Heilabilun gjörbreytir manneskjunni

Handan_minninga_Bókin Handan minninga eftir Sally Magnusson sem er nýkomin út hjá Sölku, fjallar um sjúkdóminn heilabilun sem herjar á milljónir manna um allan heim. Bókina skrifar Sally til að varðveita minningar um móður sína, blaðakonuna Mamie Baird, og hennar einstöku hnyttni og frásagnargáfu.

Urðu fyrst til að finna Ameríku

Alzheimer er sjúkdómur sem gjörbreytir fólki. Mamie Baird var þegar farin að sýna merki um Alzheimer þegar eiginmaður hennar, sjónvarpsmaðurinn kunni Magnus Magnusson, lést úr krabbameini 2007. Sally er dóttir þeirra og er bókin hennar byggð á orðum Mamie Baird, samtölum mæðgnanna og samskiptum þeirra. Sally lýsir því hvernig móðir hennar breytist eftir því sem líður á sjúkdómsferlið, hvernig ranghugmyndir taka við, til dæmis þegar Mamie lýsir því yfir sallaróleg að hún og Magnus hafi verið fyrst til að finna Ameríku.

Gjörbreytist

Í upphafi sjúkdómsferlisins var Mamie ljúf og blíð með húmorinn í lagi og fjölskyldan staðráðin í að sjá um hana heima en undir lokin hafði hún gjörbreyst, talið farið, minnið farið. Ofskynjanir komu upp. Sally lýsir því hvernig móðir hennar er undir lokin beinin ein liggjandi í rúmi, hendur fálmandi út í loftið, hvernig hún upplifir ofskynjanir og getur ekki tjáð sig.

„Handan minninga er bersögul og áleitin fjölskyldusaga, skrifuð af ást, virðingu og söknuði en leiftrandi húmorinn er aldrei langt undan þrátt fyrir erfiðar kringumstæður. Sagan er um leið áhugaverð úttekt á sjúkdómi sem herjar á milljónir manna um heim allan,“ segir í tilkynningu frá Sölku útgáfu.

Flæktist smám saman

Alzheimer er í rauninni gríðarlega fyrirferðarmikið félagslegt fyrirbæri. Sally lýsir því hvernig fjölskyldan flæktist smám saman inn í það og hún sjálf hafi farið að skrásetja söguna með því hugarfari að sagan gæti dregið aðrar svipaðar ævisögur fram í dagsljósið ásamt þeim spurningum sem hún vaki. Á baksíðu bókarinnar segir Sally að heilabilun sé „ein mesta samfélagslega, læknisfræðilega, efnahagslega, vísindalega og siðferðilega áskorun okkar tíma“ og bætir við að sagan sé „ein stærsta saga lífs míns“.

Ritstjórn desember 4, 2014 15:11