Stórskemmtileg fagævisaga

Það þarf alltaf einhver að vera fyrstur til að þræða ótroðnar slóðir og þá er eins gott að sá sem er í fararbroddi sé ódeigur, útsjónarsamur og duglegur. Guðný Halldórsdóttir hefur allt þetta til að bera og meira til. Hún og Kristín Jóhannesdóttir voru fyrstar kvenna til að gera kvikmyndagerð að ævistarfi hér á landi. Og mikið var að gott að einmitt þær tvær skyldu velja þetta fag. Nú er komin út frábær bók um Guðnýju, Duna, og höfundar hennar, Kristín Svava Tómasdóttir og Guðrún Elsa Bragadóttir hafa sagt að þetta sé fagævisaga.

Og vissulega er hún það en einnig miklu, miklu meira. Þær stöllur rekja sig í viðtölum við Dunu í gegnum starfsferilinn en bregða um leið um heillandi mynd af skemmtilegri, jarðbundinni konu sem hefur einnig til að bera næmni og skilning manneskjunni og hennar aðstæðum. Það er auðheyrt á öllu að Duna er mannvinur. Hún vill koma til skila ákveðnum boðskap um betra mannlíf og vandaðri samskipti með sínum verkum. Henni tekst það líka á sinn einstæða hátt og kímnin sem ýmist kraumar undir eða bullar á yfirborðinu verður til þess að menn meðtaka skilaboðin glaðir.

Hún tekur það líka fram að hún hafi aldrei verið ein í neinu heldur ávallt verið studd góðu samverkafólki og svo hefur eiginmaðurinn Halldór Þorgeirsson verið í sama bransa og þau mikið unnið saman. Duna er afkastamesta kvikmyndagerðarkona þjóðarinnar til þessa og myndirnar hennar löngu klassískar. Í Stellu-myndunum nær hún að fanga á sinn einstaka hátt þjóðarsálina og við getum allar mátað okkur við Stellu. Karlakórinn Hekla er svo dásamleg gamanmynd og svo eru það Ungfrúin góða og Húsið og Veðramót, dramatískar og geysilega fallegar kvikmyndir.

Jarðbundin og hreinskiptin

Duna er ein af þessum manneskjum sem ævinlega kemur til dyranna eins og hún er klædd og hikar ekki við að segja hlutina bara rétt eins og þeir eru. Hún reynir heldur ekki að skafa neitt utan af erfiðleikunum fyrstu árin í kvikmyndagerð hér á landi. Það var erfitt að fjármagna verkefni, strákarnir sátu að styrkjunum og konur áttu lítt upp á pallborðið hjá stjórn kvikmyndasjóðs. Duna gerir einu sinni áhugaverða tilraun, hún heftar saman miðjuna á handriti sem hún leggur inn og það kemur ósnert til baka. Menn höfðu ekki einu sinni fyrir að lesa það.

Duna fékk snemma áhuga á kvikmyndagerð en hún var ekki nema sautján ára þegar hún fékk vinnu við gerð kvikmyndarinnar Brekkukotsannáll sem þýski leikstjórinn Rolf Hädrich var að taka upp hér á landi. Hún heillaðist af ferlinu og fannst magnað að hægt væri að segja langar og flóknar sögur á þessu formi. Duna lærði kvikmyndagerð við London International Film School. Hún hafði áður ætlað í sænskan skóla en það gekk ekki upp. Hún útskrifaðist árið 1981.

Orðið fagævisaga hljómar fremur þurrt og óáhugavert en þessi bók er það sannarlega ekki. Það er fyrst og fremst að þakka fjörlegum og stórskemmtilegum frásagnarmáta Dunu. Hún hefur litríkt og fallegt tungutak og þessi óborganlega kímni sem drífur áfram allar hennar sögur. Þær Kristín Svava og Guðrún Elsa ná að draga upp heildstæða og lifandi mynd af heillandi persónu um leið og þær segja merka sögu kvikmyndagerðar hér á landi frá sjónarhóli kvenna. Þetta er ein af þeim bókum sem maður lokar með bros á vör og glaður yfir að hafa haft vit á að opna hana og lesa.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn desember 7, 2024 07:00