Fyrsta stefnumótið eftir fimmtugt

Að fara á stefnumót er eitthvað sem marga langar til að gera en á sama tíma hrís fólki oft hugur við því að láta til skarar skríða. Hins síðari ár hefur þeim fjölgað til mikilla muna sem „hitta“ einhvern á netinu, spjalla við hann í einhvern tíma og ákveða svo að hitta hann. Á vefnum aarp.org er að finna grein þar sem fólki er sagt við hverju það geti búist á fyrsta stefnumótinu eftir að hafa kynnst viðkomandi á netinu. Lifðu núna gluggaði í greinina og staðfærði. Það skal þó tekið fram að fólk ætti að hafa varann á og ekki samþykkja að hitta einhvern úr netheimum nema á öruggum stað, það er auðvelt að villa á sér heimildir  á netinu.

Reyna að  koma vel fyrir

Taugaóstyrkur. Fyrsta stefnumót er fundur fólks sem er að reyna að koma vel fyrir um leið og það er taugaóstyrkt. Þrátt fyrir að fólk sé taugaóstyrkt verður það að reyna að vera opið og heiðarlegt. Spyrja um þau atriði sem það vill fá svör við og muna að hlusta á svörin. Annars getur reynst erfitt að að mynda sér rökrétta skoðun á viðkomandi.

Að líða undarlega

Þrettán ára á ný. Ef það er langt síðan fólk hefur farið á stefnumót getur því liðið harla undarlega. Ör hjartsláttur, sljóleiki, feimni og ýmiss konar vandræðagangur geta komið fram á fyrsta stefnumótinu. Ekki ósvipað og fólk upplifði þegar það var milli tektar og tvítugs og var að reyna að safna kjarki til að tala við þann sem það var skotið í. Örvæntið ekki, óþægindin líða hjá.

Treystu innsæinu

Vera tilbúinn að sýna traust. Það er ekkert vit í þeirri staðhæfingu að það þurfi fjölda stefnumóta með sömu manneskjunni til að komast að því hvort viðkomandi sé tæk í samband.  Fólk á að treysta innsæi sínu. Þú veist vel hvort viðkomandi kveikir í þér eða ekki.

Sýnið þolinmæði 

Þolinmæði. Fólk yfir fimmtugu er einfaldlega svolítið hægara í þessum málum en þeir sem yngri eru og tekur síður skyndiákvarðanir. Á sextugsaldri er fólki yfirleitt  ljóst hvað virkar fyrir það og hvað ekki. Það trúir því að hægt sé að komast í gefandi samband svo framarlega sem fólk er tilbúið til að bíða eftir réttum aðila.

Spyrjið réttu spurninganna

Sannleikurinn er sagna bestur. Jafnvel þó fólk telji að það sé búið að finna hinn eina sanna eða hina einu sönnu verður það að spyrja um fjárhag, fyrri ástarsambönd og hvað viðkomandi vilji fá út úr sambandi.

Ekki láta tala niður til þín

Að krefjast virðingar. Láttu ekki tala niður til þín á stefnumótinu. Láttu ekki einhvern segja þér að vinnan þín sé ömurleg og þú sért að kasta lífinu á glæ vegna þess að þú sért ekki að gera eitthvað allt annað. Ef þér er sýndur slíkur dónaskapur þakkaðu þá kurteislega fyrir spjallið og hafðu þig á brott.

Nýr sálufélagi

Líkur sækir líkan heim. Steingleymdu öllum hugmyndum um ólíka póla. Þú vilt kynnast einhverjum sem líkist þér. Ástæðan fyrir hugmyndinni um ólíka póla er sú, að flest fólk lítur svo á að þeir sem líkjast þeim hafi jafnframt sömu galla. Í raun er því öfugt farið. Sá eða sú sem hefur líkan smekk, skaplyndi og persónuleika og þú er mun líklegri til að verða sálufélagi en sá sem er alger andstaða þín.

Láttu hjartað ráð för

Þú verður að taka af skarið. Ekki hika við að hafa samband við þann sem þig langar að bjóða með þér út. Láttu hjartað ráða för.

 

 

 

Ritstjórn desember 30, 2014 11:43