsvegar af skornum skammti, þrátt fyrir meira en þúsund ára sambúð manna og refa.
Selir í náttúru Íslands – 9 mars 2020
Kennsla: Erlingur Hauksson sjávarlíffræðingur.
Selir og rostungar (hreifadýr) hafa verið áberandi í náttúru Íslands frá landnámi og eru mikilvægur þáttur í vistkerfi sjávar og náttúru landsins. Selir og rostungar eru auðlind, en nýting þeirra hefur breyst mikið í gegnum tíðina. Selir neyta sjávarfangs. Þeir eru lokahýslar hringorma sem finnast í fiski og rýra gæði hans. Síðan talningar á selum hófust hér við land, fyrir um hálfri öld, hefur fjöldi sela verið á undanhaldi. Farið verður yfir mögulegar ástæður þess svo sem ofveiði, fæðurskort, hlýnun sjávar o.fl.
Hvalir í náttúru Íslands – 16.mars 2020
Kennsla: Edda Elísabet Magnúsdóttir sjávar- og atferlisfræðingur
Hvalir eru gífurlega mikilvægur og stór þáttur í vistkerfum hafsins á norðurslóðum, sér í lagi við stendur Íslands. Fjallað verður um tegundafjölbreytileika hvala á heimsvísu og umhverfis Ísland, aðlögun þessa fjölbreytta hóps að lífinu í hafinu og hlutverk þeirra í vistkerfi sjávar.
Fjallað verður um uppruna hvala (Cetacea); allt frá tímum forfeðra þeirra sem gengu á fjórum fótum á landi og aðlöguðust smátt og smátt hinum gjöfulu sjávarbúsvæðum til þeirra hvala sem synda um heimsins höf í dag. Sérstaklega verður fjallað um hljóðsamskipti hvala sem er ein af lykilhæfni hvala til að lifa af í undirdjúpunum.
Hreindýr í náttúru Íslands – 23.mars.
Kennsla: Skarphéðinn G. Þórisson líffræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands.
Námskeiðið fjallar um hreindýrið, tegundina sem hefur lifað á norðurslóð í sambýli við Íslendinga í tvær aldir og sérstöðu þess og er ríkulega skreytt myndum.
Almennt verður fjallað um tegundina, innflutning og sögu hreindýra ásamt vistfræði og veiðistjórnun. Kynnt verða tæki og aðferðir sem nýtast við vöktun hreindýratofnsins svo og horn og kjálkar sem nýtast við aldurs- og kyngreiningu hreindýra.
Á námskeiðinu er fjallað um:
- Tegundina hreindýr (Rangifer tarandus)
• Innflutning og sögu hreindýra 1771-1939
• Söguna frá 1940-2019 og veiðistjórnun
• Vistfræði hreindýrastofnsins
• Vöktun og rannsóknir