Gættu þessa dags – lifðu núna

 

Gullveig Sæmundsdóttir

Gullveig Sæmundsdóttir fyrrverandi ritstjóri skrifar:

Þegar óveður geisar og ekki er einu sinni hundi út sigandi er tilvalið að taka aðeins til og það ótrúlega getur gerst. Elskuleg systir mín, Rúna, lést fyrir 17 árum. Mér þótti, og þykir, óendanlega vænt um hana og sakna hennar alla daga – ekki hvað síst á þessum árstíma. Þar sem ég var að þrífa skápana í skrifborðinu mínu rakst ég á texta sem við systur sendum hvor annarri 1997! Mig langar að deila þessum fallegu textum með ykkur. Innihaldið á sannarlega erindi til okkar allra í dag og alla daga.

 

Rúnu texti:
Gæt þessa dags! (Úr sanskrít)

Gæt þessa dags því hann er lífið, lífið sjálft.
Í honum býr allur veruleiki og sannleikur tilverunnar,
unaður vaxtar og grósku, dýrð hinna skapandi verka, ljómi máttarins.
Því að morgundagurinn er hugboð og gærdagurinn draumur. En þessi dagur í dag, sé honum vel varið, umbreytir hverjum gærdegi í verðmæta minningu og hverjum morgundegi í vonarbjarma.
Gæt því vel þessa dags.

Minn texti:
Ef þig langar að syngja( Heimir Pálsson)

Ef þig langar að syngja þinn söng,
er söngvastundin að renna upp núna.
Enginn syngur þann söng í þinn stað.
Á morgun er orðið til söngs of seint,
við syrgjum þau ljóð sem í þögninni dóu.
Svo settu nú ekki þinn söng á frest,
heldur syngdu hann nú! Það er best.

Ef þú, vinur, átt örlitla ást
er ástarstundin að renna upp núna
og enginn mun elska í þinn stað.
Að elska á morgun er allt of seint
og ónýt hver löngun sem fékk ekki að rætast.
Svo sláðu því ást þinni ekki á frest
heldur elskaðu nú! Það er best.

Ef þig langar að njóta þíns lífs
eru lífsins stundir að renna upp núna.
Enginn lifir því lífi í þinn stað.
Að lifa á morgun er löngu of seint,
menn láta sér fátt þótt þú ætlir og viljir.
Svo láttu ekki slá þínu lífi á frest
heldur lifðu því nú! Það er best.

 

Gullveig Sæmundsdóttir október 2, 2017 10:25