Eldra fólk hafi áhrif á vísindi og rannsóknir

Vísinda- og tækniráð Íslands efnir til opins samráðs við almenning og hagsmunaaðila um skilgreiningu þeirra framtíðaráskorana sem vísindi og rannsóknir ættu markvisst að takast á við. Ráðið hvetur alla áhugasama til að taka þátt með því að svara stuttri netkönnun með því að smella hér, fyrir 7 október og setja þannig mark sitt á framtíðina.

Hjördís Hendriksdóttir verkefnisstjóri hjá Vísinda og tækniráði hvetur eldra fólk sérstaklega til að taka þátt í þessu verkefni. Hún segir áhuga sinn á þátttöku eldri aldurshópanna fremur persónulegan, en að Vísinda- og tækniráð hafi rætt málið í þaula.

En svo ég svari fyrir mig þá sló það mig þegar ég uppgötvaði að skoðanakannanir taka yfirleitt einungis til 65 ára og yngri. Sjálf er ég 57 ára og finnst það skrýtið ef mín skoðun skiptir ekki máli eftir 8 ár. Ég á 87 ára ömmu sem fylgjist mjög vel með samfélagsmálum og þó hvorki ég né amma verðum hérna eftir 50 ár þá höfum við áhyggjur af því  hvernig afkomendum okkar reiðir af. Varðandi hversu miklu máli það skiptir að eldri borgarar taki þá í svona könnun þá verða niðurstöður hennar áreiðanlegri eftir því sem fleiri taka þátt og hópurinn sem svarar breiðari“, segir hún.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra fylgir þessari könnun úr hlaði á vefsíðu stjórnarráðsins og segir þar:

Við stöndum frammi fyrir ýmsum hnattrænum áskorunum þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmálum og heilsu-, orku- og öryggismálum svo dæmi séu tekin. Sömuleiðis hlýt ég að nefna þá tæknibyltingu sem við stöndum frammi fyrir. Þátttaka alls almennings er lykilatriði til að samfélaginu farnist sem best í að mæta þessum áskorunum.“

Vísinda- og tækniráð mótar opinbera stefnu í vísindum og tækni á Íslandi og hefur það hlutverk að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun í því skyni að treysta stoðir íslensks samfélags. Í stefnu Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2017-2019 er kveðið á um mikilvægi þess að niðurstöður vísindastarfs, nýsköpun og tækni nýtist öllu samfélaginu og að stuðla þurfi að skilningi og áhuga almennings á rannsóknum og nýsköpun.

Vísinda- og tækniráð býður öllum áhugasömum að heimsækja sýningarbás sinn á  Vísindavöku Rannís 2018 sem haldin verður í Laugardalshöllinni föstudaginn 28. september 2018, kl. 16:30-22:00, fylla út könnunina og ræða við fulltrúa Vísinda- og tækniráðs á staðnum.

 

Ritstjórn september 25, 2018 18:23