Syngjandi læknir á hlaupum

Trausti Valdimarsson er læknir og starfandi meltingarsérfræðingur við sjúkrahúsið á Akranesi og á heilsugæslunni í Glæsibæ. Trausti hefur sungið í kór hjá Hilmari Erni Agnarssyni lengi vel og segir kórsöng vera eitt af því sem gefi lífinu gildi en fyrir utan sönginn er hreyfing áhugamál og lætur hann sitt ekki eftir liggja til að boða ágæti hreyfingar. Fram að þrítugu hafði Trausti ekki hreyft sig meira en hann þurfti til að komast á milli staða en nú þegar hann er orðinn sextugur tekur hann þátt í margskonar þrautum bæði á Íslandi og erlendis. Hann fullyrðir að hann sé í betra líkamlegu formi í dag en þegar hann var þrítugur. Þá var hann að reyna að hætta að reykja og varð lafmóður eftir mjög stutta vegalengd. En hann hélt áfram og fann fljótlega hversu vel honum leið við að svitna reglulega. „Ég setti mér markmið og fór mjög ákveðið eftir því sem er hvað mikilvægast ef fólk vill komast í betra form, þ.e. að hætta ekki. Það er erfitt að byrja að hlaupa ef maður er ekki vanur en þá gildir að fara hægt af stað en alls ekki hætta. Skokka frekar hægt vissa vegalengd og bæta svo alltaf svolítið í en halda alltaf dampi. Best er að skrá niður það sem maður vill og ætlar sér að gera og horfa á þann lista reglulega því hann er svo mikil hvatning.“ Þetta ráð gefur Trausti sjúklingum sínum sem koma til hans í lélegu formi og búnir að koma sér upp meltingarkvillum vegna verkjalyfja auk annarra sjúkdóma.

Leitin að mat

Trausti segir að líkaminn sé byggður fyrir leitina að mat. „Forfeður okkar voru sífellt á hreyfingu í leitinni að mat handa sér og afkvæmum. Nú eru lífskjörin orðin svo góð og alltaf til nóg að borða og við þurfum ekkert að hafa fyrir fæðuöfluninni. Við getum ekið upp að lúgunni og keypt tilbúinn mat eða fengið hann sendan heim eða í mesta lagi farið út í búð á bílnum að viða að okkur hráefni til matargerðar. Við þurfum sem sagt ekkert að hreyfa okkur en fáum allt of oft allt of mikið af kolvetnaríkum mat. Það segir sig sjálft hversu óhollur sá lífsstíll er.“

Aldurinn færir okkur ýmislegt, bæði gott og vont

Trausti segir brosandi frá því að honum líði þessa dagana eins og hann sé mjög sprækur á æfingum. „Ég lenti nú samt í brjósklosi fyrir ári og þá læddist að mér sú leiða hugsun að nú væri tími æskufjörs liðinn. Ég varð allt í einu í hreyfingum eins og ég væri orðinn gamall og stirður. Ég gekk um haltrandi, gat ekki hlaupið en ég gat synt og hjólað og þá gerði ég það. Mér tókst svo með æfingum að koma mér í fyrra horf og get nú hreyft mig eins og áður án þess að hafa þurft að fara í skurðaðgerð. Ég finn þó einna helst fyrir brjósklosinu þegar ég þarf að standa lengi við að spegla sjúklinga. Þegar ég finn verki nota ég ýmiss konar jógaæfingar og finnst gott að hanga til að teygja á hryggnum og búa til bil á milli hryggjarliðanna.“ Tausti segir að nú séu  gerðar aðgerðir eins og liðskipti í mjöðm á mjög fullorðnu fólki en áður fyrr hafi ekki þótt taka því þar sem svo stutt væri eftir. „Sem betur fer lifir fólk ekki bara lengur heldur við betri heilsu fram í háa elli ef það hugsar um heilsuna.“

Trausti með sonum og sonarsyni eftir þríþraut í Keflavík.

Þjóðin er að skiptast í tvo hópa

Trausti minnist þess að hafa verið í fimmtugsafmæli föður síns þar sem var samankomið gamalt fólk að honum fannst. „Ég var tvítugur þá og auðvitað var sjónarhornið annað en ég veit að þetta fólk var ekki í góðu líkamlegu ástandi en sem betur fer er annað uppi á teningnum í dag.“ Trausti segir að því sé auðvitað að þakka betra heilbrigðiskerfi og hollari lífsstíl fólks almennt. En nú sé þjóðin samt að skiptast í tvo hópa. „Það eru þeir sem eru meðvitaðir og hugsa um sig, sem eru sem betur fer mjög margir, en svo eru þeir sem fara alla daga akandi til vinnu og svo heim, borða, horfa á sjónvarpið og svo að sofa. Það er uppskrift að heilsufarsvandamálum sem kosta samfélagið ógurlegar fjárhæðir en sem hægt er að koma í veg fyrir með hollari lífsstíl.”

Hár aldur en mikil lífsgæði

Tausti segir að þar sem mun færri reyki nú en áður deyi fólk síður úr lungnateppu og -þembu sem hafi verið algeng dauðaorsök hér áður fyrr. „Nú þekkjum við öll fólk sem hefur náð níræðis aldri og meira , eins og 101 árs gamli maðurinn sem ók fyrstur í gegnum nýju Norðfjarðargöngin um daginn. Hann er dæmi um mann sem hefur ekki gerst sekur um kyrrsetu. Ég hitti mann í gær sem hafði þurft að hætta að kenna frönsku vegna aldurs. Hann dreif sig þá í Leiðsögumannaskólann og fer núna með franska ferðamenn um landið. Svo hitti ég annan sem dreif sig í þennan sama skóla og ætlar að bæta við sig rútuprófi. Fólk er svo skemmtilega hreyfanlegt núna þrátt fyrir háan aldur og nýtur lífsins og skemmtir sér og öðrum.“

Notum stigana

Við vorum ekki fyrr búin að finna upp lyfturnar en að við áttuðum okkur á að við ættum alls ekki að nota þær, enda segir Trausti að lyftur séu fyrir hreyfihamlaða eða vöruflutninga en hann notar lyftur helst ekki sjálfur. „Auðvitað er sorglegt að fólk fari frekar í lyftur en ganga stiga af því það er alltaf að flýta sér. Það kemur síðan niður á börnunum sem þurfa sannarlega á stigaklifri að halda til að þjálfa líkamann ekki síður en þeir eldri. Á aldrinum 20 – 45 ára er yfirleitt mest um að vera í lífi okkar. Við vinnum mikið, eignumst börnin, kaupum húsnæði og þá eru flestir alltaf að flýta sér.“

Traustir nafnar hjá Glym í Hvalfirði.

Ef þú hættir að gera það hættirðu að geta það

„Mér finnst ég sjá aldurinn fyrst og fremst á hreyfingum fólks en ekki andlitinu. Það sem skiptir máli er auðvitað að vera sáttur við sjálfan sig. Ég fæ stundum athugasemdir frá jafnöldrum mínum um að ég sé svo duglegur. Ég segi þeim að ástæðan fyrir spriklinu í mér, sé að mér finnist svo miklu skemmtilegra að lifa lífinu á hreyfingu. Mér finnst þeir margir hverjir vera búnir að sætta sig við það að eldast, farnir að safna ístru með tilheyrandi hættu á sjúkdómum. Bílar á Íslandi eru nefnilega oft notaðir eins og regnhlíf,“ segir Trausti. „Með árunum hægist á brennslunni hjá okkur og þá er meira vit í að kaupa okkur frekar góð regnföt og ganga eða hjóla. Það er gott ráð til þeirra sem hafa ekki tekið hreyfinguna inn í lífsstílinn. Ef við þurfum að styðja okkur við að standa upp úr stól þá hefur það mjög fljótlega áhrif á það hversu gömul okkur finnst við vera. Aldur er nefnilega svo afstæður og ríkulega tengdur hugarfari. Þegar fólk er búið að sætta sig við að vera að eldast gerast hlutirnir hratt. Ég er núna orðinn sextugur og er nú orðið yfirleitt elstur á æfingum. Svo átta ég mig á því stundum þegar sonur minn er með mér á æfingum að flestir í hópnum eru líklega yngri en hann,“ segir Trausti og hlær.

Markmiðasetning

Trausti segir að gott sé að hafa “emmin” þrjú í huga þegar markmiðin eru sett. Fyrst er að hafa markmiðið á hreinu, svo er það meðvitundin um hvað þú ert að gera og að síðustu meðulin sem þú ætlar að nota til að ná markmiðinu. Margir setja sér nokkurra vikna markmið en Trausti segir að betra sé að horfa lengra fram á veginn og setja sér langtímamarkmið. Þannig séu meiri líkur á árangri.

Söngurinn og hreyfingin

Það er bjargföst trú Trausta að hvernig sem við lifum lífinu eigum við að leitast við að hafa gaman af því sem við erum að gera. Hann hefur sjálfur óendanlega gaman af að syngja og ekki síður að verja tímanum í að hjóla eða synda eða bara þá hreyfingu sem líkami hans leyfir honum að framkvæma. Ef þið sjáið syngjandi lækni á hlaupum er það líklegast Trausti Valdimarsson.

 

 

 

Ritstjórn nóvember 23, 2017 11:27