Sýnd veiði en ekki gefin

Sara Oskarsson opnar málverkasýningu sína í Hannesarholti fimmtudaginn 18. janúar kl.15-17.

Á sýningunni sem nefnist ÍSTAKA, eru verk eftir Söru, unnin á striga og panel með olíu og vaxi. Verkin eru úr nýrri borgar-seríu innblásin af dýnamíkinni hjá Tjörninni í Reykjavík.

Titill sýningarinnar vísar til ístöku á tjörninni sem fór fram í Reykjavík á fyrri hluta síðustu aldar. Ísinn var notaður í íshúsin í Reykjavík og til að ísa fisk fyrir siglingar með glænýjan fisk.

Ístaka var erfiðisvinna í kulda og trekki. Ísinn var högginn þar sem að hann var tærastur og bestur og síðan sprengdur frá ísbrúninni með járnkörlum. Íshellunum var svo raðað á sleða sem hestar drógu að geymslum íshúsa.

Var þetta allt saman hið kalsamasta verk og erfitt enda vont að ná haldi á blautum ísnum. Jakarnir voru vegnir upp á skörina með ísstöngum og áfram á sleðana. Hestar siluðust í átt að litlu steinbryggjunni, eftir henni upp tjarnarbakkann og síðan á ákvörðunarstað. Þetta var oft hið tafsamasta ferðalag því ísstykkin vildu velta af sleðunum.

Íshúsið Herðubreið sem stendur við tjörnina hýsir nú Listasafn Íslands.

Sara sem er fædd Reykjavík og á ævilangar minningar þaðan gerir tjörnina og umhverfi að viðfangsefni sínu og líkir starfi og viðleitni málarans við ákveðna „ístöku“.

Að fanga augnablik, stemmningu, hugmyndir, birtu og sál – að skapa eitthvað úr nærumhverfi sínu við hin ýmsu skilyrði. Að fanga það sem er hvikult. Sýnd veiði en ekki gefin.

Ritstjórn janúar 16, 2024 14:40