Gullveig Sæmundsdóttir fyrrverandi ritstjóri skrifar
Ég viðurkenni að stundum er ég óþolinmóð og finnst hlutirnir ekki ganga jafn hratt og greiðlega fyrir sig og ég hefði helst kosið. Kennitalan segir mér hins vegar að ég verði að átta mig á því að takturinn í tilverunni breytist með árunum og mikilvægt að læra að aðlaga sig staðreyndum sem við fáum ekki breytt. Fyrir skömmu átti ég erindi á heilsugæslu. Miðað við umræðuna undanfarin misseri var ég viss um að ég myndi þurfa að bíða rosalega lengi og mér myndi leiðast mjög mikið 😊. Ég hafði því vaðið fyrir neðan mig, stakk símanum í handtöskuna og hafði bók með mér. Fyrr en varði beindist öll mín athygli hins vegar að auglýsingaskilti sem prýddi einn vegg biðstofunnar og öll óþolinmæði var á bak og burt.
Undirskriftin var: Heilsueflandi samfélag – Heilsueflandi framhaldsskóli – Embætti landlæknis – Heilsueflandi grunnskóli – Heilsueflandi leikskóli
Á skiltinu voru fimm ráðleggingar um hvernig hægt er að bæta almenna vellíðan sína. Ég geri mér grein fyrir miðað við undirskriftina að umræddar ráðleggingar eru almenns eðlis og ætlaðar fólki á öllum aldri en þær höfðuðu sannarlega til mín. Ég las textann hratt yfir en fann fljótt að í honum fælust merkilegri skilaboð en svo að mér nægði að lesa þau á örskotsstunduu. Og þá kom tæknin til sögunnar. Ég tók upp símann og smellti mynd af skiltinu góða sem var eins gott þar sem biðin á heilsugæslunni var ekki jafn löng og ég hafði óttast. Síðan hef ég hugsað mikið um það sem fram kom á þessu merkilega plaggi.
Myndum tengsl
Fyrstu skilaboðin fjölluðu um mikilvægi þess að eiga góð samskipti við fólkið í kringum sig. Sem betur fer á ég það. Tilvera og taktur okkar hjóna einkennist af hljóðlátri hlýju en líka festu og öryggi. Í liðinni viku skutlaði ég barnabarni á æfingu, sótti annað í skólann og það þriðja hjálpaði mér að fara með allskonar rusl í Sorpu í dag. Svo fæ ég vonandi foreldrana fljótlega í mat. Ég hitti eina vinkonu á fundi í gær, fór út að ganga með annarri í dag, ætla að snæða með enn annarri í vikunni og hef ákveðið að hitta líka í vikunni hóp vinkvenna , borða með þeim góðan mat og spila bridgee.
Skilaboðin: “Myndum tengsl við fjölskyldu, vini samstarfsfólk og nágranna og gefum okkur tíma til að hlúa að þeim. Jákvæð sambönd við aðra eru einn mikilvægasti þáttur hamingju og vellíðunar.”
Ég er greinilega í góðum málum hvað þennan þátt varðar.
Tökum eftir
Mér er eðlislægt taka eftir umhverfi mínu. Sumum finnst reyndar nóg um og finnst óþarfi að ég sé að hafa orð á blettum á vegg, sjálfsánum furum í hrauninu, geðvondum afgreiðslumanni eða leiðinlegu veðri. Allt hlutir sem tilheyra lífinu og tilverunni og ég verð að sætta mig við. En ég tek líka eftir hvað mosinn er fallega grænn þegar hann kemur undan snjónum, hvað lækurinn er kátur og glaður þar sem hann hoppar og skoppar, hvað mynd sem ég sá í sjónvarpinu var góð en þátturinn á eftir hrútleiðinlegur. Það er því ljóst að ég tek ekki aðeins eftir því sem er fallegt og gott eða hróss vert.
Skilaboðin: “Höldum í forvitnina og tökum eftir hinu óvenjulega. Verum í núinu. Tökum eftir veröldinni í kringum okkur og hvernig okkur líður. Að veita því sem við upplifum athygli hjálpar okkur að meta það sem skiptir okkur máli.“
Það er ljóst að ég skora líka nokkuð hátt í þessum þætti. Ég er á því að framtíð mín sé að mestu leyti liðin. Þess vegna lifi ég í núinu enda er það eini tíminn sem við í raun eigum.
Hreyfum okkur
Ég reyni að hreyfa mig flesta daga. Veður og færð hafa hins vegar sannarlega sett strik í reikninginn hvað þennan þátt varðar undanfarin misseri. Einu sinni í viku hitti ég sjúkraþálfara sem sinnir ýmsu sem hrjáir mig, vegna aldurs og smáslysfara. En hann stappar líka í mig stálinu og hvetur mig áfram þannig að ég er farin að sjá mig í hillingum standa á teig á golfvelli. 😊 Ég hef líka farið til golfkennara og er í leikfimi tvisvar í viku. Þar fyrir utan geng ég úti eins oft og veður og vindar leyfa.
Skilaboðin: “Dönsum, göngum eða förum í sund. Njótum þess að vera úti. Hreyfing veitir vellíðan. Mikilvægt er að finna hreyfingu sem við höfum gaman af og hentar ástandi okkar og getu.”
Ekkert kom mér á óvart eða vakti með mér sektarkennd þegar kom að þessum þætti. Ég veit hins vegar að alltaf er hægt að gera betur. Hreyfing er sannarlega mikilvæg.
Höldum áfram að læra
Máltækið segir: Svo lengi lærir sem lifir. Þó að við stundum ekki formlegt nám lærum við alltaf eitthvað nýtt. Stundum af eigin áhuga en líka af því að kringumstæður neyða okkur til þess. Takturinn í tilverunni breytist með árunum en þá er bara að læra á nýja taktinn og setja sér markmið og áskoranir við hæfi.
Skilaboðin: “Prófum eitthvað nýtt. Rifjum upp gamalt áhugamál. Setjum upp áskorun sem við gætum haft gaman af að takstst á við. Það er skemmtilegt að læra nýja hluti og hefur jákvæð áhrif á sjálfsmyndina.”
Fyrir ári síðan úlnliðsbrotnaði ég og í kjölfarið fylgdu mistök og aðgerðir. Lífsreynslu eins og þeirri fylgir ýmislegt sem maður verður að sætta sig við hvort sem manni líkar það betur eða verr. Þegar ég sá hvert stefndi ákvað ég að reyna eftir mætti að beina fyrst og fremst sjónum að því sem ég get gert en festast ekki í því sem ég ekki get gert. Þegar ég lít til baka sé ég að ég hef lært allt mögulegt af þessari reynslu. Ég viðurkenni að mér þótti það sem ég lærði ekki skemmtilegt en finn að það hefur haft jákvæð áhrif á sjálfsmynd mína að finna hvað ég gat þegar á reyndi.
Gefum af okkur
Þegar mest gekk á varðandi úlnliðsbrotið átti ég sem betur fer marga að sem sinntu mér. Umhyggja þeirra og alúð skipti mig miklu máli. Fyrir bragðið er ég þeim óendanlega þakklát. Ekki aðeins fyrir það sem þau gerðu fyrir mig heldur ekki síður fyrir að hafa kennt mér mikilvægi þess að gera sjálf eitthvað þegar aðrir eiga í erfiðleikum. Við getum lært af öllu. Líka erfiðri lífsreynslu.
Skilaboðin: “Gerum eitthvað fallegt fyrir vin eða ókunnuga manneskju. Sýnum þakklæti. Brosum. Gefum öðrum af tíma okkar. Að sjá okkur sem hluta af stærra samhengi veitir lífsfyllingu og eflir tengsl við aðra.”
Vonandi hef ég gert eitthvað fyrir aðra sem standa frammi fyrir erfiðum áskorunum og lært af því sem aðrir hafa gert fyrir mig. Ég veit hins vegar að ég hef oft brosað og vona að það hafi skipt einhverju máli. Segir ekki í ljóði Einars Benediktssonar: “Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt…”