Heilabilun og andleg veikindi kosta mest

Teymi norskra og bandarískrar vísindamanna leiddu nýlega saman hesta sína og gerðu rannsókn á því hvaða sjúkdómar kosta heilbrigðiskerfi landanna mest. Þeir völdu alls hundrað fjörutíu og fjórar sjúkdóma Rannsókn hefur lagt mat á kostnað við alls 144 sjúkdóma og komust að því að byltur, heilabilun og andleg veikindi eru dýrust.

Heilabilun er efst á lista yfir sjúkdóma sem kosta norskt samfélag hvað mest samkvæmt niðurstöðum vísindamannanna. Öll útgjöld er tengjast meðhöndlun og eftirfylgni sjúkdómanna hundrað fjörutíu og fjögurra voru skoðuð en ekki var horft til félagslegs kostnaðar eins og til að mynda veikindaleyfa frá vinnu, aðstoð ættingja og meðferð hjá einkaaðilum.

Rannsakendur gáfu sér þær forsendur að nytsamlegt gæti reynst fyrir yfirvöld að vita hversu mikill kostnaður væri samfara ákveðnum sjúkdómum því það gæfi þeim færi á að forgangsraða fjármagni og efla forvarnir. Það kom ekki á óvart að kostnaður á hvern borgara jókst með auknum aldri en þar munaði mestu um sjúkdóma á borð við heilabilun og heilablóðfall en byltur með tilheyrandi meiðslum og beinbrotum kalla oft á langvarandi útgjöld vegna eftirfylgni meðferða og langvarandi afleiðinga.

Munur á konum og körlum

Rannsóknin sýndi einnig verulegan mun á kynjunum þegar kom að kostnaði innan heilbrigðiskerfisins. Konur voru almennt 23% dýrari hvað þetta varðar en ástæða þess var fjöldi aldraðra kvenna með heilabilun sem dvelja á hjúkrunarheimilum. Þær lifa yfirleitt lengur en karlar sem auðvitað skýrir þennan mun að talsverðu leyti. Í ljós kom einnig að eftir miðjan aldur leita konur í mun meira mæli til heimilislækna, einkum vegna þunglyndis, kvíða, bak- og hálsverkja og annarra stoðkerfissjúkdóma. Karlarnir í sama aldurshópi voru hins vegar kostnaðarsamastir vegna hjarta- og æðasjúkdóma. Það væri fróðlegt að vita hvaða sjúkdómar kosta íslenska heilbrigðiskerfið mest og hvort hér sé um sama mynstur að ræða.

​Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 7, 2024 07:00