Glasið – hálffullt eða hálftómt?

Gullveig Sæmundsdóttir.

Gullveig T. Sæmundsdóttir, fyrrverandi ritstjóri, skrifar

Það er ekki ofsögum sagt að mikið gangi á – bæði hér heima og úti í hinum stóra heimi. Fréttatímar eru dag eftir dag fullir af allskonar hamfarafréttum og nú er svo komið að meira að segja mér, sem hef lengi verið hálfgerður fréttafíkill, þykir nóg um. Flestir fréttatímar byrja á upplýsingum um stöðu mála í heimsfaraldrinum; tölur yfir þá sem hafa greinst sýktir, fjölda þeirra sem þurft hefur að leggja á sjúkrahús og síðan koma upplýsingar um hve margir liggja á gjörgæslu og þá sem eru svo illa haldnir að þeir þurfa að vera á öndunarvél. Vitanlega eru þessi mál grafalvarleg og mikilvægt að við fylgjumst vel með stöðu mála. En sem betur fer búum við hér á landi betur en flestir aðrir í þessu efni og læknar og hjúkrunarfólk hefur staðið sig með miklum sóma. Við erum líka svo farsæl að hafa farið þá leið að treysta á tillögur þeirra sem gerst þekkja, vísindamannanna, og ákvarðanir heilbrigðiðsmálaráðherra sem taka mið af tillögum hinna fyrrnefndu. Og síðast en ekki síst hefur mikill meirihluti þjóðarinnar verið bólusettur sem sannarlega er góðs viti. Í allri þessari neikvæðu umræðu hefur verið eins og ljós í myrkri að fylgjast með dugnaðinum og gleðinni sem einkennir þá sem eru í forsvari fyrir bólusetningarnar og fallegt bros Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, sem er í forsvari fyrir þennan málafokk fyrir hönd Heilsugæslunnar á Höfuðborgarsvæðinu, hreinlega lýsir upp annars drungalegan og niðurdrepandi hamfarafréttatíma.

Um daginn sat ég og spjallaði við unga vini mína, átta ára stelpu og ellefu ára strák. Mér datt í hug að spyrja hvort þau vissu hvað væru fréttir. Í fyrstu sýndu þau málinu lítinn áhuga og sögðust aldrei horfa á fréttir! En þegar ég gekk á þau kom í ljós að þau vissu sínu viti: “Er það ekki stríð og glæpamenn? Eða eldgos og rosaleg slys? Já, og flóð og eldur í skógi sem ekki er hægt að slökkva. Líka ofbeldi og mengun.” Þannig héldu þau áfram að tína ýmislegt til og ef þau væru aðeins eldri hefðu þau örugglega bætt einhverju fleiru við á sömu nótum. Ég ákvað að spyrja „sérfræðingana“ mína hvort þau sæju aldrei neitt skemmtilegt eða fallegt í fréttunum. Þau litu hvort á annað og ypptu öxlum. „Jú, kannski þegar ein kind eignast tvö lömb, eða strákur bjargar ketti sem er fastur einhversstaðar.“ Þar með voru þau rokin út í fallegt sumarið.

Þrátt fyrir framansagt um hamfarir og hálfgerða heimsendaspá megum við hér á landi vera þakklát fyrir svo ótalmargt. Skólamál eru til dæmis að mestu leyti í góðu lagi þó að alltaf megi finna eitthvað sem betur má fara og nauðsynlegt er að ráða bót á eins og á við um flesta aðra málaflokka. Hvað varðar heilbrigðismálin horfir málið öðruvísi við og ljóst að mikilla úrbóta er þörf á þeim vettvangi. Við búum líka í lýðræðisþjóðfélagi og á fjögurra ára fresti gefst okkur, sem höfum kosningarétt, kostur á að kjósa til þings. Það ræðst síðan eftir að talið hefur verið upp úr kjörkössunum og niðurstaða fengist úr samningaviðræðum hvaða flokkar fara með stórn landsins hverju sinni. Ég veit að við verðum að hafa gagnrýna hugsun og eigum ekki að sætta okkur við hvað sem er. Það væri okkur hins vegar bæði hollt og gott að nefna oftar það sem vel er gert og gengur vel.

Eins og margir aðrir lagði ég land undir fót í sumar og naut bjarta íslenska sumarsins. Mest hef ég þó verið heima við og notið hversdagsins en hef líka spilað golf, setið úti og hitt fólk. Góð mannleg samskipti skipta mig miklu máli og ég er svo heppin að eiga kost á slíkum samskiptum, ekki hvað síst heima hjá mér en líka á golfvellinum og víðar. Um daginn skráði ég mig í golf með konum sem ég þekkti ekki neitt. Eins og gengur og gerist í golfi spjölluðum við um daginn og veginn milli þess sem við slógum boltann og eins og vænta má bar ýmislegt á góma. Ein í hópnum sagði okkur frá því að hún hefði heyrt að það skipti miklu máli að fólk ætti sér einhver áhugamál, ekki hvað síst þegar aldurinn færist yfir. Og að mikilvægt væri að tileinka sér áhugamálin meðan við erum í fullu fjöri enda oft erfiðara að læra eitthvað nýtt á efri árum. Við vorum allar sammála um að tölvunotkun og golf væru góð dæmi um slíkt.

Stundum koma ákveðnar ljóðlínur aftur og aftur upp í huga minn. Sem dæmi um slíkt er hending úr ljóði Jóhannesar úr Kötlum: „Vorið kemur heimur hlýnar, hjartað mitt.“ Líka önnur úr ljóði Braga Valdimars Skúlasonar: „Líttu sérhvert sólarlag, sem þitt hinsta væri það. Því morgni eftir orðinn dag, enginn gengur vísum að.“ Þessar fallegu ljóðlínur minna okkur annars vegar á að þó að á móti blási og erfiðleikar steðji að birtir oftast upp um síðir. Hins vegar hvað það er mikilvægt að við reynum að fara vel með lífið því að við vitum aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Þess vegna hef ég tileinkað mér það hugarfar að glasið sé frekar hálffullt en hálftómt.

Gullveig Sæmundsdóttir ágúst 23, 2021 07:00