Stundir þreytu og armæðu í eldhúsinu liðnar

Matreiðslukonan og rithöfundurinn Helga Sigurðardóttir var fædd árið 1904. Hún tók húsmæðrakennarapróf í Danmörku og varð síðar mikilvirkur höfundur matreiðslubóka, í þá tíð sem íslenskar matreiðslubækur voru afar sjaldséðar. Bók hennar Matur og drykkur kom fyrst út 1947, síðan 1949, aftur 1956 og síðan árið 1966, nokkrum árum eftir lát Helgu. Nýlega var hún svo endurútgefin. Bókin er rúmlega 600 blaðsíður, gríðarlega fjölbreytt og vönduð.  Í formála bókarinnar frá 1966 segir:

Bækur fröken Helgu mörkuðu tímamót á sínu sviði. Aldir hins hefðbundna og einhæfa mataræðis voru að baki, fjölbreytnini óx hröðum skrefum með auknum skiptum við umheiminn og örri atvinnuþróun innan lands.  Matreiðslukunnátta alls þorra húsmæðra var áður fyrr í því einu fólgin að geyma og hagnýta þær fábreyttu færðutegundir, sem aflað var á hverju heimili. Aðkeyptar vörur voru fáar og af skornum skammti. Þegar svo fjöldi innfluttra vara stóð til boða og innlend iðnfyrirtæki tóku að annast vinnslu fæðutegundanna, varð hlutverk matreiðslukonu og húsmóður í eldhúsinu annað en það var áður. Einnig breyttust kröfurnar um leið og almenningur gat veitt sér íburð, meiri en tíðkazt hafði.

Fyrsta matreiðslubók Helgu, eða frökenar Helgu, eins og hún er titluð í formálanum, kom út árið 1930. Hún hét Bökum í heimahúsum og næstu áratugina rak hver bókin aðra. Bókin Matur og drykkur var byggð á uppskriftunum í þessum fyrri bókum Helgu, en hún kappkostaði að hafa þær litlar og handhægar til notkunar í eldhúsinu. Og enn grípum við niður í formálann.

Hlóðaeldhús

Stundirnar í eldhúsinu voru fyrr á tímum oft stundir þreytu og armæðu í reykjarstybbu og myrkri; matreiðsla var þá vanmetið starf og óvirðulegt. Nýju eldhúsin eru íburðarmikil, stundum úr hófi fram, en þó eimir lengi eftir af þeirri skoðu að matreiðsla sé öðrum störfum óæðri. Þótt játað sé, að mataræðið ráði miklu um heilsu  og líðan manna er sá hugsunarháttur enn við lýði að nóg sé, ef það sem á borð er borið, sé ætt. Fröken Helda áleit hins vegar, að einungis það bezta væri nógu gott. Því beindi hún máli sínu til húsmæðrannna með hvatningu og áskorun um að ætla matreiðslunni þann sess, sem henni ber. Hún vildi gera alþjóð skiljanlegt, að þennan þátt menningarinnar ber rauðsyn til að rækja af alvöru og samvizkusemi, en til þess að svo megi verða, þurfa húsmæður að njóta menntunar og leiðsagnar

Svo mörg voru þau orð. Helga Sigurðardóttir sótti sér menntun erlendis og miðlaði af henni til íslenskra kvenna á fyrri hluta síðustu aldar. Mikið vatn hefur runnið til sjávar í matargerð landsmanna síðan þá, en bækur Helgu standa enn fyrir sínu, þó gamaldags séu.

Ritstjórn september 13, 2019 14:28