Blómin í listinni

List Eggerts Péturssonar er heillandi og einstök. Bæði lærðir og leikir geta sökkt sér ofan í verk hans og fundið þar fegurð og uppsprettu alls konar vangaveltna. Fyrir listunnanda sem aðeins hefur áhugann að vopni er hvert eitt málverk eins og safn ævintýra. Bók um Eggert í jólabókaflóðinu var þess vegna einstakur fengur.

Þetta er sérlega vönduð og falleg útgáfa, skreytt ótal myndum og greinarnar eru aðgengilegar og vel skrifaðar. Hér fæst gott yfirlit yfir feril listamannsins í inngangi Þorláks Einarssonar og grein Þrastar Helgasonar ritstjóra er í senn áhugaverð greining og vel unnin hugleiðing um ástæður þess að verk Eggerts höfða svo sterkt til áhorfenda. Þröstur segir meðal annars:

„Málverk Eggerts lýsa mun fremur innhverfum módernískum ljóðum sem snúast um eitt hugtak eða hugmynd og hafa takmarkaða og á einhvern hátt skerta – truflaða vísun til ytri heims.“

Það að líkja málverkum Eggerts við ljóð og innhverfa íhugun skálds er sérlega viðeigandi. Blóm hafa frá örófi alda verið mönnum innblástur alls konar listsköpunar og kveikja fyrir ímyndunaraflið. Þau hafa sitt eigið táknmál og þeim hafa verið eignaðir yfirnáttúrulegir eiginleikar í þjóðsögum og sögnum. Fólk færir öðrum blóm til að hugga, tjá ást sína, fagna og fegra mannlífið. Eggert staðsetur sín blóm úti í náttúrunni, umskapar íslenska móa og hraunbolla og býr þar til fjölbreytilegan og dásamlegan heim.

Í bókinni er 109 myndir af málverkum Eggerts sem hægt er að sökkva sér ofan í, skoða og finna ávallt nýjar myndir og smáatriði sem áður fóru framhjá rýnandanum. Það hversu vel er að verki staðið í öllu hér og bókin vel unnin magnar upplifunina og gerir bókina að listaverki í sjálfu sér.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 18, 2024 12:21