Takmörk fyrir því hversu löng ævin getur orðið

Góðar fréttir! Með bóluefnum, heilsusamlegu mataræði og stórstígum framförum í læknavísindum hefur meðalævi mannsins nærri tvöfaldast á síðstliðnum  rúmum 100 árum, frá því að vera í kring um 35 ár um aldamótin 1900 í yfir 70 ár í dag. Meðalævilengd Íslendinga er reyndar heilum áratug lengri en það – íslenskir karlar lifa að meðaltali í 81 ár og íslenskar konur í rúmlega 84 ár, en Íslendingar eru þar með meðal langlífustu þjóða heims.

En þú vilt lifa lengur en þessu nemur? Það er skiljanlegt; óskin um lengri lífdaga er sennilega jafngömul mannkyninu. Reyndar eru tæknifyrirtæki í Kísildal óþreytandi við að ýta undir trú okkar á að fólk eigi að geta hlaupið upp stiga vel fram á tíræðisaldur, og að hugur hvers og eins sé eins kvikur og hann var á barnsaldri alveg fram á tólfta ævituginn. Forgönguhugsuðir þessara fyrirtækja sjá meira að segja fyrir sér að tölvutengdir mannsheilar geymdir í krukku muni geta „lifað“ allt þar til sólin í okkar sólkerfi brennur upp, eins og greint er frá í grein í BBC Science Focus Magazine.

Hve löng getur mannsævin orðið?

Sannleikurinn er sá að slíkar hugmyndin kunna einn góðan veðurdag að virðast eins úreltar og fornar sagnir um lífselixírinn. Frumur líkamans eru, á heildina litið, ekki gerðar til að endast. Líkamar dýra (og erfðaefnið sem býr innra með þeim) eru gerðir til að fjölga sér. Líffræðileg þróun mun alltaf vera stillt inná dauða einstaklinganna, þar sem líkamar sem dvelja meðal hinna lifandi of lengi án þess að fjölga sér verða á endanum „endurnýttir“ – étnir af rándýrum, skákað út af borðinu af keppinautum, fyllast af sníkjudýrum eða lúta einfaldlega í lægra haldi fyrir uppsöfnuðum banvænum skammti af sólargeislun. Á þennan hátt er öldrun með vissum hætti „bökuð inn“ í erfðaefni okkar.

Þetta þróunarfræðilega samkomulag sem maðurinn, eins og önnur dýr, hefur við dauðann þýðir að jafnvel þótt okkur tækist að uppræta alla mannlega sjúkdóma myndi mannslíkaminn eftir sem áður fara að sýna hrörnunareinkenni í seinasta lagi um tíræðisaldurinn. Samkvæmt niðurstöðum víðtækrar rannsóknar sem birtar voru í tímaritinu Nature í maí 2021 mun mannslíkaminn ekki þola að verða mikið eldri en 120 ára. Rannsóknin er byggð á gögnum frá um hálfri milljón sjálfboðaliða í Rússlandi, Bandaríkjunum og Bretlandi. Samkvæmt niðurstöðunum væru 150 ár algjört hámark aldurs áður en uppsafnaðar skemmdir á erfðaefni í líkamanum yrðu það miklar að dauðinn væri óumflýjanlegur.

Hugsanlegt er þó, að mati vísindamanna, að önnur dýr geti kennt okkur sitthvað um leyndardóma langrar ævi. Meðal dýra sem þetta gæti átt við um er stórhumar sem hefur þróað ensím sem verndar DNA-kjarnsýrukeðjur fyrir skemmdum, sem algengt er að þær verði fyrir við æxlun. Og úr hópi spendýra þykir nakta holurottan mjög áhugaverð, þar sem hún lifir gjarnan í allt að 30 ár, eða 15-20 sinnum lengur en venjulegar rottur. Aðalástæða langlífis hárlausu holurottunnar kvað vera að hún megni að takmarka skaðann sem svonefnd sindurefni valda annars oft á lifandi frumum. Vísindamenn binda vonir við að geta „líf-hakkað“ DNA-kóða þessara dýra og þróað á þeim grunni öldrunarhemjandi úrræði fyrir mannslíkamann.

Það er því vel hugsanlegt að það muni í framtíðinni takast að lengja ævidaga mannfólks umtalsvert með hjálp læknisfræðinnar og tækniframfara. En eftir sem áður mun spurningin standa: hve margir ævidagar eru nógu margir ævidagar? Dauði einstaklingsins verður aldrei alveg yfirunninn, hvað sem tækni og vísindum líður. Lífið er stutt, en var mun styttra hjá fyrri kynslóðum. Ætli sé því ekki nær að freista þess að finna lækningu við óttanum við dauðann frekar en við dauðanum sjálfum?

 

Á Vísindavef Háskóla Íslands er að finna góð svör við skyldum spurningum og þeim sem fjallað er um í þessari grein BBC Science Focus Magazine sem hér er vitnað til:

Hvers vegna er ekki hægt að stöðva öldrun í fólki?

Af hverju eldumst við?

Er hugsanlegt að hægt verið að stöðva öldrun algjörlega eða er það óraunsætt?

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar

Greinin birtist áður hjá Lifðu núna 11.janúar 2022.

 

Ritstjórn september 8, 2022 06:57